12. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Ævilöng ánauð - viðtal við Ludvig Guðmundsson

Ludvig Á. Guðmundsson endurhæfingarlæknir á Reykjalundi hefur stýrt meðferðarprógrammi fyrir offitusjúklinga um nokkurra ára skeið. Hann segir tilfinnanlega skorta góðar og nýjar rannsóknir á ástandinu á Íslandi til að hægt sé að átta sig vel á umfangi vandans. Hann dregur þó enga dul á að vandinn sé ærinn og ýmsar rannsóknir undanfarinna ára benda eindregið til þess að hlutfall ofþyngdar og offitu fari vaxandi með þjóðinni.

Þjóðin skiptist í tvennt

WHO skilgreinir það offitu þegar þyngdarstuðull er 30 eða hærri, en ofþyngd þegar þyngdarstuðull er á milli 25 og 30. Þeir sem teknir eru inn í meðferð við offitu á Reykjalundi eru flestir með þyngdarstuðul 40 eða hærri og má segja að viðkomandi séu þá búnir að tvöfalda kjörþyngd sína eða meira. Einstaklingar með þyngdarstuðul 35 eða lægri komast ekki í meðferð við offitu.

Ætti að vera rútínurannsókn

Heimilislæknar koma yfirleitt fyrstir auga á offituvandann vegna tengsla sinna við sjúklinginn og Ludvig segir að meðal þeirra sé vaxandi meðvitund um samspil offitu og almenns heilsufars. "Ég hef lagt til að mat á holdafari sjúklings verði gert að rútínurannsókn hjá heimilislæknum til að hægt sé að fylgjast með hvert sjúklingur stefnir í þessu efni. Hér á Reykjalundi er þetta hluti af almennri læknisskoðun allra sem hingað koma, alveg burtséð frá hvers vegna þeir koma hingað. Við höfum séð mjög mikla aukningu til hins verra frá því við hófum þessar skoðanir 1994. Þá voru 27% þeirra sem hingað komu of feitir en í fyrra voru það 49% og þá eru ekki taldir með þeir sem komu hingað beinlínis vegna offitu. Á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu eru verulega vaxandi áhyggjur vegna þyngdaraukningar fólks sem þangað leitar. Þetta er til stórvandræða á öllum skurðdeildum þar sem offita hefur verulega aukna áhættu í för með sér við allar aðgerðir. Fæðingarlæknar eru í öngum sínum þar sem meðgöngur og fæðingar eru miklu erfiðari hjá konum sem eru of feitar. Ein afleiðing offitu er reyndar ófrjósemi sem hefur ýmsan vanda í för með sér. Árangur af bæklunarlækningum verður umtalsvert minni hjá of þungu fólki og sjúkdómar tengdir offitu sem lyflæknisfræðin þarf að takast á við eru vel þekktir og líklega er enginn áhættuþáttur jafn áberandi og sykursýki hjá þeim sem eru of feitir. Hjartalæknar þurfa að takast á við hjartasjúkdóma sem afleiðingu offitu og þannig mætti áfram telja."Þetta vefsvæði byggir á Eplica