10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Öryggi á vettvangi

- Yfirlitsgrein fyrir lækna

Læknar á Íslandi hafa sinnt bráðaútköllum utan sjúkrahúsa frá upphafi vega. Langalangafi fyrsta höfundar þessarar greinar fór ríðandi að sinna sjúklingum á 19. öld en margt hefur breyst frá þeim dögum.

Fatnaður og búnaður

Tryggja þarf að allir þeir sem vinna á bráðavettvangi hafi nægilegan öryggisbúnað. Rétt er að í vaktbíl læknis séu ávallt til staðar hlý föt og nauðsynlegt er að hann hafi vesti eða áberandi einkennisfatnað til að auðkenna sig á vettvangi. Einnig þarf að vera til staðar hjálmur, vinnuvettlingar og öryggisgleraugu til að nota á vettvangi slysa, en því miður hefur þennan sjálfsagða öryggisbúnað víða vantað í sjúkrabíla. Ólíkt getur verið eftir læknishéruðum hvaða kröfur eru gerðar til læknis varðandi bráðaútköll. Ef nauðsynlegan öryggisbúnað vantar í sjúkrabíl ætti læknir að gera þá kröfu að rekstraraðili sjúkraflutninga bæti úr.

Akstur sjúkrabíls

Áhöfn sjúkrabíls verður að hafa öryggi sitt og annarra efst í huga við akstur líkt og við vinnu á vettvangi. Forgangsakstur sjúkrabíls er beiðni til annarra í umferðinni um forgang, sjúkrabíll á í raun engan rétt umfram aðra vegfarendur þó hann sé með sírenur og blikkandi forgangsljós. Við forgangsakstur verður að veita öðrum ökumönnum svigrúm til þess að bregðast við, taka tillit til aðstæðna og miða ökuhraða við skilyrði. Almenn umferð sem ætlar að víkja undan sjúkrabíl í forgangsakstri getur skapað hættu fyrir þriðja aðila, sérstaklega á umferðarljósum. Æskilegt væri að allir læknar sem geta þurft að aka á forgangi í útköllum tækju sérstök námskeið í slíkum akstri.

Umferðarslys

Fyrsta atriði sem huga þarf að á vettvangi umferðarslysa er að tryggja öryggi og er það verkefni lögreglumanna. Ef lögreglan er ekki komin á vettvang í upphafi aðgerða geta aðrir viðbragðsaðilar þurft að taka þann þátt að sér. Á hann ávallt að hafa forgang á að sinna sjúklingunum.

Iðnaður

Við iðnaðarslys getur verið um að ræða hættu vegna sérhæfðra véla eða bygginga. Á byggingarsvæðum eru yfirleitt hættur til staðar sem getur verið erfitt fyrir óvana að þekkja. Sérstök hætta er til staðar í álverum, vegna háspennu í kerskálum er mikil hætta á banvænu skammhlaupi sé ekki farið eftir þeim öryggisreglum sem þar gilda. Einnig getur verið að rafeindabúnaður starfi ekki rétt vegna segulsviðsins. Við útköll á iðnaðarsvæðum er því æskilegt að starfsmaður vinnustaðarins fylgi áhöfn sjúkrabíls við störf sín og tryggi að öryggis sé gætt, sérstaklega þegar farið er í kerskála álvera. Einnig getur starfsmaðurinn búið yfir mikilvægum upplýsingum sem nýtast við björgun eða vinnu viðbragðsliðs á staðnum, til dæmis um aðkomuleiðir eða hvernig tæki eða vélar virka.

Ofbeldi

Því miður er hætta á að viðbragðsaðilar verði fyrir ofbeldi við störf sín á vettvangi. Í flestum tilfellum er ekki mikil ástæða til að hafa áhyggjur af ofbeldi, enda sem betur fer fáir einstaklingar ofbeldisfullir í samfélaginu. Ekki er þó sjaldgæft að verið sé að sinna einstaklingum sem eru í neyslu áfengis eða fíkniefna og oft er útkallslýsing mjög óljós þannig að hafa þarf hættu á ofbeldi í huga.

Eldsútköll

Þeir sem kallaðir eru til starfa á eldstað þurfa að gæta eigin öryggis. Á eldstað er svæðinu venjulega lokað með tvennum hætti. Á innra hættusvæði eiga eingöngu að vera sérþjálfaðir slökkviliðsmenn í viðeigandi hlífðarbúnaði en læknir staðsetur sig á ytra öryggissvæði þar sem ekki er hætta fyrir björgunarmenn en svæðinu lokað fyrir óviðkomandi. Slökkviliðsmenn sjá um að koma sjúklingum út af innra hættusvæðinu á söfnunarsvæði slasaðra sem á að vera í öruggri fjarlægð frá eldstaðnum sjálfum. Ef fjöldi sjúklinga er mikill fer forgangsröðun og bráðaflokkun fram á söfnunarsvæði.

Óbyggðir og utan alfaraleiðar

Líkt og í öðrum björgunaraðgerðum gildir sú regla á fjöllum og í óbyggðum að fyrst verður að tryggja öryggi björgunarmannanna, en til þess þurfa viðkomandi að hafa þekkingu og reynslu í notkun sérhæfðs öryggisbúnaðar við þær aðstæður. Þeir sem eru kallaðir til að sinna sjúklingi á jökli eða fjalllendi án þess að hafa fengið þjálfun í grunnatriðum fjallamennsku, svo sem að klæða sig fyrir ýmis veður, beita mannbroddum, notkun línu, snjósleða eða GPS-tækis, eru öðrum háðir um að tryggja öryggi sitt og geta því orðið dragbítur á björgunarstarfið. Það er því ávallt matsatriði hvort rétt sé að læknir taki þátt í björgunarleiðangri í óbyggðum eða bíði í byggð og láti sérþjálfuðum björgunaraðilum eftir fjallaferðir. Að sjálfsögðu getur sú ákvörðun einnig farið eftir því hverjir aðrir séu í björgunarleiðangrinum, eðlilegt er að treysta þjálfuðum bráðatækni til að sinna mun alvarlegri vandamálum en manni með skyndihjálparþekkingu.

Vatn og sjór

Aðgangur að réttum hlífðarfatnaði og flotvestum eru frumskilyrði þess að viðbragðsaðilar geti sinnt störfum á og við vötn eða sjó. Enginn ætti til dæmis að fara um borð í báta án þess að vera í flotvesti. Einnig er hér spurning um vinnuaðstöðu, lítil vinnuaðstaða er um borð í flestum bátum. Ef vegalengdir eru ekki þeim mun meiri er rétt að setja upp söfnunarsvæði slasaðra á öruggu svæði á landi. Ef vegalengdin er hins vegar mikil er spurning hvort útbúa eigi sérstakan bát til þess að sinna sjúklingum og setja bátinn þá upp þannig að vinnuaðstaða sé um borð. Vinna við straumvatn eða á ís getur verið mjög hættuleg og ekki réttlætanlegt að björgunarmenn leggi sig í hættu án þess að þeir séu sérstaklega þjálfaðir til þess að eiga við þessar hættur.

Sjúkraflug

Í mörgum tilvikum er sjúkraflug fljótlegasta og ódýrasta leiðin til að flytja sjúkling á sjúkrahús. Meti læknir ástand sjúklings af einhverjum ástæðum ótryggt fyrir flutning með sjúkraflugi skal leita annarra leiða. Ósjaldan er farið í sjúkraflug við aðstæður þar sem almennt farþegaflug yfir Íslandi liggur niðri. Það er á ábyrgð flugmanna og flugumsjónar að meta hvort veðuraðstæður og lendingarskilyrði séu örugg til flugs en læknum er óheimilt að hafa áhrif á ákvarðanir flugmanna sem snúa að flugöryggismálum.

Að taka að móti þyrlu

Ef þyrla er væntanleg til aðstoðar á vettvang þurfa þeir sem eru á staðnum ávallt að reyna að finna hentugan lendingarstað í nágrenninu. Haldin eru sérstök námskeið í móttöku þyrlu og sé þess nokkur kostur ætti aðili með slíka sérþekkingu að taka að sér stjórnun á jörðu niðri.

Þakkir

Jón Bjartmarz,
Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Helga Magnúsdóttir
Auðunn Kristinsson
hmb@centrum.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica