10. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Hugleiðingar höfundar. Trúin flytur liðmús. Steinun Sigurðardóttir

Það er ein af þversögnunum í minni tilveru að ég elska eina starfsstétt umfram aðrar, lækna auðvitað, bæði nær (þá sem ég er svo heppin að þekkja) og fjær. Því ég hef ekkert nema góða reynslu af því að leita til lækna, jafnvel þótt þeir séu ókunnugir. En hvernig kemur það heim og saman við þá staðreynd að ég dríf mig yfirleitt ekki fyrr en í lengstu lög. Og það sem meira er, fer helst ekki eftir ráðleggingum og uppáskriftum.

Ef það er skrifað upp á fer ég að vísu í næsta apótek með reseftið, og sný heim með lyfin, alls hugar fegin. Gái svo hvort mér ætli nú ekki að fara að skána meðan dollur og meðalaglös hvíla í friði uppi á hillu. Þeim er svo hent, kyrfilega útrunnum og óáteknum í næstu flutningum, eða í síðbúinni vorhreingerningu. (Undantekning: Ef Einar Thor ordínerar út af lungnakjaftæði er dollan strax opnuð og meira að segja farið að reglum um inntöku).

Ég man eftir stórfelldu lyfjamisferli af framangreindri sort þegar ég átti heima í París. Þrálátir bakverkir og maginn ekki orðinn vel góður. Ég neyddist af stað. Lækninum var illa brugðið yfir því að þessi framandi sjúklingur væri búin að „abímera“ (skemma) í sér magann með aspiríni, jafnvel á fastandi maga. (Svona fer fyrir þverhausum sem vilja ekki taka meðul, því þeir kunna það ekki heldur). Ég fór frá lækninum með uppáskrift á fimm eða sex tegundir af lyfjum, og syngjandi út úr apótekinu yfir því hvað þetta var ódýrt miðað við Ísland, meðan ég vigtaði lyfjapokann fríhendis gegn ímynduðum íslenskum poka og gerði verðsamanburð.

Þegar heim var komið settist ég niður og las spjaldanna á milli hvað var í hverjum stauk og hvers konar aukaverkunum mætti hugsanlega búast við af inntöku. Ég sá fyrir mér að sístemið mundi hrynja ef ég færi allt í einu að taka sex sortir af töflum samtímis, með yfirvofandi margfeldi aukaverkana, svo ég valdi úr tvær tegundir og nartaði eitthvað í þær, ekki samkvæmt forskrift. Önnur var, af illri nauðsyn, verkjatöflur. Skömm er frá því að segja fyrir manneskju sem hefur forneskjulega lyfjamótstöðu, að þetta reyndust svo merkar pillur að síðan bregð ég mér ekki milli landa nema hafa þær í farteskinu. Hefur það iðulega komið sér vel, einkum fyrir aðra en mig, og varð nú síðast til þess að „bjarga lífi“ sessunautar míns í langflugi eins og hann orðaði það, en hann var altekinn af höfuðverk (vonandi ekki af því að tala við mig). Það merkilega við þetta franska verkjalyf er að það þjónar tilgangi sínum, slær sem sagt á verk, og hefur ekki aðrar aukaverkanir en þær að skapið skánar og símtöl lengjast, að því er virðist fyrir hvetjandi áhrif á talstöðina.

(Bakverkirnir í París læknuðust svo endanlega með því að ég fór að venja komur mínar í nálæga líkamsræktarstöð í átjánda hverfi og rifjaði þar upp mér til samlætis marga gleðisnauða stund við sömu iðju úr einni og annarri svitastokkinni rækt í Reykjavík og nágrenni.)

Það sæmir mér sem sagt síst að vera lyfjaþverhaus, úr því ég hef prófað eitt sem virkar, fyrir utan lungnatöflurnar hjá Einari sem fyrst var getið – og svo hálspilluna í Frankfurt. Þar var rithöfundurinn kominn á bókastefnu, með svo svæsna hálsbólgu að hann varð eiginlega hræddur. Læknirinn skrifaði upp á lyf með því formerki að ekki mætti láta það í sig nema endilega þyrfti. Eina töflu á dag. Ég ætlaði þá að harka þetta af mér, enda viðvörun læknisins ískyggileg. Hálsbólgan varð þó ískyggilegri en viðvörunin og át ég því pilluna, í votta viðurvist. Varð einkennalaus á korteri. Spurði vottana hvort ég væri orðin endanlega vitlaus eða hvort svona túrbómeðul væru yfirleitt til. Þeir sögðu að svona meðul væru til. Við skulum þá segja það, en svo mikið víst að ekkert sem á daga mína hefur drifið kemst nær yfirskilvitlegri reynslu eða kraftaverki á staðnum en áhrifin af þýsku hálspillunni.

Skammarlegri efahyggjunni varðandi meðul fylgir svo skefjalaus vantrúin á allt sem getur flokkast undir kírúrgískt inngrip. Þó hef ég neyðst til að láta draga úr mér tannbrot heima og heiman.En þá passa ég að láta ekki deyfa mig og lágmarka þannig skaðann af inngripinu.

Mótstaðan gegn kírúrgískum inngripum náði hámarki þegar gamalt hnjámeiðsl tók sig upp hér um árið þannig að ég komst hvorki lönd né strönd nema með harmkvælum og hækjum. Þrátt fyrir þá kröppu stöðu leist mér ekki á að leita læknis frekar en fyrri daginn - sá fyrir mér speglun, uppskurð jafnvel, sýkingar í kjölfarið og frekari örkuml.

Svo fór þó að læknir kom mér til bjargar og læknaði mig. Með því að lána mér íbúðina sína.Ég var þá gestkomandi á Íslandi og hefði ekki átt auðvelt með að halda kyrru fyrir á mínum góða gististað - en það gerði ég nú í lánsíbúðinni. Var við rúmið í þrjá daga. Studdi mig við hurðarkarm eða hækju þegar ég fór á ról og vingsaði veika fætinum. Upp úr þessu varð hnéð smám saman albata og hefur ekki til þess spurst síðan. Kannski trúin flytji þá ekki bara fjöll, heldur einnig liðmús. Því ef það er eitthvað sem ég trúi á þegar kvillarnir herja þá er það hæfileg hvíld, með viðeigandi hörku til þess að kría sér út hvíldina.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur fæddist í Reykjavík 1950. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og BA prófi í sálarfræði og heimspeki frá University College í Dublin 1972. Steinunn var fréttamaður útvarps og fréttaritari með hléum frá 1970-1982. Hún hefur einnig starfað sem blaðamaður og þáttagerðarmaður við útvarp og sjónvarp.

Steinunn gaf út fyrstu bók sína, ljóðabókina Sífellur, 19 ára gömul og vakti hún strax athygli. Hún skrifar jöfnum höndum skáldsögur og ljóð, og smásögur úr hennar penna eru með þeim snjallari sem til eru á íslensku. Árið 1995 fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað og síðasta bók hennar, Sólskinshestur, var tilnefnd til sömu verðlauna 2005. - Bækur hennar hafa verið þýddar á önnur mál og frönsk kvikmynd byggð á skáldsögunni Tímaþjófinum var frumsýnd árið 1999.Þetta vefsvæði byggir á Eplica