09. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Gott að læra í Danmörku

Ragnheiður Valdimarsdóttir er á þriðja ári í læknisfræðinámi við Syddansk Universitet í Óðinsvéum á Fjóni í Danmörku og hefur nám nú í september á sjöttu önn námsins. Hún segist upphaflega hafa sótt um námið í Danmörku til vara og ætlað sér að sækja um líka í læknadeild HÍ. Ég sendi umsóknina í mars og var boðuð út til Óðinsvéa í viðtal og inntökupróf í maí en alls sóttu 1250 manns um inngöngu og af þeim voru 300 boðaðir í viðtal. Viku eftir viðtalið sem fór fram á dönsku var mér boðið pláss í deildinni og þar sem mér hafði litist svo ljómandi vel á allar aðstæður þarna þá ákvað ég að þiggja boðið og aldrei varð neitt af því að ég sótti um í HÍ. Því má svo bæta við að Ragnheiður var ein af 125 sem fengu inngöngu í læknadeild Syddansk Universitet eftir viðtölin svo ekki þarf að efast um að hún hafi staðið sig vel á inntökuprófinu. En kunni hún meira í dönsku en gengur og gerist meðal íslenskra stúdenta.

Nei, í rauninni ekki. Grunnurinn minn var menntaskóladanskan en ég æfði mig talsvert áður en ég fór í viðtalið og það dugði. Fyrirlestrar og próf fara fram á dönsku og bækurnar eru ýmist á dönsku eða ensku. Það er ætlast til þess að nemendur skrifi og tali dönsku. Annað gengur ekki.

Ætlar að starfa á Íslandi

Hún segist hafa haft góðar spurnir af skólanum í gegnum aðra íslenska stúdenta. Það eru um 30 Íslendingar í læknadeildinni í Óðinsvéum og svo eru talsvert margir í Kaupmannahöfn og Árósum. Samtals eru íslenskir læknanemar í Danmörku ríflega 100 og eru þá ótaldir þeir sem stunda framhaldsnám í sérgreinum en þeir eru eflaust nokkrir.

Hún segir námið byggt upp á mjög svipaðan máta og við læknadeild HÍ. Frá og með haustinu verður námið hér byggt upp sem blokkakerfi eins og í HÍ svo þetta er mjög hliðstætt. Fyrri hluti míns náms byggðist upp á stórum prófum í einstökum greinum en nú er ég komin á seinni hluta námsins og fer inn í blokkakerfið, 3-6 vikur í senn. Í stórum dráttum er þetta því svipað þó einstakar áherslur séu mismunandi. Ég get nefnt sem dæmi að lyfjafræðin er meira kennd hér samhliða kúrsum en heima er stór kúrs í lyfjafræði á þriðja ári.

Ragnheiður segist njóta námsins og búsetunnar í Óðinsvéum út í ystu æsar. Þetta er mjög skemmtilegt nám og andinn í skólanum og meðal Íslendinganna er mjög góður.

Aðspurð hvort hún stefni á að starfa sem læknir í Danmörku segist hún alltaf hafa hugsað sér að koma heim að loknu námi og starfa á Íslandi. En þetta gefur þann möguleika að starfa í Danmörku, að kunna dönsku og þekkja danska heilbrigðiskerfið eftir námið hér. Ræturnar eru engu að síður á Íslandi og margir íslensku læknastúdentanna hafa tekið hluta af verklega náminu heima á Íslandi til að kynnast íslensku sjúkrahúsunum og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar. Það er mjög gagnlegt. Ég sé líka fyrir mér að fara eitthvað annað í sérnám síðar til að stækka sjóndeildarhringinn og öðlast fjölbreyttari reynslu.

Ragnheiður Valdimarsdóttir læknanemi í Óðinsvéum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica