09. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Doktorsvörn í Uppsölum

Helgi Birgisson varði nýverið doktorsritgerð sína: Cancer of the colon and rectum. Population based survival analysis and study on adverse effects of radiation therapy for rectal cancer við læknadeild Háskólans í Uppsölum, Svíþjóð. Leiðbeinendur voru dr. Lars Påhlman prófessor, dr. Ulf Gunnarsson dósent báðir við skurðdeild Akademiska sjúkrahússins í Uppsölum og dr. Bengt Glimelius prófessor við krabbameinslækningadeild Akademiska sjúkrahússins í Uppsölum og Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.

Vörnin fór fram í Uppsölum þann 19. maí í auditorium minor í Museum Gustavianum. Andmælandi var dr. Ragnar Hultborn prófessor við krabbameinslækningadeild Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg og í dómnefnd voru dr. Per Hall prófessor í geislafaraldsfræði við Karolinsku stofnunina í Stokkhólmi, dr. Per-Olof Nyström prófessor við skurðdeild Karolinska sjúkrahússins í Huddinge, Stokkhólmi og dr. Ingela Tuvesson prófessor í krabbameinslækningum við Akademiska sjúkrahúsið í Uppsölum.

Doktorsritgerðin byggðist á þremur birtum vísindagreinum og einni vísindagrein í handriti:

Birgisson H, Talbäck M, Gunnarsson U, Påhlman L, Glimelius B. Improved survival in cancer of the colon and rectum in Sweden. Eur J Surg Oncol 2005; 31: 845-53.

Birgisson H, Påhlman L, Gunnarsson U, Glimelius B. Occurrence of second cancers in patients treated with radiotherapy for rectal cancer. J Clin Oncol 2005; 23: 6126-31.

Birgisson H, Påhlman L, Gunnarsson U, Glimelius B. Adverse effects of preoperative radioation therapy for rectal cancer: Long-term follow-up of the Swedish Rectal Cancer Trial. J Clin Oncol 2005; 23: 8697-8705.

Birgisson H, Påhlman L, Gunnarsson U, Glimelius B. Late gastrointestinal disorders after surgery for rectal cancer and the relationship to preoperative radiation therapy (Handrit).

Upplýsingar frá sænsku krabbameinsskránni voru notaðar til að reikna út hlutfallslegar lífslíkur (relative survival rate) sjúklinga í Svíþjóð með ristil- og endaþarmskrabbamein og til að finna síðkomin krabbamein (second cancers) tengd geislameðferð hjá sjúklingum sem gengist hafa undir aðgerð vegna endaþarmskrabbameins. Sjúkraskýrslur auk upplýsinga um innlagnir frá sænsku sjúklingaskránni voru notaðar til að meta seinar aukaverkanir vegna geislameðferðar fyrir aðgerð hjá sjúklingum með endaþarmskrabbamein. Lifunarrannsóknir byggðust á upplýsingum frá allri sænsku þjóðinni en sjúklingar sem tóku þátt í Uppsala rannsókninni og Sænsku endaþarmskrabbameinsrannsókninni á geislameðferð vegna endaþarmskrabbameins lágu að baki rannsóknum um seinar aukaverkanir og uppkomu síðkominna krabbameina.

Hlutfallslegar 5 ára lífslíkur sjúklinga með bæði ristil- og endaþarmskrabbamein bötnuðu marktækt á tímabilinu 1960-1999, frá 39,6% til 57,2% og frá 36,1% til 57,6%. Lífslíkur sjúklinga með endaþarmskrabbamein bötnuðu hlutfallslega meir.

Sjúklingar sem voru geislaðir vegna endaþarmskrabbameins höfðu meiri hættu á að fá síðkomin krabbamein samanborið við þá sjúklinga sem höfðu eingöngu gengist undir skurðaðgerð. Þessi aukna hætta var nær eingöngu tengd uppkomu krabbameina í líffærum sem lágu innan eða við geislunarsvæðið (RR 2,04; 95% CI 1,10-3,79). Auk þess reyndust mikilvægustu seinu aukaverkanirnar eftir geislameðferð vera tengdar meltingarvegi, það er þarmastífla (RR 1.88; 95% CI 1,10-3,20) og kviðverkir (RR 1,92; 95% CI 1,14-3,23). Ávinningur geislameðferðar fyrir aðgerð reyndist vega þyngra en neikvæðar hliðar meðferðar, þessir sjúklingar höfðu betri lífslíkur og staðbundin endurkoma krabbameinsins var sjaldgæfari. Þannig voru 20,3% sjúklinga í Sænsku endaþarmskrabbameinsrannsókninni sem höfðu verið geislaðir greindir með staðbundna endurkomu krabbameinsins eða síðkomið krabbamein samanborið við 30,7% sjúklinga sem voru eingöngu meðhöndlaðir með skurðaðgerð (RR 0,55; 95% CI 0,44-0,70).

Álykta má að lífslíkur sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein hafi batnað umtalsvert á undanförnum áratugum. Sérstaklega á þetta við um sjúklinga með endaþarmskrabbamein sem er líklegast tengt betri skurðtækni og geislameðferð fyrir aðgerð. Neikvæð áhrif geislameðferðar eru þó til staðar þar sem þessir sjúklingar eru í aukinni áhættu á að fá síðkomin krabbamein og þarma-stíflu. Þetta sýnir að bæta þarf geislunartækni og einnig velja til geislameðferðar sjúklinga sem hafa meira gagn en ógagn af henni.

Doktorsritgerðina sem er á ensku má nálgast í fullri lengd sem PDF skjal á heimasíðu Uppsala háskóla: http://publications.uu.se

Helgi Birgisson er fæddur 1967. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1987 og embættisprófi í læknisfræði frá HÍ 1994. Helgi hlaut sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum 2002 og starfar nú sem sérfræðingur við skurðdeild Akademiska sjúkrahússins í Uppsölum og fæst þar við sjúkdóma í ristli og endaþarmi. Sambýliskona Helga er Margrét Agnarsdóttir meinafræðingur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica