09. tbl 92. árg. 2006
Umræða og fréttir
Starfsemi CPME 2005-2006
CPME, fastanefnd evrópskra lækna, heldur þrjá fundi á ári. Eftir stækkun Evrópusambandsins hefur aðildarlöndum CPME fjölgað og eru nú orðin 27: Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Kýpur, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland. Aðild eiga læknafélög hvers lands fyrir sig og fleiri læknasamtök; samtök heimilislækna (UEMO), sérfræðinga (UEMS), unglækna (PWG), læknanema (EMSA), spítalalækna, AEMH, CEOM, EANA, FEMS.
Frá 1. janúar 2006 hef ég verið einn af fjórum varaforsetum samtakanna. Þeir eru kosnir til tveggja ára en mega sitja tvö slík kjörtímabil, forsetinn einungis eitt. Núverandi forseti er Daniel Mart frá Lúxemborg en varaforsetar auk mín þeir Marco Bitenc frá Slóveníu, Jean-Louis Calloc´h frá Frakklandi og Manuel Sanchez Garcia frá Spáni.
Nýafstaðinn júnífund í Brussel sóttu rúmlega 100 fulltrúar enda nokkrar sendinefndir fjölmennar.
Fjórar undirnefndir voru að störfum í Brussel
I. Undirnefnd um forvarnir og umhverfismál
a) Forvarnaráætlun fyrir Evrópu. Vinnuhópur hefur unnið að undirbúningi fyrir ráðstefnu í Lúxemborg 2007 í samstarfi við Evrópuráðið.
b) Næring. Sagt frá þátttöku fulltrúa CPME í ESB starfi.
c) Reykingavarnir og tóbaksauglýsingar. Evrópuráðið sendi viðvörun til tveggja Evrópulanda, Þýskalands og Lúxemborgar, í febrúar 2006 þar sem tilskipun um bann við tóbaksauglýsingum og fjárstuðning frá tóbaksframleiðendum hefur ekki enn orðið að lögum þar.
II. Undirnefnd um skipulag heilbrigðisþjónustu, sjúkratryggingar og heilsuhagfræði
A) Eftir margra ára baráttu lækna um: 1. skilgreiningu á vinnutíma á vöktum, 2. lengri aðlögunartíma, 3. að hægt sé að segja sig frá reglum, 4. hvíldartíma eftir vaktir, - hefur ráðherraráð ESB loksins staðfest að heilbrigðisþjónusta verði undanskilin í tilskipun um þjónustu. Hins vegar er í pípunum sérstök tilskipun sem unnið verður að á næstu mánuðum. Vinnuhópur CPME mun koma sjónarmiðum lækna á framfæri.
B ) Endurskoðun á vinnutímatilskipuninni.
C) e-Health. Vinnuhópur hefur fjallað um stefnumótun um rafræna sjúkraskrá, heilsukort, trúnað o.fl.
D) Tími sem varið er í samskipti læknis og sjúklings.
E) Samfelld þjónusta við sjúklinga.
F) Sagt frá auknu samstarfi aðildarlanda ESB og DG Sanco.
II. Undirnefnd um siðfræði og fagmennsku
a) Siðfræði (professional codes of ethics). Áfram rætt um niðurstöður víðtækra spurningalista frá Póllandi sem lagðar voru fram í mars 2006.
b) Heilbrigðisstarfsmenn sem fara yfir landamæri. Ítrekuð afstaða CPME að ekki skuli koma upp miðlægum gagnagrunni um lækna.
c) Versnandi heilbrigðisþjónusta á Gaza og Vesturbakkanum.
d) Afleiðing þess að heilbrigðisstarfsfólk vantar á heimsvísu.
e) Læknisþjónusta til handa flóttamönnum og þeirra sem leita eftir hæli sem pólitískir flóttamenn. Spurning frá danska læknafélaginu um hvort aðferðir í hverju landi við að heimila ofangreindum hópum að njóta læknisþjónustu stangist á við siðfræði lækna.
III. Undirnefnd um kennslu læknisefna, endur- og símenntun og gæðaþróun
a) CPME CPD ráðstefna verður haldin í Brussel 14. desember 2006. Ráðstefnan verður að hluta kostuð af BMJ og unnið er að yfirlýsingu sem borin verður upp.
b) Fróðlegar upplýsingar um kennslu læknanema í Kanada
Fjármál
Árgjöld hafa ekki verið hækkuð í nokkur ár. Nokkur halli er á árinu 2005, en róið hefur verið áfram að því öllum árum að skera niður kostnað. Þriðjungur af kostnaði sem nemur alls um milljón evrum fer í að reka skrifstofu í Brussel. Þriðjungur í baktjaldamakk og önnur slík verkefni og þriðjungur í fundahöld. Á móti kemur að starfið er markvissara og áhrif samtakanna hafa vaxið mjög. Til þeirra er leitað þegar mál eru í vinnslu svo læknar koma nú að ákvarðanatöku og stefnumótun langt umfram það sem áður var.
Ályktanir
Fjórar ályktanir frá WMA voru kynntar, Tókýó-ályktunin þar sem fram koma leiðbeiningar til lækna vegna pyndinga og annarrar grimmrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar í varðhaldi eða fangelsum, reglur frá WMA sem gilda um stríðsástand, yfirlýsing um fuglaflensu og Genfarheitið frá september 1948 endurvakið. Mér finnst að það ætti að birtast í sérhverju tölublaði Læknablaðsins til þess að minna okkur á hvernig læknastéttin á ávallt að hegða sér. Frábært plagg.
Síðasta verk júnífundar CPME 2006 var að samþykkja samhljóða ályktun sem hljóðar svo:
Í ljósi þess hve heilbrigðisþjónustu hrakaði á Gazaströnd og Vesturbakkanum, að hluta til í kjölfar þess að ESB dró til baka fjárstuðning sinn, fagna Samtök evrópskra lækna nýlegri tilkynningu um að ESB ætti að taka á ný upp stuðning og auka hann. Samtökin telja að takmörkun á fjárhagslegum stuðningi megi ekki valda íbúum viðkomandi landa heilsutjóni og hvetja ESB til að tryggja að lyf og lækningatæki verði undanþegin hömlum sem löndum eru settar.
Þá var samþykkt ályktun um faglegt sjálfstæði lækna að beiðni hollenska læknafélagsins en þar í landi hefur tryggingafélag boðið heimilislæknum umtalsvert fé ef þeir fylgja klínískum leiðbeiningum út í æsar og ef 75-95% af lyfseðlum þeirra vegna ákveðinna lyfja eru stílaðir á samheitalyf.
Í ályktun CPME segir m.a. að faglegt sjálfstæði tákni að læknir geti vikið frá klínískum leiðbeiningum þegar hann telur nauðsynlegt. Þegar um mismunandi valkosti sé að ræða þurfi læknar að huga að kostnaði og árangri af meðferð en ávallt ganga út frá því sem læknisfræðilega er best fyrir sjúklinginn. CPME mælir með því að læknar haldi sig frá því sem brotið gæti í bága við faglega ábyrgð.
Fyrir því reyndist ekki hljómgrunnur að taka EUMASS inn í samtökin (European Union of Medicine in Assurance and Social Security) þar sem það bryti í bága við lög samtakanna. Meðlimir EUMASS eru sumir starfandi á vegum yfirvalda en lagagreinin gerir ráð fyrir faglegu sjálfstæði sem EUMASS telst ekki búa við.
Að lokum
Í mörgum löndum Evrópu standa læknar í ströngu:
Læknar við 100 sjúkrahús í Póllandi eru í verkfalli.
Læknar í Þýskalandi eru gerðir persónulega ábyrgir fyrir kostnaði vegna lyfseðilsskyldra lyfja ef þeir fara fram úr fjárhagsáætlun.
Tryggingafélag í Hollandi hefur boðið heimilislæknum fjárhagslegan ábata af því að skrifa upp á samheitalyf eða ódýrari lyf.
Mikill áhugi er meðal lækna í löndum Austur-Evrópu að flytjast til V-Evrópu og um 168 hafa nú þegar hafið störf í Frakklandi. Brain drain fyrir heimalandið.
Svissneskir heimilislæknar eiga í útistöðum við yfirvöld sem virðast vilja stytta framhaldsnám þeirra úr 5 árum í 2-3. 16.000 læknar mættu á útifundi og um 300.000 manns hafa undirritað skjal máli þeirra til stuðnings
Í Austurríki eru ýmis vandamál tengd notkun e-card eftir 6 mánaða reynslutíma. Sjúklingum finnst þeir geti farið til hvaða læknis sem er, til sérfræðings án tilvísunar, fengið lyfseðla hér og þar o.s.frv. Stjórnvöld höfðu ekki séð þetta fyrir.
Sjálf hef ég beitt mér fyrir umræðu um sjálfstæði, ábyrgð og lagalega stöðu lækna. Í heilbrigðislöggjöf margra aðildarlanda hefur orðið LÆKNIR vikið fyrir orðinu HEILBRIGÐISSTARFSMAÐUR. Þetta hefur víða gerst þegjandi og hljóðalaust með þeim afleiðingum, að því er ég tel, að ábyrgð lækna gagnvart greiningu og meðferð sjúklinga þynnist út, hverfur úr lagamáli og það getur varla verið sjúklingum til hagsbóta. Það hljóta að vera réttindi þeirra að ábyrgð lækna sé skýr.
Þá hef ég komið af stað umræðu um erfðabreytt matvæli og áhrif þeirra á heilsu manna. Því er haldið fram að ekkert hafi komið fram sem sýni að þau séu skaðleg heilsunni. Sé dæminu snúið við má segja að rannsóknir sem sanni hollustu þeirra hafi ekki verið gerðar. Viss ástæða er til að ætla að þrýstingur sé á ESB að hleypa erfðabreyttum matvælum frá Bandaríkjunum (sem framleiða 2/3 allra slíkra matvæla í heiminum) inn á markaði í Evrópu.