09. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Endurskoðun skyndihjálparkennslu á Íslandi

Á Íslandi hefur almenningi lengið staðið til boða ítarleg skyndihjálparnámskeið þar sem fjallað er um algenga bráðasjúkdóma, ýmsa áverka og rétt viðbrögð á neyðarstundu. Hafa námskeiðin náð talsverðri útbreiðslu en samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands hafa um 3000-5000 manns sótt skyndihjálparnámskeið á vegum félagsins árlega.

Skyndihjálparkunnátta er mikilvæg eins og allir vita en ekki hefur tekist að fjölga þeim sem sækja námskeið eins og æskilegt væri. Til að stuðla að aukinni útbreiðslu skyndihjálparkunnáttu á landinu hefur Skyndihjálparráð Íslands unnið ötullega síðustu tvö ár með Rauða krossi Íslands að róttækri endurskoðun á áherslum í námsefni og fyrirkomulagi skyndihjálparkennslunnar.

Í fyrstu var mörkuð sú stefna að í skyndihjálparkennslu bæri að leggja áherslu á lífsbjargandi atriði. Það mikilvægasta sem almenningur var talinn þurfa að kunna í skyndihjálp var í raun að vita hvenær hringja skyldi í 112 og hvað gera ætti þar til sjúkrabíll kæmi á vettvang.

Ný framsetning skyndihjálpar á námskeiðum og í námsefni byggist á skiptingu hennar í þrjá meginhluta:

  • endurlífgun
  • slys
  • bráð veikindi

Í endurlífgunarhlutanum er fjallað um hvernig greina skuli hjartastopp, minnt á að hringja í 112 og leiðbeint um hjartahnoð og blástur. Einnig er fjallað um hvernig losa á aðskotahluti úr öndunarvegi. Byggir þessi kennsla á ítarlegum evrópskum leiðbeiningum um grunnendurlífgun sem þýddar voru af Skyndihjálparráði fyrr á þessu ári og eru aðgengilegar á vef Landlæknis.

Í slysakaflanum er lögð áhersla á að tryggja öryggi á slysstað, enda getur hæglega gleymst að koma í veg fyrir frekari slys. Kennt er hvernig einfaldast er að stöðva blæðingu og hvernig skuli bregðast við höfuðhöggi, bruna og beinbrotum. Einnig er minnt á að eftir hátt fall eða harðan árekstur verður að flytja alla til læknisskoðunar þar sem leyndir lífshættulegir áverkar geta verið til staðar þó engin einkenni finnist í fyrstu.

Þegar fjallað er um bráð veikindi er reynt að skoða ekki sérstaklega tiltekna sjúkdóma, svo sem kransæðastíflu eða astma. Í staðinn er gerð grein fyrir helstu einkennum sjúkdóma og farið í hvernig almenningur getur þekkt og brugðist rétt við til dæmis brjóstverk eða mæði, en sjúkdómsgreining er látin læknum eftir.

Við endurskipulagningu skyndihjálparkennslunnar hefur verið leitast við að stytta námskeið og gera þau hagnýtari. Útbúið hefur verið nýtt fjögurra klukkutíma grunnnámskeið í skyndihjálp og vonast til að unnt verði að ná verulega aukinni útbreiðslu með því að bjóða upp á svo stutt námskeið.

Kennslutækni í verklega hluta námskeiðsins hefur einnig verið breytt verulega frá því sem áður var og lögð er áhersla á að veita þátttakendum sem raunverulegasta þjálfun í að bregðast við í neyð. Framkvæmd hjartahnoðs og öndunaraðstoðar er kennd, en auk þess er leitast við að veita þátttakendum tækifæri til að upplifa að standa frammi fyrir bráðu vandamáli og að leysa úr því. Það felur venjulega í sér að tryggja öryggi á vettvangi, hringja á hjálp og síðan framkvæma handtökin í réttri röð.

Áfram verða hins vegar í boði ítarlegri námskeið í skyndihjálp fyrir þá sem hafa áhuga á að læra meira. Á nýja fjögurra tíma grunnnámskeiðinu sem helst allir þyrftu að sitja og rifja upp reglulega er að mati ráðsins réttara að fjalla eingöngu um áðurnefnd lífsbjargandi atriði.

Í endurskoðun á kennsluefni hefur verið leitast við að hafa framsetningu og útlit þess sem líkasta. Má þar nefna að sömu myndirnar og svipaður texti er notaður í fyrirlestrum fjögurra klukkutíma grunnnámskeiðsins og í bæklingnum sem þátttakendur geta fengið á námskeiðum og á veggspjaldi sem hengja má upp á vinnustað til að minna á lykilatriðin. Vert er að nefna að efnið hefur einnig fengið pláss í símaskrá landsmanna.

Stefnt er að því að bjóða fleiri sérhæfð námskeið fyrir fagstéttir og hagsmunahópa. Síðustu sjö ár hefur Rauði krossinn haldið sérhæft námskeið í skyndihjálp og björgun fyrir starfsfólk sundstaða, en mikilvægur hluti af slíkum námskeiðum er að hópurinn fái að æfa sig á heimavelli við sem raunverulegastar aðstæður. Í ágúst 2005 fór af stað nýtt námskeið ætlað starfsfólki grunnskóla en á því er fjallað sérstaklega um ýmis vandamál sem koma upp hjá börnum og unglingum. Nú er unnið að sérhæfðu námskeiði fyrir atvinnubílstjóra þar sem ítarlegar er farið í viðbrögð á vettvangi umferðarslyss. Stefnt er að því að bæta við fleiri námskeiðum, svo sem skyndihjálp í iðnaði og skyndihjálp fyrir starfsfólk veitingahúsa.

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vef RKÍ, www.redcross.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skyndihjálparráð Íslands er skipað fulltrúum:

  • Landlæknis
  • Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins
  • Menntamálaráðuneytisins
  • Félags leiðbeinenda í skyndihjálp (FLÍS)
  • Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
  • Slysavarnafélagsins Landsbjargar
  • Rauða kross Íslands


Þetta vefsvæði byggir á Eplica