09. tbl 92. árg. 2006

Fræðigrein

áhættumat árið 2000

Ágrip

Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar er að gera grein fyrir áhættumati á vinnuumhverfi og líðan starfsmanna hjá Leikskólum Reykjavíkur.

Efniviður og aðferðir: Áhættumat á 16 leikskólum er fengið með vinnuumhverfismati gerðu af sérfræðingi í vinnuvernd og rannsókn Vinnueftirlits ríkisins á starfsmönnum á leikskólum byggðri á spurningalista. Leikskólarnir voru flokkaðir í fjóra flokka byggðum á vinnuumhverfismatinu. Matið var síðan borið saman við niðurstöður spurningalistans.

Niðurstöður: Um 90% starfsmanna svöruðu spurningalistanum (n=320) og mat á vinnuumhverfi var gert áður en niðurstöður spurningalistans lágu fyrir. Mikil starfsánægja einkennir starfið á leikskólum en sýnu mest á minnstu leikskólunum, þar sem vinnuumhverfið er metið verst, meirihluti starfsmanna er fagmenntaður og elstur. Minnsta starfsánægjan er þar sem vinnuumhverfið er metið best. Líkamleg óþægindi starfsmanna eru mikil og mest hjá þeim hópi fólks þar sem vinnuumhverfið er metið verst, en starfsánægjan mest. Óþægindi eru minnst hjá þeim flokki sem hefur lægstan meðalaldur og býr við besta vinnuumhverfið. Um helmingur starfsmanna hefur fengið kennslu í líkamsbeitingu og segir að hún gagnist í starfi. Hávaði mælist of mikill í flestum mælingum og starfsmenn segja í yfir 80% tilvikum að hávaðinn hafi valdið óþægindum í síðasta mánuði. Vinnustellingar niður við gólf eru áberandi hjá öllum flokkum án tillits til vinnuaðstæðna.

Ályktun: Starfsumhverfi á leikskólum einkennist af miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þrátt fyrir það einkennist vinnuumhverfi á leikskólum af mikilli starfsánægju en hún er þannig ekki alltaf til vitnis um að vinnuumhverfið sé í lagi.

Inngangur

Sögulega séð hafa leikskólar ekki verið skoðaðir sem ,,hættulegt vinnuumhverfi, en nýlegar rannsóknir sýna nú umtalsverða hættu á veikindum og slysum starfsmanna tengdum vinnu (1). Kröfur til starfsins, umhverfi og skipulag geta aukið hættu á vinnutengdum slysum, veikindum, og óánægju starfsmanna (1, 2). Við mat á vinnutengdum áhættuþáttum er því mikilvægt að skoða bæði líkamlega og andlega heilsu starfsmanna og þá sálfræðilegu og félagslegu þætti í vinnuumhverfinu sem geta skipt máli fyrir heilsu þeirra (2, 3).

Fáar rannsóknir fjalla beint um vinnuumhverfi á leikskólum en flestar eru gerðar eftir 1993 (3-5). Erlendar rannsóknir gefa til kynna að konur á barneignaraldri eru meirihluti starfsmanna og eru oft með takmarkaða menntun og erfiða þjóðfélagsstöðu (1, 6). Heilsufar starfsmanna á leikskólum í Milwaukee í Bandaríkjunum var kannað. Starfsmenn nefndu að heilsufar hafi orðið lélegra eftir að vinna á leikskóla hófst. Er þar um að ræða aukna tíðni margs konar einkenna og veikinda. Einnig er það mat starfsmanna sjálfra að offita sé tvöfalt algengari hjá þeim, en uppgefin tíðni meðal þjóðarinnar (4). Það er hins vegar ljóður á þessum rannsóknum að svarendahópur er ekki lýsandi fyrir starfsmenn leikskóla í heild. Rannsóknirnar eru annaðhvort með litla svörun starfsmanna (2-4) og/eða lítinn rannsóknahóp (3, 5).

Vinnustaðir byggja á starfsmönnum og frá sjónarmiði vinnuveitenda er mikilvægt að þeir séu við sem besta líðan og heilsu til þess að afköst og gæði vinnu verði sem best. Markmið starfsmanns er á sama hátt að afla sér viðurværis sem er grundvöllur almennrar vellíðunar og velmegunar. Saman mynda þessir þættir grunn lýðheilsu sem öll vinnuvernd snýst um. Grundvöllur allra vinnuverndar- aðgerða eru skýr markmið og nákvæm skoðun á þeim þáttum sem hafa áhrif á markmiðin.

Í þessum anda fóru Leikskólar Reykjavíkur af stað með tilraunaverkefnið Heilsuefling í Leik-skólum Reykjavíkur vorið 2000 í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins. Tilgangur fyrsta hluta verkefnisins var að meta vinnuaðstöðu á leikskólum og leggja mat á samspil heilsu, líðanar og vinnuumhverfis starfsmanna á leikskólum í Reykjavík. Þessum þætti verða gerð skil hér.

Leikskólarnir sem tóku þátt voru samtals 16 og áttu að endurspegla allar gerðir af leikskólum í Reykjavík, eldri skóla, nýja skóla, stóra og litla. Vinnueftirlitið hefur í skýrslu dregið saman heildarniðurstöður varðandi svör starfsmanna við spurningum er lúta að heilsu þeirra og líðan (7). Skýrslan svarar hins vegar ekki þeirri mikilvægu spurningu hvort samsvörun sé á milli mats starfsmanna leikskóla á eigin vinnuumhverfi, heilsu og líðan og hvernig vinnuumhverfið er samkvæmt vinnuumhverfismati (vinnumatseinkunn) gerðu af sérfróðum aðila.

Tilgangur þessarar rannsóknar er því einkum að athuga samanburð á leikskólum varðandi:

1. Aðbúnað, umhverfi og vinnustaðaflokka.

2. Hvað einkenni vinnuumhverfi á leikskólum með tilliti til umhverfisþátta, vinnustellinga og sálfélagslegra þátta.

3. Líkamleg óþægindi starfsfólks og viðhorfa þeirra til vinnuaðstöðu.

Efniviður og aðferðir

Tilraunaverkefnið Heilsuefling í leikskólum í Reykjavík hófst með áhættumati til að skoða hvernig vinnuumhverfi og líðan starfsmanna var í upphafi verkefnisins. Æðstu stjórnendur Leikskóla Reykjavíkur óskuðu eftir að leikskólarnir myndu endurspegla allar gerðir leikskóla, bæði litla, stóra, gamla og nýja. Því voru leikskólarnir ekki valdir af handahófi, heldur af sérfróðum aðilum innan leikskólanna. Leikskólarnir 16 voru um 22% leikskóla í Reykjavík árið 2000.

Í maí sama ár lögðu starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins ítarlegan spurningalista fyrir alla starfs-menn leikskólanna. Þar var spurt um líkamlegt álag og líkamsbeitingu, félagslega og andlega álagsþætti, vinnuumhverfi, lífsstíl, fyrra heilsufar, veikindafjarvistir og einnig um persónulega hagi (7). Vísindasiðanefnd veitti leyfi til rannsóknarinnar (00/020-S1). Útreikningar voru gerðir í SPSS (8). Ekki var um normaldreifingu að ræða í flokkunum fjórum sem mynda vinnumatseinkunnina og því var mismunur meðaltala metinn út frá Kruskall-Wallis prófi. Hlutföll voru metin með Kí-kvaðratprófi (9).

Í júní árið 2000 framkvæmdi fyrsti höfundur úttekt á vinnuumhverfi starfsmanna. Í tengslum við verkefnið var nefnd sett á laggirnar en í henni voru tveir sérfræðingar Vinnueftirlits úr Rannsókna- og heilbrigðisdeild ásamt þrem fulltrúum starfsmanna frá þrem leikskólum í verkefninu. Nefndin kom að umræðu í upphafi um aðferðir við vinnustaðamatið. Við undirbúning verksins var stuðst við vegvísi um mikilvæg vinnuverndarmál á leikskólum og sólarhringsstofnunum fyrir börn sem danska vinnueftirlitið sendi frá sér árið 1999 (10).

Í úttekt á vinnuumhverfi voru aðstæður metnar inni á deildum, á salernum, skiptiaðstöðu og í fataklefa. Sameiginleg aðstaða starfsmanna, það er kaffistofa og undirbúningsherbergi, var einnig metin svo og aðstaða leikskólastjóra og eldhús. Í samtölum við starfsmenn var mjög áberandi að hávaði var sá umhverfisþáttur sem flestir töluðu um að ylli þeim ama. Til að sannreyna þær yfirlýsingar var fengið leyfi fyrir mælingu á hávaða í nokkrum skólum. Starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins framkvæmdi hávaðamælingu (svokölluð skammtamæling) í þrem leikskólum, einum nýjum og tveim eldri. Starfsmenn á 14 deildum báru mæla í fjórar klukkustundir fyrir hádegi í október 2000. Einnig var gerð endurkastsmæling (ómtímamæling) í einum nýlegum leikskóla.

Nauðsynlegt reyndist að koma úttekt á vinnuumhverfi yfir á tölulegt form (raðbreytur) til að geta borið saman við niðurstöður úr spurningalistakönnun Vinnueftirlitsins frá árinu 2000 og þannig athugað hvort úttektin gæti varpað frekara ljósi á svör starfsfólks. Vinnuumhverfismatið byggist á 14 þáttum sem lögð hefur verið áhersla á er meta skal vinnuumhverfi á leikskólum (3, 10). Þættirnir innihalda áþreifanlegt vinnuumhverfi (physical), en taka ekki fyrir andlega og félagslega þætti (tafla I). Þættirnir eru metnir á kvarðanum 0-5, þar sem 5 í einkunn gefur mjög gott, 4 þýðir gott, 3 er nokkuð gott, 2 er sæmilegt, 1 þýðir óviðunandi og 0 þýðir að aðstöðuna eða vinnutækin vantar alveg. Við þetta fær hver leikskóli vinnumatseinkunn. Þannig eru niðurstöður skoðaðar út frá leikskólum en ekki á einstaklingsgrunni. Leikskólarnir eru síðan flokkaðir í fernt þar sem flokkur A fær skilgreiningu sem mjög gott vinnuumhverfi, B er gott vinnuumhverfi, C nokkuð gott og D sæmilegt. Í flokki A eru skólar sem hafa að meðaltali yfir 3,5 af fimm mögulegum í einkunn, skólar B eru með 3,1-3,5, skólar C hafa að meðaltali frá 2,6-3,0 og D eru um og undir 2,5.

Skólar A samanstanda af tveim, fjögurra til fimm deilda leikskólum, en í skólum D eru fjórir minnstu skólarnir eða tveggja til þriggja deilda leikskólar. Hinir (B og C) samanstanda af fimm leikskólum hvor, sem eru af öllum stærðum. Niðurstöður spurningalistans frá Vinnueftirliti ríkisins eru skoðaðar út frá flokkunum sem mynda vinnumatseinkunnina.

Vert er að hafa í huga að mikil endurnýjun varð á húsnæði í flokki A árið 1999. Breytingar sem framkvæmdar voru við þá endurnýjun heppnuðust mjög vel út frá vinnuvistfræðimati og urðu ákveðnar fyrirmyndir varðandi úrbætur fyrir aðra í þessu verkefni.

Niðurstöður

Spurningalistinn sem Vinnueftirlitið lagði fyrir árið 2000 fékk svörun 90% starfsmanna (n=320). Svarendur voru nær einungis konur, á aldrinum 18-69 ára.

Fjöldi í flokkunum sem mynda vinnumatseinkunnina er tvískiptur (tafla II). Flestir þátttakenda eru í B og C, en mun færri í D og A (p<0,001).

Meðalaldur starfsmanna í flokkunum er frá 33 ára í A og síðan stighækkar aldurinn upp í D, en þar er meðalaldur um 40 ár (tafla II).

Starfsmönnum er skipt í stjórnendur og fag-lærða starfsmenn annars vegar og ófaglærða starfsmenn hins vegar (tafla II). Ófaglærðir starfsmenn eru fæstir í flokki D (31%) en 55-60% í hinum flokkunum (p<0,05).

Ekki er marktækur munur milli flokkanna út frá starfsaldri á leikskólunum en hann er frá rúmlega sex ára upp í tæplega sjö ára starfsaldur í D (tafla II).

Yfir 60% starfsmanna í B og C hefur skipt um starf á síðustu fimm árum, en um 45% í A og D. Hins vegar hefur enginn í D skipt um starf þrisvar eða oftar en yfir 20% starfsmanna í öðrum flokkum (p<0,01).

Fæstir starfsmenn í D vinna aukavinnu, eða um 14% (p<0,05). Fjöldinn er mestur í A, eða um 40% starfsmanna (tafla II).

Starfsmenn voru spurðir hvort aðstaðan á deildinni væri þannig að hægt væri að vinna í þægilegum vinnustellingum. Svörunin sýnir að 90% þeirra er svara í A segja já að mestu eða að nokkru leyti á meðan 60-70% svara slíku játandi í hinum flokkunum þremur (p<0,01).

Spurningin varðandi þrengsli sem hefur valdið óþægindum í síðasta mánuði sýnir að í D segja 67% já, oft eða stundum, 60% í C og um 50% í A og B .

Niðurstaða varðandi aðstöðu og þrengsli styður vinnumatseinkunnina. Þó sker D sig úr varðandi aðstöðu en starfsmenn þar meta aðstöðu sína betri en starfsmenn í B og C.

Hávaði er sá þáttur í umhverfinu sem hefur valdið starfsmönnum mestum óþægindum í síðasta mánuði. Starfsmenn í A-C segja í yfir 90% tilvika að hávaðinn valdi óþægindum en um 80% í D (p<0,05).

Hávaðamælingarnar staðfesta mikinn hávaða í vinnuumhverfi starfsmanna. Meðaltalshljóðstig var frá 77,5-88,5 dB. Viðmiðunin er að meðaltalshávaði eigi ekki að fara yfir 85 dB á átta stunda vinnudegi. Tíu mælingar af 14 voru yfir þeirri viðmiðun. Hæstu hljóðstig eiga ekki að fara yfir 110 dB. Þau mældust 109-125 dB. Aðeins ein mæling var undir 110 dB. Ómtímamæling fór fram í einum leikskóla og taldist vera mjög gott ástand í þeim skóla. Viðmiðunin er að ómtíminn sé sem stystur þannig að hljóðendurkastið verði sem minnst.

Þegar kunnátta varðandi líkamsbeitingu er skoðuð sést að um helmingur starfsmanna í A-C hefur fengið kennslu en um 70% starfsmanna í D (p<0,001). Hins vegar hefur 30-40% ófaglærðra fengið kennslu í A-C en um 70% í D.

Þegar litið er á vinnustellingar starfsmanna (tafla III) kemur í ljós að þrátt fyrir mismunandi vinnuumhverfi er aðeins marktækur munur milli flokkanna í einni þeirra, að vinna með hendur langt frá líkama. Þar segja innan við 20% í A og D að þeir séu oft eða mjög oft með hendur langt frá líkama en allt að 50% í B (p<0,001). Í öðrum vinnustellingum er áberandi að 58-78% starfsmanna í öllum flokkum svara að þeir vinni oft eða mjög oft í vinnustöðum niður við gólf. Hins vegar segjast aðeins um 17-41% í hverjum flokki vera oft eða mjög oft að vinna snúnir eða að lyfta og bera.

Félagslegir og andlegir þættir

Í spurningunum er vörðuðu félagslega og andlega þætti reyndist marktækur munur milli vinnumatsflokkanna í nokkrum þáttum (tafla IV).

Starfsmenn í D fá hæstu svörun í fjórum af sex spurningum þar sem marktækur munur er milli flokka. Flokkur A kemur aðeins á einum stað best út Flokkur A er með lægstu svörun í þremur spurningum af sex.

Þegar starfsmenn eru spurðir hvort þeir geti sinnt börnunum vel á leikskólanum kemur í ljós að um 95% starfsmanna í B og C segjast oftast eða stundum geta það, en 75-80% í hinum hópunum (p<0,001).

Þegar spurt er hvort starfsmaður komi með tillögur um hagræðingu eða breytingar til að létta störfin segjast um 90% í A, B og D gera það oft eða stundum á meðan 75% í C svarar slíku (p<0,05). Varðandi að fá stuðning ef vinna er erfið (p<0,05), er jákvæð svörun um 67% í A en um 86-93% í hinum flokkunum.

Þegar starfsmenn eru beðnir að svara því hvort starfsandinn sé afslappaður og þægilegur svarar D að meðaltali 8,8 á skala frá 1-10 að þeir séu sammála því en svörun hjá hinum flokkunum er að meðaltali 7,4-7,7 jákvæð (p<0,001). Sama á við um svör við spurningu um tortryggni og grunsemdir, en með öfugum formerkjum (p<0,001).

Ekki reyndist marktækur munur milli vinnumatsflokkanna er varðar samskipti við yfirmenn (allir flokkar >90%) eða foreldra; samstaða á vinnustað (allir flokkar >90%); fá hrós; andlega fjölbreytt eða einhæft starf; skreppa frá vegna símtala eða úr vinnu; tímapressa við vinnu; samræma kröfur og væntingar foreldra og samstarfsmanna og varðandi upplýsingaflæði.

Líkamleg einkenni

Þegar spurt er um líkamlegt erfiði við vinnu, svara 70% starfsmanna í D því játandi en 60-65% í hinum flokkunum. Þetta snýst við þegar spurt er um andlegt erfiði. Þá er flokkur D lægstur en hinir hærri.

Líkamleg líðan starfsmanna er athuguð með spurningum um hvort starfsmenn hafi haft óþægindi (sársauka, verki, ónot) frá ýmsum líkamssvæðum síðustu 12 mánuði. Þá kemur í ljós að mikill meirihluti starfsmanna í öllum flokkum (70-90%) hefur haft líkamleg óþægindi frá hálsi, öxlum og mjóhrygg (tafla V). Óþægindi frá efri hluta baks eru minni eða 22-50%. Starfsmenn í D eru almennt með mestu óþægindin síðustu 12 mánuði. Flokkur D er með mestu óþægindin frá hálsi og öxlum, en A frá mjóbaki og efri hluta baks.

Marktækur munur er milli flokkanna þegar spurt er um óþægindi frá mjöðmum síðustu 12 mánuði (p<0,01). Minnstu einkennin eru hjá A (19%), þar sem yngsta fólkið er, en mestu einkennin hjá elsta flokknum sem er D (54%). Óþægindi frá hnjám eru svipuð hjá öllum flokkunum eða 30-35%.

Einnig var spurt um líkamleg óþægindi síðustu sjö daga (tafla V). Starfsmenn lýsa minni óþægindum þegar spurt er um þau síðustu sjö daga heldur en þegar spurt er um þau síðastliðna 12 mánuði og er munurinn 9-47%. Þó er það þannig að um helmingur til þrír af hverjum fjórum sem hafa óþægindi einhvern tíma síðustu 12 mánuði hafa þau einnig síðastliðna sjö daga. Ekki er marktækur munur milli flokkanna varðandi líkamleg óþægindi síðustu sjö daga.

Umræða

Styrkur þessa verkefnis liggur í mikilli þátttöku starfsmanna. Um 90% starfsmanna í 22% leik-skóla í Reykjavík tóku þátt. Leikskólarnir voru valdir með tilliti til þess að allar vinnuaðstæður á leikskólum í Reykjavík myndu endurspeglast í verkefninu. Vinnustaðamatið er gert af einum aðila þannig að ekki myndast skekkja vegna margra matsaðila. Matið er auk þess framkvæmt án þess að niðurstöður úr svörum starfsmanna liggi fyrir og eru því mælingarnar óháðar hvor annarri. Þátttakan bendir til að vinnuumhverfið skipti starfsmennina miklu máli og að þeir hafi trú á verkefninu frá upphafi.

Í alþjóðlegu samhengi hafa rannsóknir sem beinast að leikskólastarfsmönnum nær eingöngu birst frá Bandaríkjunum. Fram að þessu fjalla þær flestar um sýkingar. Nokkrar rannsóknir beinast þó að andlegu álagi með kulnun sem afleiðingu og einnig vinnuvistfræðilegum þáttum eða líkamlegu álagi með ýmsum óþægindum frá stoðkerfi (4, 6, 11, 12). Norðurlöndin virðast ekki hafa gert neinar rannsóknir á þessu sviði en hafa birt góðar leiðbeiningar um hvað þurfi að meta í vinnuverndarstarfi á leikskólum (10). Heimsóknir starfsfólks Leikskóla Reykjavíkur til Norðurlanda og Hollands hafa vitnað um að mikið er lagt upp úr góðu vinnuumhverfi á leikskólum í þessum löndum þó engar rannsóknir hafi fundist um það.

Flokkarnir fjórir sem grundvallast á vinnumatseinkunninni í þessu verkefni eru ólíkir innbyrðis hvað varðar stærð, fjölda starfsmanna, meðalaldur og fjölda faglærðra og ófaglærðra. Flokkur A hefur tvo stóra skóla innbyrðis, á meðan D hefur svipaðan fjölda starfsmanna en fjóra litla skóla. Mesti fjöldinn er í B og C þar sem hvor flokkur samanstendur af fimm misstórum skólum. Yngstu starfsmennirnir eru í hópi A og flestir eru ófaglærðir. Flokkur D er elstur, meiri hlutinn er faglærður og hefur lengstan starfsaldur. Verulegt samræmi er á milli álits starfsmanna á vinnuaðstöðunni og vinnumatseinkunn.

Þegar skoðaðar eru erlendar rannsóknir um vinnustellingar á leikskólum kemur í ljós að krafa vinnunnar nauðsyn þess að lyfta og bera börn, vera snúinn, bograndi og seta á litlum húsgögnum og á gólfi hefur verið óaðskiljanlegur þáttur vinnu á leikskóla (3, 5, 6, 12). Eftir því sem börnin eldast minnkar burður og lyftingar á þeim, en það er fyrst upp úr þriggja ára aldri (3, 12). Til að sannreyna þetta sýndi Hostetler (1984) fram á að starfsmaður leikskóla bograði 200 sinnum á dag og lyfti 9600 pundum á hverjum degi (12). Niðurstöður spurningalistans hér á landi staðfesta að erfiðar vinnustellingar eru fyrir hendi hvort sem aðbúnaður er mjög góður eða sæmilegur. Mikill meirihluti starfsmanna vinnur með hendur niður við gólf, svo sem bograndi, á hækjum sér og krjúpandi (60-75%). Spyrja má að því hvort þekkingarleysi valdi því að þeir tengja snúning og það að lyfta og bera byrðar ekki í ríkara mæli við þau óþægindi sem þeir finna fyrir en raun ber vitni. Þessa ólíku sýn má ef til vill rekja til þess að hér á landi er svörunin byggð á starfsmönnum leikskóla en erlendis frá á ályktunum sérfræðinga/rannsóknaraðila en ekki á svörum starfsmanna vegna þess hve rannsóknarhóparnir þar eru fámennir og/eða lítil svörun hefur fengist frá starfsmönnum.

Lokaorð

Þar sem aðbúnaðurinn er metinn verstur einkennast vinnustaðirnir af litlum leikskólum sem hafa elstu starfsmennina sem hafa unnið lengst og á sama stað og þar sem meirihluti er faglærður bæði á starf og líkamsbeitingu. Þar er einkennandi mikil starfsánægja, samheldni og hrós, en þar eru einnig mestu líkamlegu óþægindin. Þar meta starfsmenn líkamlegt erfiði meira en andlegt en meta aðbúnaðinn betri en vinnumatseinkunn sýnir.

Heimildir

1. Bright KA, Calabro K. Child Care Workers and workplace hazards in the United States: Overview of research and implications for occupational health professionals. Occup Med 1999; 49: 427-37.
2. Calabro KS, Bright KA, Cole FL, Mackey T, Lindenberg J, Grimm A. Child Care Work. Organizational Culture and Health and Safety. AAOHN Journal 2000; 48(10): 480-6.
3. King PM, Gratz R, Scheuer G, Claffey A. The ergonomics of child care: conducting worksite analyses. WORK 1996; 6: 25-32.
4. Gratz RR, Claffey A. Adult Health in Child Care: Health Status, Behaviors, and Concerns of Teachers, Directors, and Family Child Care Providers. Ear Childhood Res Quarterly 1996; 11: 243-67.
5. Owen BD. Intervention for Musculoskeletal Disorders Among Child-Care Workers. Pediatrics 1994; 94/Suppl. 60: 1077-9.
6. Calder J. Occupational Health and Safety Issues for Child-Care Providers. Pediatrics 1994; 94/Suppl. 60: 1072-4.
7. Helgadóttir B, Rafnsdóttir GL, Gunnarsdóttir HK, Hrafnsdóttir KÓ, Tómasson K, Jónsdóttir S, et al. Könnun á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum í Reykjavík (skýrsla). Reykjavík: Vinnueftirlitið, 2000. www.vinnueftirlit.is/page/research
8. SPSS. SPSS Base 7.5 for Windows, User's Guide. In: Chicago, IL.: SPSS, 1997.
9. Wayne WD. Biostatistics: A Foundation for Analysis in the Health Sciences. John Wiley&Sons, Toronto 1987: 610-5.
10. Arbejdstilsynet. Arbejdsmiljøvejviser 46. Dag- og døgninstitutioner for børn og unge (serial online) 1999 (cited 2000 Feb).: www.at.dk/sw5808.asp#afs5
11. Swanson NG, Piotrkowski CS, Curbow B, Graville S, Kushnir T, Owen D. Occupational health and Safety Issues in Child Care work. Pediatrics 1994; 94/Suppl. 60: 1079-80.
12. Gratz RR, Claffey A, King P, Scheuer G. The Physical Demands and Ergonomics of Working with Young Children. Ear Child Develop Care 2002; 172: 531-7.
13. Vinnueftirlitið. Hávaði og heyrnarvernd. Reykjavík: Vinnueftirlitið 2001.

www.stoej.bar-sosu.dk

14. Branchearbejdsmiljørådet Social & Sundhed. Støj i Daginstitutioner (serial online) 2001 (cited 2002 Nov).

www.at.dk/sw7383.asp

15. Arbejdstilsynet. Støj og akustik (serial online)2001 (cited 2004 Nov).

www.arbeiddstilsynet.no/publikasjoner/arbeidervern/art95.html

16. Haakensen EB. Må det støye i barnehagen (serial online) 2005 (cited 2005 Nov).
17. Siebert GW. Hazardous Noise of a Child Care Center. Am Ind Hyg Assoc J 1989; 50: A809.
18. Markon P, LeBeau D. Health and safety at work for day-care educators. Chicoutimi 1994; Canada: Universite du Quebec.
19. Kushnir T, Milbauer V. Managing Stress and Burnout at Work: A Cognitive Group Intervention Program for Directors of Day-Care Centers. Pediatrics 1994; 94/Suppl. 60: 1074-7.
20. Aasa U, Brulin C, Ängquist KA, Barnekow-Bergkvist M. Work-related psychosocial factors, worry about work conditions and health complaints among female and male ambulance personnel. Scand J Caring Sci 2005; 19: 251-8.
21. Violante FS, Graziosi F, Bonfiglioli R, Curti S, Mirrioli S. Relations between occupational, psychosocial and individual factors and three different categories of back disorder among supermarket workers. Int Arch Occup Environ Health 2005; 78: 613-24.

www.jech.com

22. Siegrist, J. Psychosocial work environment and health: new evidence (serial online) 2005 (cited 2005 Des).

atak@mmedia.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica