09. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Opin ritrýni

Kamran Abbasi, hinn tiltölulega nýbakaði ritstjóri JRSM (Journal of the Royal Society of Medicine) í Bretlandi, varpar fram róttækri tillögu í ágústhefti tímaritsins. Þar lýsir hann því yfir að frá og með septemberhefti JRSM verði allri nafnleynd aflétt af ritrýnum vísindagreina í tímaritinu. Þetta gengur í rauninni þvert á stefnu nær allra vísindarita í veröldinni í dag, þar sem nafnleynd ritrýna vísindagreina er álitin undirstaða þess að tryggja óvilhalla ritrýni og hindra hagsmunaárekstra eða hagsmunagæslu.

Abbasi sem áður var einn ritsjóra BMJ vísar til leiðaraskrifa í New York Times fyrr í sumar þar sem harmað var hversu illa væri komið fyrir bandarískum læknatímaritum sökum þess að útgefendur þeirra væru undir áhrifum af leyndum hagsmunatengslum ritrýna og höfunda. Abbas segir reyndar ómögulegt fyrir ritstjórnir vísindarita að komast hjá öllum hagsmunaárekstrum en besta leiðin sé að horfast í augu við þá og hafa allt uppi á borðinu fyrir allra augum, aflétta allri leynd. Þó slíkt hafi einnig vandamál í för með sér.

“Lesendur kannast eflaust við að læknatímarit krefja höfunda greina um langar yfirlýsingar um hagsmunaárekstra. Góð tímarit birta einnig yfirlýsingar ritstjóra um hagsmunaárekstra í tengslum við birtar greinar. En tímaritin eiga þó langt í land með að taka upp bestu möguleg vinnubrögð. Því er gagnrýni New York Times fyllilega réttlætanleg og ætti að vera hvetjandi öllum ábyrgum og raunsæjum ritsjórum, vísindamönnum og stuðningsaðilum þeirra um víða veröld.”

Abbas reifar síðan kosti þess að aflétta nafnleynd ritrýna og segir það reynslu sína að án nafnleyndar verði ritrýnar kurteisari og málefnalegri í ritrýni sinni og öllum að óvörum hafi það ekki dregið úr vilja fólks að taka að sér ritrýni fyrir opnum tjöldum.

“Opinská vísindaleg umræða er öllum til framdráttar og þess virði að berjast fyrir. JRSM mun því taka upp ritrýni án nafnleyndar – þar sem höfundar og ritrýnar munu vita af hver öðrum – frá og með september í ár. Með þessu verður JRSM eitt örfárra vísindarita í veröldinni þar sem ritrýni án nafnleyndar er viðhöfð. Álit ritrýnanna verður þó ekki birt fyrst um sinn þó það sé rökrétt skref í framhaldinu, “ segir Abbas. Hann lýkur því grein sinni með þeim orðum að “Fyrir þá sem kjósa leynd eru þúsundir tímarita sem velja má úr. JRSM verður ekki lengur eitt þeirra.”

Védís Skarphéðinsdóttir ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins segir að þessi nýja stefna JRMS komi sér á óvart þar sem almennt sé álitið að undirstaða góðra vinnubragða við ritrýni vísindagreina sé nafnleynd ritrýna og þung áhersla sé lögð á að höfundar og ritrýnar viti engin deili hver á öðrum. “Um þetta vinnulag gilda reglur sem samþykktar voru hjá svonefndum Vancouverhópi fyrir margt löngu. Þetta er algjört lykilatriði í öllum okkar vinnubrögðum og tíðkast alls staðar á ritstjórnum þeirra viðurkenndu læknavísindarita sem við miðum okkur við,” segir Védís. Hún segir að nafnleyndin þjóni þeim tilgangi að ritrýnir gæti fyllstu hlutlægni og blandi ekki hugsanlegum skoðunum sínum á höfundum saman við mat sitt eða láti aðra hagsmunaárekstra af einhverjum toga afbaka ritrýnina. Ritstjórnarmenn velja ritrýna sem hafa yfirsýn og þekkingu á efninu, en það kemur auðvitað fyrir að þeir vilja ekki ritrýna grein þareð þeir þekkja höfundinn, efniviðinn eða tengjast þessari grein of náið til að geta skrifað óvilhalla ritrýni. “Læknablaðið hefur þá sérstöðu við ritrýni að hún er tvíblinduð, það er að segja hvorki höfundar né ritrýnar fá upplýsingar um hverjir standa á bak við vinnuna. Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt en getur jafnframt verið óhemju flókið í okkar litla samfélagi þar sem allir þekkjast og ekki síst þar sem um fámennar sérgreinar innan læknisfræði er að ræða.”

Hún segir engu að síður að hugmyndir Abbas séu athyglisverðar og forvitnilegt verði að fylgjast með hvernig vísindasamfélag lækna taki þessum breytingum hjá JRSM

Kamran Abbasi

ritstjóri JRSM (Journal of the Royal Society of Medicine) í Bretlandi

havar@lis.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica