07/08. tbl 92. árg. 2006

Ritstjórnargrein

Að skima eftir ristilkrabbameini

Ásgeir Theodórs atheodor@simnet.is

Hvers vegna, hvernig og hvenær?

Á undanförnum árum hefur víða verið rætt um ristilkrabbamein þar eð niðurstöður stórra slembi­rannsókna (1-3) hafa sýnt að unnt er að fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins með því að skima eftir blóði í hægðum. Þá eru vísbendingar um að ekki skipti máli hvaða leitaraðferð sé beitt (blóðskimun í hægðum, stutt ristilspeglun, alrist­il­speglun eða röntgenmynd af ristli), allar skili nokkrum árangri, en mismiklum. Margt bendir til að besta rannsóknin sé alristilspeglun. Sú rannsókn krefst verulegs undirbúnings, dýrs tækjabúnaðar og flókins, sérmenntaðra starfskraftra, og góð aðstaða þarf að vera fyrir hendi. Rannsóknin sem kostar um 30 þúsund krónur er ekki án fylgikvilla (holgötun, blæðing), en alvarlegir fylgikvillar sjaldgæfir (dauðsföll 0,01-0,03%).

Innan fárra ára er að vænta niðurstaðna úr slembirannsóknum varðandi stutta ristilspeglun (sigmoidoscopy). Skoðunin er takmörkuð og allnokkur fjöldi meinsemda finnst ofar og hægra megin í ristlinum (4, 5) og greinist því ekki við þessa skoðun. Nýjar rannsóknaraðferðir, svo sem breyttir erfðavísar (DNA) í hægðum og sýndar­ristilspeglun -(tölvusneiðmynd af ristli) koma ef til vill að notun við skimun eftir ristilkrabbameini og forstigum þess í framtíðinni.

Margar þjóðir hafa þegar tekið upp skimun eftir ristilkrabbameini og greiða fyrir hana. Í Finnlandi er hafin skipulögð skimum fyrir blóði í hægðum með slembirannsóknarívafi. Í Bandaríkjunum hefur áróðri fyrir skimun verið haldið uppi í mörg ár. Þátttaka þar hefur aukist, dánartíðni lækkað svo og nýgengi sjúkdómsins sem ef til vill má rekja til aukinna skimunaraðgerða.

Á vefsíðu landlæknis eru klínískar leiðbeiningar um ristilkrabbamein. Þar kemur fram hverja á að skima eftir krabbameini og hvernig. Fyrir nokkrum árum fór fram fræðsluátak fyrir almenning um ristilkrabbamein, alfarið kostað af einkaaðilum, um áhættuþætti þess og mögulegar rannsóknaraðferðir. Tvær þingsályktunartillögur hafa séð dagsins ljós hér á landi um auknar forvarnir gegn krabbameinum í meltingarvegi (Árni Ragnar Árnason heitinn alþingismaður) og um að hefja skimun eftir ristilkrabbameini (Drífa Hjartardóttir alþingismaður). Sú síðari var samþykkt á Alþingi og vísað til heilbrigðisnefndar en hefur ekki verið afgreidd úr nefndinni af óljósum ástæðum.

Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hér á landi (115 tilfelli greind á ári) og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina (55 dauðsföll á ári). Þrátt fyrir áhuga alþingismanna hefur baráttan gegn sjúkdómnum ekki skilað sér í forvarnaraðgerðum. Landlæknir hefur mælt með skimun sem forvörn (6) og áætlar að hún geti komið í veg fyrir 8-10 dauðsföll árlega.

Í þessu tölublaði Læknablaðsins er grein um samnorræna slembirannsókn á skimun eftir ristil­krabbameini með alristilspeglun (colonoscopy). Greinin er áhugaverð og birtist jafnframt í lækna­blöðum hinna Norðurlandanna (7). Þetta er framtak hóps sem kallar sig NordICC (Nordic Initiative on Colorectal Cancer) eða Norrænt framtak um krabbamein í ristli og endaþarmi og hefur hannað fjölsetra slembirannsókn á skimun með ristilspeglun.

Í greininni er bent á að þörf sé frekari rannsókna á öðrum og betri leitaraðferðum. Alspeglun er kjörrannsókn til að greina sjúkdóma í ristli. Tækjabúnaði hefur fleygt fram á síðustu árum og nú er hægt að greina örsmárar meinsemdir og taka sýni til vefjagreiningar. Víða er mælt með alspeglun í skimun eftir ristilkrabbameini og forstigum þess þegar um tilfellaleit (case finding) er að ræða. Þó skortir vísindalegar upplýsingar um hvers má vænta við framkvæmd víðtækra skimunaraðgerða með speglun eins og bent er á í greininni. Það er skynsamlegt fyrir stjórnmálamenn að veita fé til skipulagðra slembirannsókna til að sjá hvort slík skimunaraðferð skilar árangri.

Í ljósi fenginnar þekkingar er skynsamlegt að byrja skipulagða skimun hérlendis með athugun á blóði í hægðum. Jafnframt er þátttaka í skipulagðri langtíma slembirannsókn, til að bera saman árangur ristilspeglunar við leit að blóði í hægðum með tilliti til lækkunar dánartíðni og nýgengi ristilkrabbameins, mikilvæg. Hér á landi er mikil þekking og reynsla af krabbameinsleit sem auðveldar þátttöku okkar og heilbrigðisyfirvöldum gæfist tækifæri til að berjast gegn ristilkrabbameini, fækka tilfellum og takmarka vaxandi útgjöld í greiningu og meðferð sjúklinga með ristilkrabbamein.

Heimildir

 
1. Mandel JS, Bond JH, Church TR, Snover DC, Braadley GM Shuman LM, et al. Reducing mortality from colorectal cancer by screening for fecal occult blood. N Engl J Med 1993; 328: 1365-71.
2. Hardcastle JD, Chamberlain JO, Robinson MH, Moss SM, Amar SS, Balfour TW, et al. Randomized controlled trial of faecal-occult-blood screening for colorectal cancer. Lancet 1996; 348: 1472-7.
3. Kronborg O, Fenger C, Olsen J, Jorgensen OD, Sondergaard O. Randomized study of screening for colorectal cancer with faecal-occult blood test. Lancet 1996; 348: 1467-71.
4. Imperiale TF, Wagner DR, Lin CY, Larkin GN, Rogge JD, Ransohoff DF. Risk of advanced proximal neoplasms in asymptomatic adults according to the distal colorectal findings. N Engl J Med 2000; 343: 169-74.
5. Lieberman DA, Weiss DG, Bond JH, Ahnen DJ, Garewal H, Chejfec G. Use of colonoscopy to screen asymptomatic adults for colorectal cancer. Veterans Affairs Cooperative Study Group 380. N Engl J Med 2000; 343: 162-8.
6. Guðmundsson S. Skimun fyrir krabbameinum í ristli og enda­þarmi. Læknablaðið 2002; 88: 713-4.
7. Hoff G, Bretthauer M. The Science and Politics of Colorectal Cancer Screening. PloS Medicine 2006; 3: 1-4.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica