07/08. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Hugsunin er kóróna sköpunarverksins

Heimspekin er gjarnan sögð upphaf allra vísinda, hvort sem er hug- eða raunvísinda. Ekki er víst að allir harðir raunvísindamenn vilji samþykkja þessa fullyrðingu en dagljóst er að í störfum sínum þurfa læknar að fást við siðferðilegar spurningar og kunna við þeim svör, oft án mikils tíma til umhugsunar og ríður þá á að þekkja hugtökin og kunna að beita þeim.

Ólafur Árni Sveinsson lauk kandídatsprófi í læknisfræði fyrir fjórum árum. Hann hefur síðan stundað framhaldsnám í lyf- og taugalækningum hér heima og jafnframt tekið BA-próf í heimspeki við HÍ og vinnur nú að meistaraprófsverkefni í heimspeki. Hann hyggur á framhaldsnám erlendis í taugalækningum og starfar á taugadeild Landspítala.

Hjálpar heimspeki læknisfræðinni?

"Tengsl heimspeki og læknisfræði eru margvísleg og ég held að það blundi í mörgum læknum að kynna sér heimspeki nánar, þeir átta sig flestir á mikilvægi hennar. Hún er eitthvað sem flestir vilja kynna sér nánar en komast ekki í það. Fyrir mér er hugsunin kóróna sköpunarverksins og heimspekin fjallar um hugsunina. Hún kennir okkur að hugsa og slípar þetta tæki sem hugsunin er, til að mynda getuna til að fylgja röksemdafærslu, greina rökvillur, sjá viðfangsefni frá mörgum sjónarhornum svo eitthvað sé nefnt. Það má setja spurningarmerki hvort heimspekin hjálpi læknisfræðinni sérstaklega, umfram aðrar fræðigreinar, en bersýnilega hjálpar þessi tækni öllum vísindamönnum, sérstaklega ef viðfangsefnið er mjög flókið og taka þarf tillit til margra þátta við úrlausn þeirra. Það má líka spyrja hvort læknisfræðin hjálpi ekki heimspekinni, sem mér finnst hún gera. Hún hjálpar mér að minnsta kosti að rauntengja heimspekina. Þó heimspekin sé góð er hún engin allsherjarlausn og svarar alls ekki alltaf eigin spurningum, enda erfiðar en tæknin sem menn læra í heimspeki getur nýst mjög vel í öðrum greinum. Með því að greina rökin og varpa ljósi á vandamálið er svarið oftast augljóst."

Hvers konar vandamál ertu þá með í huga?

"Hugsum okkur að læknir standi frammi fyrir því að þurfa að ráðleggja sjúklingi ákveðna meðferð sem hefur bæði kosti og galla í för með sér. Auðvitað er það klínísk reynsla og þekking sem hjálpar mönnum mest við slíkar aðstæður en heimspekin skerpir hugsunina og hjálpar mikið við að greina vandann. Hún hjálpar manni að finna út hverjir eru persónur og leikendur vandans ef svo má segja. En eins og ég sagði áðan þá er heimspekin engin allsherjarlausn. Hún hefur sín hugtök og það getur verið erfitt að komast inn í hugsunarhátt hennar. Það tekur langan tíma að verða læs á heimspeki og ég veit ekki hvort ég er orðinn það fyllilega ennþá."

Hvað með heimspeki á Íslandi?

"Segja má að Íslendingar séu almennt lítið læsir á heimspeki miðað við aðrar bókmenntagreinar. Lítil hefð er fyrir heimspekilegri umræðu hér á landi. Víða á meginlandi Evrópu er heimspeki hluti af menningunni en það hefur verið sagt að hér á Íslandi hafi þjóðin alist upp við einræður, mónólóg, í formi frásagna og ljóðalesturs en lítið um samræður, díalóg, en þann hæfileika þroskar heimspekin einna mest. En samræðan er að mínu mati lykillinn að því að leysa vandamál. Maðurinn er ekki eyland og þarf aðstoð. En til þess að samræðan beri árangur verður hún að fara rétt fram. Menn verða að hafa samræðuhæfileika og samræðuvilja annars gagnast hún lítið. Hvort sem samræðan á sér stað við aðra lækna eða sjúklinginn er samræðan leiðin til að nálgast vandann að mínu mati. Góð samræða er þar sem tveir aðilar mætast af heilindum í sjálfu viðfangsefninu með það að markmiði að leysa það. Jafnvel þó annar aðilinn hafi meiri fræðilega þekkingu á efninu eins og læknirinn þá er það engu að síður sjúklingurinn sem upplifir vandamálið og þekkir sinn líkama best. Þarna mætist því tvenns konar þekking, fræðileg þekking læknisins og huglæg þekking sjúklingsins.

Það er geysilega gaman og menntandi að nálgast manninn frá mismunandi sjónarhornum og beita við það mismunandi aðferðum og hugtökum. Sjálfur lít ég á læknisfræði sem hluta af húmanisma í þeim skilningi að bæði heimspeki og læknisfræði fjalla um manninn frá ólíkum hliðum og með því að tileinka sér sem flest sjónarhorn fær maður fyllri sýn á manneskjuna. Þessi sýn á líka við um hinar mörgu greinar læknisfræðinnar. Þó læknisfræðin skiptist oft mjög skýrt í ákveðnar greinar þá eru skilin á milli sjúkdóma ekki alltaf jafn skýr. Skil milli sjúkdóma eru mannanna verk og oft festast læknar á sérsviði sínu og loka á allt annað. Þó maður geti aldrei kunnað allt er nauðsynlegt að nálgast sjúklinginn í víðum skilningi. Ég held að heimspekin hjálpi manni við það. Það sem ég er að reyna að segja er að finna verður ákveðinn milliveg, bræðing úr tveim skólum, læknisfræði og heimspeki. Þar sem fögin hjálpa hvort öðru."

Af hverju hefur þú áhuga á heimspeki?

"Mér finnst í rauninni erfitt að skilja hvernig fólk getur ekki haft áhuga á heimspeki. Fyrir mér er það óaðskiljanlegur hluti af því að vera til, að vera manneskja. Þó að heimspeki gefi ekki alltaf svör er það leitin og þroskinn sem fæst við leitina sem máli skiptir. Heimspeki er sagnfræði að stórum hluta. Flestir halda að heimspekimenntun sé loftkenndari en hún er í raun. Í heimspekinámi lærist fyrst og fremst hugmyndasaga. Þar lærist hvað mestu andans menn sögunnar hafa sagt um lífið og tilveruna. Með því fær maður vonandi fleiri og víðari sjónarhorn á veruleikann, áttar sig vonandi betur á mismunandi heimsmynd manna í gegnum tíðina og vonandi betur á nútíðinni vegna þessa."

Er það ekki samt svo að heimspekileg nálgun að viðfangsefnum hentar sumum greinum læknisfræði betur en öðrum?

"Heimspeki hefur vissulega nánari tengsl við vissar greinar læknisfræði en aðrar. Skurðlæknisfræði hefur eflaust minni tengsl við heimspeki en til dæmis geðlæknis- eða taugasjúkdómafræði Ég held þó að allir læknar geti nýtt sér heimspeki. Menn spyrja stundum allt of mikið um gagnsemi en heimspekin er að mínu mati hápraktísk, hún hjálpar manni í öllu. Svo er hún skemmtileg í sjálfu sér, veitir manni gleði og næringu. En þau fög læknisfræði sem fjalla um miðtaugakerfið hafa þó sterkust tengsl við heimspeki. Það má segja að á sama hátt og hugsunin er kóróna sköpunarverksins sé það miðtaugakerfið sem geri okkur að því sem við erum, aðgreini okkur frá öðrum dýrum. Miðtaugakerfið er flókið en afskaplega fallega lógískt. Þó ég sé að mæra heimspeki þá er ég læknir fyrst og fremst og heimspeki er aukabúgrein í mínu námi og starfi."

Er kennd nógu mikil siðfræði í læknadeild?

"Siðfræðikennsla hefur aukist í læknadeild. Stefán Hjörleifsson læknir og heimspekingur kennir læknanemum nú sem er mjög gott, hann er mjög hæfur.

Hann notar mjög góða kennslubók, Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason. Að vísu kennir hann læknanemum siðfræðina á fyrstu árum námsins og það er spurning hvort ekki væri betra að kenna hana þegar nemarnir hefðu meiri klíníska reynslu."

Hvað með þátttöku lækna í siðferðilegum efnum á opinberum vettvangi?

"Opinber umræða um siðferðilegar spurningar í læknisfræði hefur vaxið mjög á undanförnum árum og á eflaust eftir að aukast enn frekar. Að vísu hefur umræðan ekki verið mikil á Íslandi. Kannski af því að Íslendingar eru í grófum dráttum einsleit þjóð sem hefur svipaðar skoðanir og því að mestu leyti sammála í þessum efnum. En eftir því sem tækninni fleygir fram þeim mun fleiri erfiðar siðferðilegar spurningar munu koma fram. Það er mjög mikilvægt að læknar séu færir um að taka þátt í umræðunni, séu kunnugir þeim hugtökum og aðferðum sem beita þarf. Þetta eru stórar spurningar sem fjalla til að mynda um meðferð við lok lífs, líknardráp, genarannsóknir og genaprófanir og stofnfrumurannsóknir. Vísindaleg þekking og klínísk reynsla lækna er mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu því heimspekingar hafa ekki þá reynslu og innsýn. Heimspekingar hafa oft hugsað mikið um þessi málefni en þeir hafa ekki sama aðgang og nálægð að viðfangsefninu eins og læknar hafa þó þeir hafi sína nálgun sem er mjög góð. Margir læknar átta sig ekki á því hve starf þeirra er siðferðilegt. Hjá læknum liggur líka ábyrgðin sem gefur þeim einstakt sjónarhorn sem aðrar starfsstéttir þekkja ekki. Mér finnst að læknar eigi að leiða umræðuna en til þess þurfa þeir að kynna sér vandamálin út fyrir fag sitt. Í dag er ekki nóg að segja bara, "ég er læknir" heldur verða rök sem allir geta skilið að fylgja með. Mér finnst fólk vera að bíða eftir leiðsögn frá læknum í þessum málaflokki sem og öðrum, til að mynda í heilsumálum. Læknar mega ekki vera hræddir að svara kallinu, annars svara aðrar stéttir því og þá þýðir ekki að bölsótast yfir því að vera ekki spurðir álits. Stundum finnst mér læknar vera tregir að blanda sér í umræðu sem er huglæg og flókin en það eiga þeir ekki að vera. Læknar eiga að leiða umræðuna. Fólk bíður eftir því og tekur mest mark á læknum. Þeir þurfa bara að kynna sér viðfangsefnið í víðara samhengi en tíðkast hefur."

Ólafur Árni Sveinsson læknir og heimspekingur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica