07/08. tbl 92. árg. 2006
Umræða og fréttir
Af sjónarhóli stjórnar. Mikill er máttur orðsins. Birna Jónsdóttir
Afkomendur landlausra Norðmanna sem kynbættu stofninn með írskum prinsessum stæra sig af gullaldar tíma landsins, söguöld. Varla hefur þjóðin unnið meiri afrek en að rita sögu þess tíma og hefur henni lengst af verið tekið sem guðspjöllunum, og orðsins list mærð mest allra lista.
Frækileg fannst mér frammistaða íslensks fræðimanns árið 2000 á Víkingaráðstefnu á Smithsonian safninu í Washington DC. Þar höfðu fornleifafræðingar, mannfræðingar, landafræðingar og ýmsir fleiri náttúrufræðingar sýnt línurit um plöntur, dýralíf, myndir af rústum og fornleifauppgreftri á L'anse aux Meadows á Nýfundnalandi sem sönnun þess að Leifur heppni hefði fundið Ameríku. Gísli Sigurðsson las úr handritum.
Orð eru til alls fyrst. Í upphafi var orðið. Við orðum hugsanir okkar. Orð eru mjög misfögur, sum hljómfögur meðan önnur lýsa fegurð. Líka eru til orð sem eru óþjál, hörð og meiðandi. Gamall móðurmálskennari minn sem ég rifjaði upp kynni við gegnum Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands kenndi að eitt af sérkennum íslenskunnar væru lýsandi orð.
Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig heiti á umfangsmestu sjúkrastofnunum landsins verða til. Hver er hugsunin bak við þessar nafngiftir og hverju lýsa þær?
Mér finnst eins og sum heitin séu beinlínis til þess fallin að reisa múr milli innviða og þeirra sem eru úti í þjóðfélaginu. Sennilega til að halda þeim fyrir utan. Ekki er óalgengt að fólk sem þarf að sækja þangað finni sig lítt velkomið og lítil virðing sé fyrir því borin og innkallaðir sjúklingar gerðir afturreka.
Endurteknar nafnabreytingar eru á starfsstéttum innan heilbrigðiskerfisins sem ekki heitir lengur heilbrigðisþjónusta. Margar hverjar eiga að lýsa tilteknu starfi betur en geta í hreintungu-lýsandi tilburðum sínum leitt af sér óþjál heiti. Mér finnst til dæmis betra að kalla mig röntgenlækni en sérfræðing í læknisfræðilegri myndgreiningu. Ætli það heiti hafi orðið til sem þýðing á enska sérgreinarheitinu "Medical Imaging"
Nýleg grein í Morgunblaðinu eftir ungan lækni nefnist "Orðskrípið hátæknisjúkrahús."
Ætli heitið hátæknisjúkrahús hafi orðið til af brýnni þörf til að lýsa starfinu sem þar er unnið eða átti almúginn að gleypa andann á lofti og fyllast lotningu? Af hverju heitir sjúkrahús allra landsmanna: Landspítali Háskólasjúkrahús við Hringbraut? eða gömlu Hringbraut eins og sumir segja. Landspítali Háskólasjúkrahús í Fossvogi, stendur reyndar við Sléttuveg sem er gömul gata. Starfsemin er að vísu ekki alveg nægjanlega vel skilgreind að mati stjórnmálamanna sem snemma á öldinni skipuðu fjölmenna nefnd sem skilaði tæplega 90 síðna skýrslu á vordögum sem reyndi að ná utanum skilgreiningar í spítalakerfinu. Í þeirri skýrslu sat nýorðinn félagsmálaráðherra Jónína Bjartmarz í forsæti. Ein af aðalniðurstöðum þar var að ómögulegt sé að líta á sjúkrastofnunina án þess að skoða samhengi allrar starfsemi heilbrigðisstétta.
Kerfi er samkvæmt íslenskri orðabók Menningarsjóðs handa skólum og almenningi útgefinni 1983: 1 knippi; 2 hnokkatré 3 fyrirkomulag 4 mælieining 5 hugarvíl.
Í þriðju meiningu notað í samsetningunni heilbrigðiskerfi þar er það hart, klippt og í skorðum og ekki sérlega aðlaðandi.
Þjónusta í sömu orðabók útleggst: 1 vinna sem e-r er ráðinn til að leysa af hendi fyrir annan ? 2 það að veita beina eða aðra aðstoð - 3 kona sem þvær og dyttar að fötum - 4 guðsþjónusta 5 það að þjónusta og þá í merkingunni: 1 að veita altarissakramenti - 2 þjóna, annast stundarþörf e-s, þjónustan er mjúk, jákvæð og býður upp á fjölbreytni.
Er óíslenskt að þjónusta? Ef okkur finnst það þurfum við þá kannski að fara á námskeiðið sem breytti ferðaþjónustu í París um árið þegar veitendum var kennt að sjá dollaramerki þegar þeir hittu ameríska ferðamenn. Erum við að gleyma því að sjúklingurinn er vinnuveitandi okkar og er eitthvað að því að vera húsbóndaholl? Hvernig önnumst við stundarþarfir hans best?
Ég dáist að tungumálinu okkar auðvitað af því íslenskan er móðurmálið mitt og það tungumálið sem ég þekki best. Ég vil að orðin sem notuð eru um læknisverk og umönnun séu jákvæð.
Lokaspurning: hvert neðantalinna heita finnst þér fallegast?
1. Hátæknisjúkrahús
2. Heilbrigðiskerfi
3. Heilbrigðisþjónusta