06. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Fundur norrænu læknablaðanna

Ritstjórnir norrænu læknablaðanna hittust á sameiginlegum fundi dagana 17.-19. maí. Fundurinn fór fram í þægilegu umhverfi á Högberga Gård sem er ráðstefnuhótel á eyjunni Lidingö rétt utan við Stokkhólm.

Ritstjórar blaðanna fimm höfðu gert grein fyrir því helsta sem einkennt hafði starfsemi hvers blaðs frá síðasta fundi fyrir tveimur árum og var fljótt ljóst að áherslur eru ólíkar eftir löndum og aðstæðum. Stjórn norska læknablaðsins tók þá ákvörðun fyrir hálfu öðru ári að fella niður alla umfjöllun og viðtöl og birta eingöngu vísinda- og fræðigreinar. Sænska og danska læknablaðið hafa hinsvegar farið allt aðra leið og ritstjórar þeirra beggja koma úr stétt blaðamanna og þar er lögð mikil áhersla á umfjöllun, viðtöl og blaðamannagreinar auk hins fræðilega hluta sem skipar enn stóran sess. Danska og sænska blaðið koma út vikulega en hið norska hálfsmánaðarlega. Segja má að finnska blaðið fari bil beggja og svipi í þeim efnum helst til okkar íslenska læknablaðs sem þó skipar sérstöðu sem mánaðarblað og getur því ekki keppt við aðra fjölmiðla á sviði frétta. Þar leggja Danirnir og Svíarnir mikla áherslu og horfa stíft til helsta samkeppnisaðilans sem er vikublaðið Dagens medicin sem gefið er út í öllum fjórum löndunum.

Breski ritstjórinn og læknirinn Kumran Abbasi hélt fróðlegan fyrirlestur undir yfirskriftinni Opinn aðgangur á netinu og hvatti eindregið til þess að allar vísindagreinar sem birtar væru í læknablöðunum væru samstundis aðgengilegar á netinu án nokkurra takmarkana fyrir notendur. Íslenska ritstjórnin gat tekið heilshugar undir þetta enda allt efni Læknablaðsins sett á heimasíðuna jafnskjótt og blaðið er komið út. Í hinum stóra enskumælandi heimi er þessu á annan veg farið og mikil átök um hvort þetta skuli gera eður ei.

Abbasi á að baki glæsilegan feril sem einn af ritstjórum BMJ og er núverandi ritstjóri The Journal of the Royal Society of Medicin http://www.jrsm.org/ og hefur þegar vakið mikla athygli fyrir skörp og hressileg efnistök þrátt fyrir stuttan tíma í ritstjórastólnum.

Hann hamraði á mikilvægi þess að skiptast á upplýsingum og vitnaði í breska leikskáldið Georg Bernard Shaw. "Ef ég á eitt epli og þú átt eitt epli og við skiptumst á eplum þá eigum við eftir sem áður eitt epli hvor. En ef ég á eina hugmynd og þú átt eina hugmynd og við skiptumst á hugmyndum þá eigum við tvær hugmyndir hvor."

Hann lauk máli sínu með því að segja að þau læknablöð sem tækju ekki tillit til breytinga sem væru í farvatninu í heimi fjölmiðlunar myndu deyja drottni sínum fyrr en seinna.

IMG_0571



Þetta vefsvæði byggir á Eplica