05. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Ungt fólk sækir ekki í sjúkraliðanám

Fyrir 40 árum útskrifuðust fyrstu sjúkraliðarnir á Íslandi. Náminu var komið á vegna mikils og langvarandi skorts á hjúkrunarfræðingum. Nú 40 árum seinna kemur í ljós að ástandið hefur ekkert batnað, í dag er mikill skortur bæði á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Spurt er hvað veldur?

Sjúkraliðafélag Íslands hefur ár eftir ár varað við þeirri þróun sem greinileg hefur verið að magnast, þ.e. skorti á sjúkraliðum til starfa.

Í fyrsta lagi má benda á að sjúkraliðastéttin hefur verið svelt í þróun og þroska varðandi starfsréttindi, þrátt fyrir miklar breytingar á menntun þeirra.

Stéttin hefur bent á þann mikla mun sem er á starfsréttindum sjúkraliða á Íslandi og sjúkraliða annar staðar svo sem á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

Íslenskir sjúkraliðar hafa mun minni starfsréttindi og þrengra verksvið, þrátt fyrir meiri menntun í hjúkrun. Þetta m.a. veldur því að ungt fólk fer ekki í sjúkraliðanám.

Skortur á hjúkrunarfræðingum stafar eflaust að hluta til af því að þeim finnast störf sín vera of verkmiðuð, miðað við það langa háskólanám sem þeir hafa. Þeir eru með sömu verkþætti og tilheyra sjúkraliðum í öðrum löndum.

Í öðru lagi má benda á að þegar aldursdreifing stéttarinnar er skoðuð kemur fram að meðalaldur hennar er 46,72 ár. Í sömu könnun kemur einnig fram að sjúkraliðar hverfa snögglega af vinnumarkaðinum 60 ára, oftar en ekki orðnir öryrkjar. Það undirstrikar það sem haldið hefur verið fram að starf sjúkraliða er mjög erfitt, bæði andlega og líkamlega. Andlega erfiði starfsins er ekki síður til komið af að starfa í vinnuumhverfi þar sem endalaus umræða er um, fjárhagserfiðleika stofnunarinnar sem unnið er á, umræða um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og að opinberir starfsmenn séu til óþurftar.

Könnun sem unnið hefur verið að á vegum BSRB og BHM sýnir að vaktavinna er sú vinna sem starfsmenn vilja ekki vinna og sýnilegt er að í dag er vægi fjölskyldunnar og einkalíf metið hærra en áður.

Í fyrirspurnartímum á Alþingi nú fyrir skemmstu, um skort á fólki til hjúkrunarstarfa sagði heilbrigðisráðherra Sif Friðleifsdóttir, að þrátt fyrir áhyggjur á skorti á hjúkrunarfræðingum, hefði hún mun meiri áhyggjur vegna skorts á sjúkraliðum.

Kristín Á. Guðmundsdóttir

formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands.Þetta vefsvæði byggir á Eplica