04. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Framhaldsnám á Íslandi. Bjarni Þór Eyvindsson

Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á stöðu og hlutverki ungra lækna á Íslandi. Uppbygging framhaldsnáms í ýmsum sérfræðigreinum hefur gert ungum læknum mögulegt að hefja og jafnvel klára sérfræðinám sitt hérlendis. Það er löng hefð fyrir því að íslenskir læknar hafi farið erlendis í sérnám og þá jafnvel fengið einhvern hluta af vinnu sinni á Íslandi metið sem framhaldsnám. Fyrir nokkrum árum var hins vegar farið af stað með að koma þessu í fastari skorður og setja upp námsstöður með skilgreindu hlutverki að erlendri fyrirmynd. Heilbrigðisráðuneytið hefur komið að þessu með því til dæmis að borga námsstöður í heimilislækningum. Landspítali og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa sett á laggirnar allt að þriggja ára námsstöður í nokkrum greinum.

Fyrir unga lækna gefur þetta möguleika á því að afla sér meiri reynslu hérlendis áður en haldið er utan til að klára sérnám. Þetta styttir líka þann tíma sem eyða þarf fjarri heimahögum sem getur verið afar góður kostur fyrir lækna með fjölskyldur.

Jafnframt færir þetta Landspítala reyndari starfskrafta þar sem ungir læknar eru lengur við störf áður en þeir fara erlendis til náms. Í einstaka greinum eins og geðlækningum er jafnvel hægt að klára sérnámið alveg innan spítalans.

Hins vegar fylgir þessari þróun ekki bara auknir möguleikar heldur einnig margar kvaðir. Það er ljóst að sérfræðimenntun verður sífellt afmarkaðri þar sem stöðugt vaxandi vitneskja um sjúkdóma og orsakaþætti gerir það erfitt að ætla sér að viðhalda sérfræðiþekkingu í stórum greinum. Því verður krafan til sérfræðimenntunar sífellt meiri.

Því miður hefur uppbygging sérfræðimenntunar á Íslandi alls ekki verið nægileg góð. Það er ljóst að þegar málin voru skoðuð í upphafi þá var það ekki markmiðið að minnka kröfurnar um kunnáttu og getu að loknu sérfræðinámi. Hugmyndin var ekki að fara að búa til ?ódýra? sérfræðinga sem hefðu þá líklega minni reynslu og þekkingu. Þegar farið var af stað höfðu menn háleit markmið og vissu að á Íslandi væri jarðvegur til að byggja upp öfluga sérfræðimenntun sem skapaði samkeppnishæfa einstaklinga í samanburði við aðrar þjóðir.

Umhverfið í dag einkennist hins vegar af miklum fjárhagsvanda þar sem ekki eru til staðar peningar sem sérstaklega eru ætlaðir til kennslu ungra lækna í framhaldsnámi hérlendis. Þetta kemur fram í því að námslæknar eru fyrst og fremst vinnukraftur á sínum vinnustöðum og vinnan verður alltaf að ganga fyrir fræðslunni. Krónískur skortur á læknum á ákveðnum sviðum gerir það að völdum að framhaldsnám er meira orð sem hægt er að nota á tyllidögum en að það sé virkt í daglegu starfi. Tækifæri til rannsókna og annarra verkefna sem fylgja ættu aukinni reynslu verða að litlu vegna manneklu og með því tapast stór hluti af tilgangi sérfræðimenntunar á Íslandi. Á sumum sviðum er haldið uppi námsstöðu án þess að það liggi fyrir námslýsing og hvað ætlast sé til að læknir kunni við lok sinnar námsstöðu.

Í samanburði við sérfræðinám erlendis fær sér­fræðinám á Íslandi algjöra falleinkunn. Það er kannski ekki skrítið þegar horft er til þess að ríkis­valdið veitir engu fjármagni til háskólastarf­semi innan heilbrigðisstofnana og ekkert fé er sér­stak­lega eyrnamerkt framhaldsnámi í einstök­um sérfræðigreinum ef heimilislækningar eru und­an­teknar. Sú mismunun ein og sér er auðvitað mjög undarleg og stenst varla jafnræðisreglur.

Sem formaður ungra lækna fagna ég auðvitað þeirri þróun að verið sé að vinna að uppbyggingu sérfræðimenntunar á Íslandi en betur má ef duga skal. Við getum ekki sætt okkur við að minni kröfur séu gerðar til slíks náms hér miðað við önnur lönd. Ég skora því á stjórnvöld og yfirmenn heilbrigðismála að grípa til aðgerða þannig að við getum komið sérfræðimenntun lækna á Íslandi á þann stall sem við viljum hafa hana.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica