03. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bókadómur. Frá bábiljum til virðulegra vísinda

Jón Ólafur Ísberg, Líf og lækningar, íslensk heil­brigðissaga (Hið íslenska bókmenntafélag, Reykja­vík 2005), 312 s.

Það má lengi velta fyrir sér hvernig eigi að skrifa sögu sem spannar jafn vítt svið og þróun heilbrigðismála á Íslandi allt frá landnámi. Hér er farin sú leið að rekja sögu læknisfræðinnar eða réttara sagt þekkingar á sjúkdómum, orsökum þeirra og leiðum til lækninga allt frá dögum Grikkja. Hér ríkir hinn vestræni sjónarhóll og er upphaf læknisfræði miðað við rit Hippókratesar þótt ýmiss konar þekking, til dæmis á lækningamætti jurta, hafi ávallt verið til staðar. Það má til sanns vegar færa að þekking á sjúkdómum hér á landi var einkum bundin við skrif Evrópumanna þótt áhrif araba hafi komið til sögu er samskipti jukust við arabaheiminn. Þekking Kínverja barst mun síðar til Evrópu en það er önnur saga.

Sagan er rakin gegnum Rómverja, miðaldirnar og til þess tíma er farið var að rannsaka líkama manna fyrir alvöru og þar með að útrýma alls kyns bábiljum um vökva og vökvajafnvægi, hlutverk lifrarinnar í að framleiða blóð og þar fram eftir götunum. Þessir kaflar eru mjög fróðlegir, ekki síst þegar sögunni víkur til Íslands og þess ástands sem blasti við fyrstu menntuðu læknunum. Ég tel að bókin eigi eftir að nýtast mörgum þeim sem vilja glöggva sig á sjúkdómum fyrri alda en margir þeirra eru okkur gleymdir, sumir sem betur fer, til dæmis holdsveikin sem var landlæg fram á 20. öld þegar barátta gegn henni hófst fyrir alvöru. Það gleymist líka fljótt hve ýmsar pestir og smitsjúkdómar geta verið skæðar en þar verðum við að mínum dómi að halda vöku okkar, samanber umræður um að hætta að bólusetja börn fyrir ýmsum barnasjúkdómum sem menn telja horfna úr okkar heimshluta. Reyndin er sú að ekki þarf að fara langt til að finna þá, til dæmis í Austur-Evrópu, svo sem lömunarveiki og berkla.

Mér fannst afar fróðlegt að lesa kaflann um sjúkdóma og sóttir (bls. 133-85) ekki síst þar sem kryddað er með sögum af meðferðum og alls kyns bábiljum.

Þróun heilbrigðismála frá síðustu áratugum 19. aldar og á 20. öld fær eðlilega mest rými í bókinni enda frá mörgu og miklu að segja. Höfundur tekur margsinnis fram að bætt heilsa landsmanna, einkum á 20. öld, eigi sér flóknar og margvíslegar efnahagslegar og félagslegar orsakir og að erfitt sé að meta hvaða áhrif einstakar aðgerðir á sviði heilbrigðismála, svo sem tilkoma stofnana, lyfja og nýrra heilbrigðisstétta, hafi haft. Þarna staldraði ég við og spurði mig hvort höfundur hefði ekki mátt gera einstökum þáttum betri skil? Ég held að færa megi sterk rök fyrir því að einstakar uppgötvanir á sviði efna- eða læknisfræði og framtak einstaklinga og samtaka hafi haft gífurleg áhrif sem vert er að undirstrika. Ég vil hér halda til haga þeirri skoðun minni að íslenskar konur hafi leikið afar stórt hlutverk í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, með því að skipuleggja ýmiss konar aðstoð til dæmis í gegnum hjúkrunarfélagið Líkn, með söfnun fyrir Landspítala sem þær þrýstu mjög á, með byggingu berklahæla, barnaspítala Hringsins og ekki síst með kröfum og tillögum um löggjöf á sviði trygginga og aðstoð við sjúka og fátæka á þriðja og fjórða áratugnum. Þar áttu kvennasamtök svo sannarlega samleið með læknum og síðar hjúkrunarkonum. Ég hef leitt rök að því í MA-ritgerð minni að þegar Ingibjörg H. Bjarnason, sem settist á þing fyrst kvenna árið 1922, gekk til liðs við Íhaldsflokkinn árið 1924 hafi hún samið við flokkinn um að hefja byggingu Landspítalans. Flokkinn munaði um hvert atkvæði til að ná meirihluta og strax árið eftir (1925) var gerður samingur við Landspítalasjóðinn sem Ingibjörg var í forystu fyrir. Sem dæmi um áhrif einstakra uppgötvana má nefna rannsóknir og kenningar Pasteur um sýkla og þar af leiðandi smitleiðir sem áttu mikinn þátt í að hefta útbreiðslu sjúkdóma (Pasteur er vissulega getið). Í æviminningum Guðrúnar Borgfjörð er fróðlegt dæmi þar sem hún ber saman aðferðir þeirra Hjaltalíns landlæknis sem krukkaði í háls hennar uppi í risherbergi og svo sótthreinsaða stofu Guðmundar Magnússonar skurðlæknis nokkrum áratugum síðar. Þarna hafði átt sér stað bylting. Annað dæmi er tilkoma sýklalyfja í heimsstyrjöldinni síðari sem telja má til mikilvægustu uppgötvana aldarinnar. Þriðja dæmið er svo öruggar getnaðarvarnir sem bárust hingað til lands upp úr 1960 en þær höfðu gríðarleg áhrif á stöðu og möguleika kvenna til að takmarka barneignir og sinna vinnu utan heimilis að ekki sé talað um kynlíf og kynfrelsi hvert sem það svo hefur leitt okkur. Hitt er svo annað mál að þörf samfélagsins var brýn og ýtti undir nýjungar hvort sem við hugsum til sýklalyfjanna á stríðstímum eða getnaðarvarna á tímum kvenfrelsisbaráttu, uppgangs í efnahagslífinu og sívaxandi neysluhyggju.

Það má líka velta fyrir sér hvort áhrif einstakra frumkvöðla lækna, ljósmæðra og hjúkrunarkvenna komi nægilega vel fram en það er stefna höfundar að rekja söguna almennt en leggja minni áherslu á einstaklinga. Reyndar kemur margt fram í myndatextum og afmörkuðum dálkum sem gefa bókinni mjög skemmtilegan blæ, til dæmis þar sem notast er við minningar lækna. Þegar ég nefni einstaklinga er ég ekki síst að hugsa til sögu Sólveigar Pálsdóttur ljósmóður í Vestmannaeyjum sem átti mikinn þátt í að útrýma ginklofa þar á bæ í samvinnu við þann danska lækni sem þangað var sendur. Hennar er ekki getið. Þá má minna á hve margir læknar voru virkir í stjórnmálum og beittu sér á þingi í þágu ýmiss konar umbóta, heilbrigðis og reyndar mannréttinda, til dæmis kvenréttinda enda sumir giftir miklum kvenskörungum. Þar má nefna Jónas Jónassen landlækni sem utan þings vann mikið að því að fræða konur um hreinlæti, umönnun ungbarna og hirðu eigin líkama, Guðmund Björnsson landlækni sem bæði var bæjarfulltrúi og þingmaður en hann beitti sér fyrir vatnsveitu í Reykjavík og Guðmund Hannesson prófessor sem var óþreytandi við að bæta samfélagið, meðal annars með hugmyndum um skipulagsmál og skipan heilbrigðismála.

Eins og fyrr segir má lengi velta vöngum yfir því hvað eigi að hafa með og hvað ekki, hvar eigi að leggja áherslur og hvar ekki. Í formála kemur fram að í upphafi var hugmyndin sú að skrifa sögu Læknafélags Íslands en þannig saga hugnaðist höfundi ekki og því var tekin allt önnur stefna. Samt sem áður er að finna kafla í bókinni um sögu Læknafélagsins (en ekki annarra félaga) fram yfir 1950 en ekki fann ég skýringar á því af hverju þá var staðnæmst. Það má ljóst vera að saga lækna og þróun læknisfræðinnar eftir 1950 er ekki síður stórstíg og merkileg, ekki síst sú gífurlega fjölgun lækna sem átt hefur sér stað, sem bætti alla þjónustu til muna en leiddi til þess að ákveðið var að takmarka fjölda þeirra sem útskrifast. Loksins rættist spá Guðmundar Hannessonar en hann hafði lengi miklar áhyggjur af offjölgun lækna og vildi takmarka fjölda þeirra. Mér finnst gæta þarna ósamræmis, staðnæmst er við sögu Læknafélagsins um miðja öldina en á öðrum stöðum er vikið að umræðum um heilbrigðismál um þessar mundir og þeim miklu breytingum sem læknar hafa þurft að glíma við undanfarin ár. Þar má nefna nýjar spurningar um siðfræði og hve langt megi ganga, meðan sögu stéttarinnar er ekki fylgt eftir.

Þótt ég hafi hér vikið að einstökum atriðum sem deila má um er mikill fengur að þessari bók og hún gefur gott yfirlit yfir langan tíma. Hún er vel skrifuð, henni fylgir mikið myndefni og ítarefni um einstök mál sem segja mikla sögu sem og ítarleg heimildaskrá sem hjálpað getur þeim sem vilja fá meira að vita. Það er því óhætt að óska höfundi og Læknafélagi Íslands til hamingju með bókina sem lýsir ferð Íslendinga frá fátækt og skorti til bjargálna og hvert hlutverk heilbrigðismála var og er í þeirri langferð. Baráttan við sjúkdóma heldur áfram og er glíma sem snertir líf okkar allra.

Kápa bókarinnar Líf og lækningar, íslensk heilbrigðissaga eftir Jón Ólaf Ísberg. Læknablaðið fór þess á leit við Kristínu Ástgeirsdóttur og Jón Þorsteinsson að þau skrifuðu ritdóm um bókina.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica