03. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Bókadómur. Líf og lækningar

Íslensk heilbrigðissaga eftir sagnfræðinginn Jón Ólaf Ísberg er mikið rit og fróðlegt. Bókin er 300 blaðsíður í stóru broti og frágangur allur vandaður. Efnistök eru góð og bókin mjög læsileg. Gífurleg vinna liggur að baki þessarar bókar, á annað þúsund tilvísanir í ca. 700 heimildir bera þess vott. Þessi mikla heimildaskrá verður sagnfræðingum og öðrum áhugamönnum um sögu læknisfræðinnar ómetanleg í framtíðinni.

Í inngangi gerir höfundurinn grein fyrir aðdraganda að ritun bókarinnar, gagnasöfnun, vinnutilhögun og útgáfu. Hann bendir á að hingað til hefur íslensk sagnaritun um heilbrigðismál einkum verið í höndum lækna "enda hafa þeir einir verið taldir hæfir að greina fortíðina læknis­fræðilega". Höfundur rökstyður með tilvísun í erlenda fræðimenn nauðsyn þess að sagnfræðingar skrifi einnig söguna frá sínum sjónarhóli. Fyrsti kaflinn er yfirlit um læknislist fyrri alda. Fræði Hippókratesar og Galenosar voru í heljargreipum kristinnar trúar allar miðaldir og langt fram á upplýsingaöld. Höfundur lýsir þessu langa stöðnunarskeiði skemmtilega blandað stjörnuspeki og hindurvitnum. Hér vildi ég hafa séð minnst á læknislist elstu menningarþjóða, Indverja, Kínverja, Japana og Egypta, og höfundur hefði mátt minnast á þátt fornmeinafræðinnar í þessu samhengi. Prófessor Jón Steffensen rannsakaði Skeljastaðabeinin 1939 og skrifaði merka grein í "Fortidagaardar paa Island", 1943, og Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur, hefur líka rannsakað þessi bein og fleiri úr gömlum kumlum sem fengur væri í að hafa með því að þau bera merki um mikla slitgigt. Svo sakna ég rómverskrar baðmenningar sem var snar þáttur evrópskrar læknislistar um aldir og er enn. Heimildir þar um hefðu smellpassað í þann gífurlega gagnabanka sem höfundur hefur safnað af mikilli elju.

Í næsta kafla um upphaf raunlækninga er reyndar komið inná vatnslækningar og ölkeldur og vitnað til þess að "ýmsir töldu að Ísland gæti hugsanlega orðið nokkurskonar heilsuparadís", en lækningamátturinn var sóttur í heita laugar og böð og er enn. Eggert og Bjarni gerðu sér grein fyrir þessu og sérstaklega Sveinn Pálsson svo að gott hefði verið að hafa þetta með. Þess ber að gæta að trú á ölkelduvatn og yfirnáttúrulegan lækningamátt þess var þá í algleymingi í Evrópu. Kafli þessi með þeim Jenner, Pasteur og Koch er mjög fróðlegur og skemmtilegur. Sama má segja um næsta kafla "Íslensk læknislist" með þeim Hrafni Sveinbjarnarsyni, Snorra goða, Þorgilsi skarða og Þormóði Kolbrúnarskáldi og fleiri dæmum úr Íslendingasögunum og Sturlungu. Fróðlegar og forvitnilegar eru frásagnir um fornar íslenskar lækningabækur, lækningabók Þorleifs hirðstjóra Björnssonar, rímbækur Þórðar biskups Þorlákssonar og lækningabók (Curationes) Þorkels prests Arngrímssonar í Görðum, sem fyrstur lagði stund á læknisfræði við Hafnarháskóla og mikið orð fór af. Vilmundur landlæknir Jónsson gaf út Curationes séra Þorkels með afspyrnu fróðlegum formála. Höfundur vitnar í Vilmund sem telur sögur af séra Þorkeli orðum auknar. Ég held að séra Þorkell hafi verið vel lærður á þeirra tíma vísu og mikill læknir, lærður bæði í Kaupmannahöfn og Leiden, og hann lýsti fyrstur manna iktsýki (Arthritis Rheumatoides).

Kaflinn um upphaf heilbrigðiskerfis er afar fróðlegur og spennandi með tilvitnunum í fjölda opinberra heimilda kryddað með tilvitnunum í prívat bréf og æviminningar. Gaman er að heyra að upplýst heilbrigðisstefna hafði forgang í danska heilbrigðiskerfinu og Ísland var ekki afskipt sem sjá má af stofnun landlæknisembættisins, fyrsta amtlæknisembættis í danska ríkinu. Kaflinn fjallar síðan um læknismenntun og fjölgun lækna og læknishéraða, spítalana og baráttu Bjarna Pálssonar fyrir því "að almennilegt hospital stiptaðist hér, í stað þeirra ónýtu líkþrárra spítala" . Svo kemur bólusetningin um aldamótin 1800, hreint ævintýri. Upplýsingaöldin gengur í garð. Jón Pétursson, fjórðungslæknir Norðlendinga, semur "Lækninga - Bók fyrir almúga" og "Stutt aagrip umm icktsyke", líklega fyrsta rit í heiminum um gigt. Lyfsölum, yfirsetukonum og smáskammtalæknum eru gerð nokkur skil. Höfundur leitar í ævisögur um samband læknis og sjúklings og ber þar af Endurminningar Gyðu Thorlacius 1801-1815 sem lýsir á skemmtilegan hátt viðskiptum sínum við Brynjólf lækni Pétursson á Brekku og úrræðaleysi hans. Fróðleg er "Tillaga um gjaldskrá fyrir læknisverk 1849" og "Gjaldskrá skv. lögum um læknisskipun frá árinu 1875". Læknum tókst víst misjafnlega innheimtan.

Sérstakur kafli er um Heilbrigðis- og tryggingakerfið á 20. öld. Höfundur bendir réttilega á að "Með setningu alþýðutryggingalaganna árið 1936 og lögum þeim tengdum urðu tímamót í íslensku samfélagi". Og það sagði mér gamall bóndi sem sat á Alþingi í tvo áratugi að hreyknastur væri hann af því að hafa átt þátt í að koma á almannatryggingunum, en hann sat þá í undirbúningsnefnd fyrir Framsóknarflokkinn sem í þann tíð var ekki ginnkeyptur fyrir slíku bruðli. Myndrit á bls. 111 um útgjöld sjúkrasamlaga og Tryggingastofnunar og um heilbrigðisstarfsmenn eru vafalaust mjög fróðleg en nánast óskiljanleg. Landakort með skiptingu læknishéraða á 18., 19. og 20. öld eru aftur á móti mjög góð. Gamlar myndir af spítölunum eru skemmtilegar, en litmynd af Landspítalanum hefði passað betur í þessa fallegu bók. Stærsti kafli bókarinnar er um sjúkdóma og sóttir á 17., 18., 19. og 20. öld. Höfundur tíundar sjúkdóma fyrr á tímum samkvæmt ýmsum heimildum og drýgstar eru Ferðabók Eggerts og Bjarna, Sýslulýsingar og doktorsritgerðir Schleisners og Jóns Finsen. Gigt er oftast nefnd en holdsveiki og sullaveiki fyrirferðarmest fram undir aldamótin 1900, en þá taka berklarnir við sem þjóðarsjúkdómur fram yfir miðja 20. öld að krabbamein og kynsjúkdómar taka við. Bókin nær ekki fram á veldistíma hjarta- og reykingasjúkdómanna.

Farsóttir, hungur og brjóstagjöf fá rækilega umfjöllun sem áhrifavaldar um fólksfjöldaþróun á Íslandi. Myndrit á bls. 175 um mannfjölda á Íslandi eftir aldursflokkum á 18. og 19. öld sýna mjög greinilega fjölgunina sem verður í yngsta aldurshópnum á þessu tímabili. Ungbarnadauðinn fór minnkandi á 19. öld og fólkinu fjölgaði sem sjá má á myndriti á bls. 174. Farsóttir voru ekki lengur slíkir skaðvaldar og verið hafði á fyrri öldum, nema hvað barnaveikin herjaði áfram fram yfir aldamótin 1900. Átakanleg er lýsing Indriða Einarssonar á ótta sínum og systkina sinna þegar fréttist til barnaveikinnar, "við litum hvert á annað og spurðum þegjandi: hvert okkar á nú að deyja" Síðasta hungurneyðin var Móðuharðindin. Sú staðreynd að íslenskar mæður höfðu ekki börn sín á brjósti var almennt talin eiga þátt í ungbarnadauðanum. Höfundur hafnar þessu alfarið og vitnar í prófessor Jón Steffensen sem taldi að hungur og hungurtengdar sóttir hefðu verið meginorsök dauðsfalla og þar með helsti áhrifavaldur um fólksfjöldaþróun Íslands um aldir.

Sérstakur kafli fjallar um heilbrigt samfélag eins og menn sáu það fyrir sér í hillingum á fyrri hluta 20. aldar með aukið hreinlæti í öndvegi enda ekki vanþörf á. Vitnað er í Guðmund Hannesson, prófesor, þann mikla eldhuga, sem skrifar eftirfarandi hvatningu árið 1926 í Morgunblaðið: "Þess verður vonandi ekki langt að bíða að það þyki sjálfsagt að fá sér bað þegar maður kemur heim óhreinn eða illa til reika og jafnvel að allir þrifamenn vilji þvo sér í hverri viku. Þetta er menningarkrafa sem ekki verður staðið á móti til lengdar og gott eitt um hana að segja frá sjónarmiði heilsufræðinnar". Hóflegar kröfur það. Og hver skyldi mótstaðan hafa verið? Kreddur kirkjunnar? Önnur skemmtileg tilvitnun er í Alþýðubók Halldórs Laxness 1929: "Auðvitað eru Íslendingar sóðar, engum manni með fullu viti gæti komið til hugar að bera á móti því ? Við verðum að hafa hugfast að kotin og þurrabúðirnar verða ekki mublaðar með draumum einum, raflýstar með tómum ferskeytlum né byggðar upp með sögum af skrýtnum köllum og kellingum eða ættartölum. Og þótt þjóðernisgorgeirinn kunni að vera góður og sveitamenningin hálofleg þá er þó enn meira vert að þvó sér og hirða tennur sínar." Nóbelskáldið sér söguöldina fyrir sér í allt öðru ljósi og verður hugsað til kollega síns fyrir 700 árum: ".. og lítinn vafa tel ég á að hreinir hafa þeir höfðingjar verið á Íslandi, sem sömdu sögurnar. Snorri lét gera laug að Reykholti og sat í henni laungum". Skúli V. Guðjónsson, prófessor í Árósum, er sama sinnis um þrifnað fornmanna og það er synd að höfundur hefur ekki bók Skúla "Manneldi og heilsufar í fornöld" með í gagnabanka þessarar bókar. Seinna kemur fram í þessum kafla að þrifnaður stóð til bóta því að við skólaskoðun í Reykjavík 1924-1925 voru 29,5% skólabarna með kláða, geitur, óþrif í hári, en 1972-1973 voru bara 2,4% með húðsjúkdóm, lús eða nit. Tilvitnanir í Heilbrigðisskýrslur eru fróðlegar og oft skemmtilegar enda margir læknar vel pennafærir, svo sem Steingrímur Matthíasson sem seint þreyttist á að dásama yfirburði sveitalífsins, sérstaklega fyrir börnin og þroska þeirra. Snjöll er lýsing Matthíasar Einarssonar á taugaveikifaraldrinum í Reykjavík árið 1906 með teikningu hans af útbreiðslu veikinnar frá Móakotslind á horni Lindargötu og Vatnsstígs.

Síðustu tveir kaflarnir eru um lækna og heilbrigðismál og samtök lækna. Stofnun Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands er gerð góð skil og saga Læknablaðsins rakin. Það kemur ef til vill mörgum á óvart að Læknafélag Reykjavíkur gaf út Læknablaðið fyrstu fjörutíu árin og að Læknafélag Íslands kom ekki að rekstri skrifstofu félagsins fyrr en eftir dúk og disk. Höfundur rekur ýmis mál sem stjórn LÍ hafði með höndum á fyrri hluta aldarinnar sem voru aðallega deilur við stjórnvöld útaf stöðuveitingum héraðslækna og greinir frá tveimur slíkum, Eyrarbakkadeilunni og ráðningu héraðslæknis á Ísafirði, en forðast að vonum þau viðkvæmustu og um leið mest spennandi, Kaldalónsmálið og Stóru bombuna.

Ég hefi nú lesið þessa bók oftar en einu sinni og finnst hún æ betri eftir því sem ég lít ofar í hana og það er augljóst mál að bókin og heimildaskráin verður öllum áhugamönnum um sögu læknisfræðinnar uppspretta fróðleiks og skemmtunar í framtíðinni. Ég hefi ekki verið í kommu- og villuleit en bendi á að höfundur hefur ekki áttað sig á að tveir læknar heita Sigurður Magnússon, berklalæknirinn og héraðslæknirinn og ég finn ekki Þorbjörn Þórðarson á Bíldudal í heimildaskrá en hann á fróðlegt og skemmtilegt innlegg: "Héraðslæknir í aldarbyrjun" (Læknabókin, 1949). Nú er mál að linni. Bókin fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum og er höfundi, útgefendum og öllum sem að útgáfunni komu til sóma.

Höfundur bókarinnar, Jón Ólafur Ísberg með formönnum útgáfunefndarinnar, Erni Bjarnasyni til vinstri og Hafsteini Sæmundssyni til hægri. Myndin var tekin þegar bókin kom út um miðjan desember.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica