02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Hugðarefni. Breiðfirskur kappsiglari með áhuga á sögu

Hafsteinn Sæmundsson læknir hefur nýlokið störfum sem formaður ritnefndar heilbrigðissögunnar en bókin Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga kom út skömmu fyrir jól. Hafsteinn féllst á að lýsa hugðarefnum sínum hér í blaðinu en þau eru allmörg. Hann skiptir þeim í tvennt og við fyrstu sýn virðast þau harla ólík en tengjast þó með ýmsum hætti þegar nánar er að gætt.

"Hugðarefni mín tengjast annars vegar áhuga mín­um á útiveru - siglingum, fjallaferðum og skotveiðum - og hins vegar íslenskum fornbókmenntum og sagnfræði," segir Hafsteinn.

Við ræðum fyrst um siglingarnar en áhugann á þeim rekur Hafsteinn til bernskuáranna. "Ég er Breiðfirðingur í báðar ættir og fór fyrst á sjó sex ára gamall með frændum mínum í Stykkishólmi. Siglingum á seglbátum kynntist ég fyrst þegar ég kom heim úr sérnámi 1982. Þá fór ég að sigla með vini mínum Niels C. Nielsen lækni en hann hafði þá eignast skútu."

Hafsteinn lét sér ekki nægja að lóna með ströndum fram heldur sá hann þarna leið til að fá útrás fyrir keppnisskapið. "Ég var farinn að keppa í sigl­ingum 1984 eða 1985 og hef ekki sleppt úr sumri síðan þá. Þetta er skemmtilegt en krefjandi sport sem reynir mikið á menn líkamlega þegar atgangur er harður í keppni eða veður slæm. Hópurinn sem stundar þetta er ekki fjölmennur en þeim mun áhugasamari og upp til hópa góðir félagar.

Við erum oftast sex eða sjö á þegar við keppum og árangur byggist á samstilltu átaki allra, þá er mikilvægt að standa sig, annars fær maður það óþvegið frá hinum í áhöfninni. Til að ná árangri í siglingakeppni verða menn að vera kjarkmiklir, vel á sig komnir og hafa viljann til að sigra.

Okkur félögunum hefur gengið upp og ofan í gegnum árin en best árið 1994 þegar við unnum gullverðlaun á Íslandsmótinu. Síðastliðin átta ár höfum við keppt á skútu sem heitir Ögrun og er í eigu vinar okkar. Þetta er 33 feta keppnisskúta og er sjö manna áhöfn um borð. Besta árangri okkar á Ögrun náðum við í sumar en þá fengum við brons í þremur stórum mótum og silfurverðlaunin á Íslandsmótinu. Þessu náðum við þrátt fyrir að vera með hæsta meðalaldur um borð og höfum reyndar haft það til margra ára."

Mannraunir og menningarferðir

En siglingarnar snúast ekki bara um að keppa. "Við höfum einnig siglt á milli landa og leigt okkur báta erlendis. Erfiðasta sigling mín var með Niels til Færeyja og heim árið 1988. Við vorum tveir á 26 feta báti sem hann átti og í samfloti með þremur öðrum skútum. Við lentum í nokkrum hremmingum á útleið en á heimleiðinni fengum við aftakaveður undan Suðausturlandi og komumst við illan leik eftir tæplega sólarhrings barning inn á Djúpavog. Þetta var mikil lífsraun sem reyndi mikið á sjómennsku okkar og styrkleika bátsins.Við vorum kannski ekki beint í lífshættu en þetta tók verulega á líkamlega og það hefði ekki mikið mátt bera út af til að illa færi. Síðar fór ég við þriðja mann til Færeyja, Hjaltlands og Noregs á sams konar bát og það gekk ágætlega.

Skemmtisiglingar höfum við hjónin farið í til Tyrklands og Króatíu með vinafólki. Þá leigjum við skútu í eina eða tvær vikur og siglum á milli hafna eða akkerislega. Á þennan hátt gefst tækifæri til að kynnast framandi þjóðum og menningu þeirra, fornri og nýrri. Nýlega stigum við stórt skref og keyptum hlut í 41 feta nýlegri skútu á Majorka sem vinir okkar eiga."

En þarf ekki að kunna til verka áður en menn hefja siglingar?

"Jú, til þess að geta leigt skútur og siglt einir verða menn að hafa einhverja reynslu og réttindi sem hægt er að afla sér hér heima í Siglingaskólanum. Sjálfur tók ég pungaprófið snemma og aflaði mér meiri réttinda síðar, núna er ég með full réttindi til úthafssiglinga á seglskútu."

Sjókort og bækur

Siglingarnar kveiktu annað áhugamál hjá Haf­steini.

"Uppruninn og þátttakan í siglingum leiddi til þess að ég fór að kynna mér siglingar við landið og á N-Atlandshafi fyrr á tímum. Ég kynnti mér fornar hafnir og siglingar á þær og ennfremur staði þar sem útræði hefur verið stundað. Ég hef farið víða um landið í þessum tilgangi og reyni þá alltaf að ræða við heimamenn. Ég hef leitað fanga víðar því ég fór að grúska í gömlum bókum og komst meðal annars í gamlar sjóleiðsögubækur. Þetta varð að ástríðu og í dag safna ég slíkum bókum og einnig gömlum sjókortum og stúdera þetta mér til mikillar ánægju. Mér hefur gengið allvel að safna bókunum en síður með kortin en hef þó haft aðgang að góðu kortasafni. Nýlega náði ég í gömul þýsk sjókort af Íslandi frá tímabilinu 1906-1937 sem höfðu verið í notkun í byrjun seinna stríðs sem voru sannkallaður happafengur. Ég hef svo reynt að miðla félögum mínum í siglingum af þekkingu minni með því að flytja fyrirlestra í klúbbnum okkar, Brokey - Siglingafélagi Reykjavíkur.

Við Niels erum ekki einu læknarnir sem stunda eða hafa stundað siglingar. Guðjón Vilbergsson á skútu og siglir sér til skemmtunar og hefur einnig starfað mikið í félagsmálum siglingamanna. Tómas Jónsson á mjög fallega skútu og siglir og keppir af kappi. Bjarni Hannesson á skútu sem hann siglir á sér til skemmtunar. Reyndar heyrði ég nýlega að hann hefði keppt eitthvað í fyrrasumar á Akureyri og kom ekki á óvart því hann var mikill keppnismaður hér áður fyrr. Magnús K. Pétursson keppti í mörg ár með Bjarna við góðan orðstír. Aðrir sem ég man eftir eru Sigurgeir Kjartansson sem ég held að sé enn að sigla og Birgir Guðjónsson sem var mjög virkur hér fyrr á árum."

Fjallaferðir og gæsaveiðar

Siglingarnar eru ekki eina útivistin sem freistar Haf­steins.

"Önnur útivist sem ég stunda eru fjallaferðir, sil­ungs- og skotveiði. Við hjónin ferðumst um landið á okkar fjallabíl sem er amerískur pallbíll með pallhýsi sem í eru öll þægindi. Þannig höfum við náð að kynnast flestum markverðum stöðum hér á landi og gengið á mörg fjöll. Þetta hefur svo leitt til þess að ég les mikið um sögu einstakra héraða og hef sérstakan áhuga á gömlum þjóðleiðum. Allt sem tengist því hvernig þessi þjóð lifði hér í gegnum aldirnar finnst mér afar áhugavert.

Skotveiði hef ég stundað frá því í læknadeild og við erum saman í þessu, ég Niels og Þorsteinn Gíslason. Nú orðið er þetta fyrst og fremst gæsa­veiði og nær eingöngu veiði á heiðagæs og helsingja. Við byrjum inni á hálendinu í ágúst og endum austur á söndum þegar komið er fram í október. Þetta hafa stundum orðið erfiðar slarkferðir í misjöfnum veðrum. Þá er nauðsynlegt að vera á góðum bílum og hafa húsaskjól í pallhýsinu á trukknum mínum."

Bóklestur á veturna

En það er ekki hægt að stunda útivist og veiðiskap allt árið eins og viðrar hér á landi.

"Þegar kemur fram í október taka við önnur hugðarefni sem er lestur íslenskra fornbókmennta og sagnfræði en hvort tveggja hefur verið áhugamál hjá mér frá því ég kynntist slíkum lestri ungur að árum hjá afa mínum í Stykkishólmi, gömlum sjómanni úr Breiðafjarðareyjum. Ég er í 12 manna leshóp sem hefur hist aðra hverja viku yfir veturinn síðastliðin 15 ár og lesið fornsögur. Við köllum okkur Sturlunga því það var fyrsta sagan sem við lásum og reyndar höfum við lesið hana tvisvar. Síðan förum við í ferðalag á söguslóðir á vorin og toppurinn er þá að hitta heimamenn sem þekkja vel til sögunnar og geta tengt hana staðháttum.

Í sagnfræðinni á ég mér nokkur aðaláhugamál og kaupi mikið af bókum sem þeim tengjast. Frá árinu 2004 hefur áhugi minn beinst að Íslandssögunni frá 1262 til siðskipta, það er norsku, ensku og þýsku öldinni. Önnur uppáhaldsefni eru víkingar, sérstaklega siglingar þeirra, norðmannar og krossferðir. Ég hef átt því láni að fagna að komast í góðar ferðir á söguslóðir með skemmtilegu fólki. Til dæmis fórum við hjónin til Norðmandí og Suður-Englands í júní síðastliðinn á slóðir víkinga og Vilhjálms sigurvegara sem vann frækilegan sigur við Hastings 1066.

Þessi áhugi á siglingum, fornsögum, sagnfræði og fleiru hefur leitt til þess að ég kaupi mikið af bókum. Ég er því tíður gestur á fornbókasölum og á orðið allgott bókasafn. Enda er það besta afslöppun sem ég þekki að sitja í bókastofunni og handfjatla gersemar á borð við Fornbréfasafnið, Safn til sögu Íslands, Sýslumannsævir og margt fleira," segir Hafsteinn Sæmundsson.

Hafsteinn í Þjóðmenning­ar­húsinu með Heilbrigðis­söguna undir arminum daginn sem bókin kom út, 14. des­ember síðastliðinn.

Ögrun (með rauða segl­ið) á leið inn Skerjafjörð í síðsumarmóti Brokeyjar 2005. Hafsteinn stendur á framdekkinu og stjórnar belgseglinu.

Skútan Perla sem Haf­steinn og Þórdís kona hans eiga á Majorku með vinafólki sínu.

Hafsteinn í fullum herklæðum við pallbílinn á leið í kvöldflug heiðargæsanna á Síðuafrétti.Þetta vefsvæði byggir á Eplica