02. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Fíkniefnaneysla og ofbeldi eru teikn um siðferðisbresti í samfélaginu

- segja læknarnir Valgerður Rúnarsdóttir og Kristín Sigurðardóttir

Snemma í desember var haldið málþing um samstarf og samskipti lögreglu og heilbrigðisþjónustu en það getur verið vandasamt fyrir lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn að feta réttu leiðina milli trúnaðar við sjúklinga og þess að gæta að skyldu sinni sem almennur borgari og verja almannaheill. Þarna komu saman læknar, lögreglumenn, tollþjónar og fleiri sem eru í daglegri snertingu við íslenskan fíkniefnaheim eða ýmsar afleiðingar hans, meðal annars aukið ofbeldi. Það sem vakti ekki hvað minnsta athygli á þessu málþingi voru upplýsingar tveggja lækna, annars vegar um fíkni­efnaneysluna og hins vegar ýmsar birtingarmyndir hennar frá sjónarhóli starfsfólks á slysa- og bráðadeildinni í Fossvogi.

Læknablaðið ræddi við læknana tvo sem eru þær Valgerður Rúnarsdóttir læknir á Vogi og Kristín Sigurðardóttir bráðalæknir og fræðslustjóri slysa- og bráðadeildar Landspítala Fossvogi.

Valgerður birti yfirlit yfir innlagnir á Vogi undanfarin ár og ef eitthvað er að marka þær tölur hefur orðið ótrúlega mikil aukning á neyslu ólöglegra vímuefna síðasta áratuginn eða svo.

"Áfengismisnotkun er enn stærsti vandinn en blönduð neysla hefur aukist verulega," sagði Valgerður. "Neysla ólöglegra fíkniefna tók kipp upp á við árið 1995, kannabis, amfetamín og e-töflur, og árið 1999 hófst önnur uppsveifla sem einkum náði til efna á borð við kókaín og morfín­skyld lyf. Það er fyrst og fremst meðal unga fólksins sem þessarar aukningar gætir. Ef litið er á alla þá sem lögðust inn á Vog árið 2004 þá hafði tæplega helmingur þeirra fíkn í kannabis eða örvandi vímuefni. Sé hins vegar litið á aldurshópinn 20-29 ára er hlutfallið 77% og hjá þeim sem eru undir tvítugu er hlutfallið 89%. Hjá þeim sem eru undir þrítugu er algengast að neyta bæði kannabis og örvandi efna meðan þeir eldri eru mest í áfengi og róandi lyfjum."

Gífurleg neysluaukning

Gögnin sem Valgerður sýndi á málþinginu bera með sér að árið 1995 varð mikil aukning á kanna­bisneyslu meðal yngsta hópsins. Kókaínið tók kipp upp á við um 1999 en þar eru neytendurnir heldur eldri. "E-pilluneyslan tók kipp sem flestir muna árið 1996 og þá varð uppi fótur og fit í samfélaginu enda voru það fyrst og fremst unglingar sem voru í þeirri neyslu. E-pillan datt niður í tvö ár en frá árinu 1999 hefur neyslan vaxið hröðum skrefum án þess að það hafi vakið nokkur viðbrögð," segir Valgerður.

Þegar litið er á tölurnar frá Vogi sést að fyrstu e-pillufíklarnir komu inn á Vog árið 1995, árið eftir voru þeir rúmlega 60, svo fækkaði þeim niður í um 20 en árið 2000 komu rúmlega 100 e-pillufíklar inn á Vog og undanfarin ár hafa þeir verið á bilinu 160-180 á hverju ári.

Svipaða sögu er að segja af amfetamín- og kókaínfíklunum. Allt fram til 1996 voru innan við 20 manns lagðir inn vegna kókaínfíknar á ári en þá fór þeim að fjölga ört. Árið 2000 voru þeir um 160 og árið 2004 voru þeir orðnir yfir 200. Amfetamínfíklarnir sem lögðust inn á Vog voru á bilinu 100-200 á ári fram til 1994 en árin 2003 og 2004 voru þeir yfir 500 hvort ár.

"Stór hluti af ástæðunni fyrir þessari aukningu er sjálfsagt aukið framboð á fíkniefnum. Ég er ekki viss um að þetta sé annað fólk en alkóhólistarnir, það er bara í öðrum efnum í dag. Stóri vandinn við kannabisfíknina er að þetta unga fólk dettur út úr skóla og hættir að vera með, hættir að geta stundað vinnu og sinnt fjölskyldu og er bara heima óvirkt á meðan lífið gengur hjá," sagir Valgerður.

Hún bætir því við að róandi lyfjafíkn hafi alltaf verið algeng og aukist enn, og það séu oftar konur með þann vanda. ?Hins vegar hefur orðið veruleg aukning á neyslu ópíumlyfja á borð við kódínlyf og contalgin sem koma úr apótekum landsins og eru því heimatilbúinn vandi. Það koma um 100 einstaklingar á ári sem hafa sprautað sig í æð með contalgini, þar af um helmingur ný tilvik. Þetta er lítill hópur miðað við neytendur hinna efnanna en hann fer stækkandi og þetta fólk er mjög lasið. Við höfum alls fengið 1400 sprautufíkla inn á Vog, þeir eru um 100 nýir á ári og aldur þeirra fer lækkandi," segir hún.

Ofbeldið hefur aukist

Kristín og margir kollegar hennar á slysadeildinni finna fyrir þessari breytingu í aukinni notkun fíknifefna á Íslandi og ofbeldi samhliða því. "Á hverjum einasta degi eru hér fíklar með einhverjar afleiðingar af neyslu, til dæmis sýkingar, krampa eða í annarlegu ástandi, með áverka hvort sem er eftir slys, sjálfskaða eða ofbeldi, félagslegan vanda og áfram mætti telja," segir Kristín.

"Mörgum okkar sem störfum á bráðamóttök­unni finnst ofbeldið hafa aukist og breyst. Það virðist meira um tilefnislaust ofbeldi og að haldið sé áfram að misþyrma fólki eftir að það er fallið. Menn hafa alltaf slegist en hér áður fyrr var hætt þegar annar var fallinn. Nú virðist allt í lagi að halda áfram og sparka og kýla varnarlaust fólk. Það mætti jafnvel halda að það væri frítt spil að sparka í fólk sem hefur fallið í áfengisdá.

Þetta finnst okkur oft tengjast fíkniefnunum því þegar fólk er undir áhrifum þeirra er það æst og erfiðara að tjónka við það. Starfsfólk hefur orðið fyrir hótunum og jafnvel árásum. Ég varð undrandi þegar fyrrverandi starfsmaður á deildinni sagði mér frá því hvers vegna hann flutti sig á aðra deild, honum leið illa hér, var beinlínis hræddur við að starfa við þessar aðstæður. Ég sem hélt að hann vildi bara breyta til. Við höfum gripið til þess ráðs að hafa lögreglumenn hér allar nætur og um helgar sem endurspeglar vaxandi áhyggjur starfsfólksins af ofbeldinu. Lögreglan er líka fljót að liðsinna okkur þegar við leitum til hennar," segir Kristín.

Valgerður tekur fram að það sé aðeins lítill hluti fíkla og alkóhólista sem beiti ofbeldi. "En það hefur eflaust aukist í kjölfar meiri neyslu örvandi efna. Oft er um að ræða beinar afleiðingar af áhrifum efnanna, í þeim skilningi að menn ætla sér ekki að valda skaða en efnin svipta þá hömlum og sjálfsstjórn svo niðurstaðan verður gróft ofbeldi," segir hún.

Er ofbeldið að færast til?

Í umræðum sem orðið hafa í kjölfar ráðstefnunnar hefur komið fram nokkuð misjafn skilningur á ofbeldinu í Reykjavík. Að sögn Karls Steinars Valssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hefur dregið verulega úr skráðu ofbeldi í miðborginni eftir að opnunartíma veitingahúsa var breytt árið 1999. Skráð ofbeldið í borginni í heild hefur einnig minnkað en ekki eins mikið. Þetta stangast á við reynslu starfsfólks á bráðamóttökunni.

"Því miður getum við ekki tekið undir þessi orð," segir Kristín. "Vissulega hefur lengdur opnunartími gert það auðveldara fyrir lögregluna að sinna löggæsluhlutverki sínu, meðal annars fylgjast með í öryggismyndavélunum, þar sem fólk kemur ekki allt út af skemmtistöðunum á sama tíma. Það hefði hins vegar verið hægt að leysa það með því að loka stöðunum á mismunandi tímum, í stað þess að lengja opnunartímann. Borgin er í raun að senda út þau skilaboð að það sé allt í lagi að drekka lengur og meira.

En varðandi ofbeldið í heild þá eigum við erfitt með að vísa í tölur vegna þess að skráningarkerfinu var breytt hjá okkur árið 1999 (og lögreglunni líka um svipað leyti) svo við höfum ekki raunhæfan samanburð við árin áður en opnunartímanum var breytt. Við fáum fjögur greind ofbeldisbrot inn til okkar á dag að meðaltali."

Kristín bætir því við að sá vandi fylgi tölum slysa­deildar að þær byggjast á ástæðu sem gefin er upp við komu. "Stundum kemur ekki í ljós fyrr en inni á deild að áverkinn stafar af ofbeldi en það ratar ekkert endilega inn í skráninguna og þar með tölfræðina," segir hún. Sá vandi fylgir að vísu allri tölfræði um ofbeldi og er síður en svo sér íslenskur.

"Ég var á þingi í Skotlandi ekki alls fyrir löngu," segir Kristín. "Þar var kynnt rannsókn sem benti til að einungis 12% þolenda ofbeldisbrota tilkynntu þau til lögreglu og 11% greindu frá þeim á bráðadeild. Það athyglisverðasta við þessa rannsókn var þó að á þessum tilkynningum var ekki nema 1-3% skörun. Það vekur upp þá spurningu hvort réttara væri að leggja tölur okkar og lögreglunnar saman!

Það er ennþá of mikið ofbeldi í gangi í þjóðfélaginu okkar hvort sem er í miðbænum eða annars staðar. Vandinn er að það kemst ekki endilega inn í skráninguna. Við fáum fólk hingað sem ekki hefur talað við lögregluna, það segir hana hvergi hafi verið nærri eða að það hafi ekkert upp á sig eða hreinlega vill ekki blanda henni í málið. Enskur sjónvarpsfréttamaður sem kom hingað fékk að fylgjast með miðbænum í eina nótt og störfum lögreglu í nokkrar klukkustundir. Hann hafði verið fylgjandi lengdum opnunartíma veitingahúsa en snerist hugur eftir þessa nótt. Hann upplifði það tvívegis að þeir komu að þar sem fólk var að slást og einhverjir lágu alblóðugir í götunni, en þeir stóðu svo upp án afskipta lögreglu, þannig að þetta ofbeldi er ekki til í tölum lögreglu þó svo hún hafi orðið vitni að því." segir hún.

Marktækar tölur?

Sú spurning vaknar hvort sá samdráttur á ofbeldi sem lögreglan telur sig merkja í miðbænum leiti sér útrásar í öðrum hlutum borgarinnar. Kristínu finnst að í raun sé munurinn á þessum tegundum ofbeldis sáralítill.

"Heimilisofbeldi er ekkert minna eða öðurvísi en annað ofbeldi nema að það gerist á heimilinu sem á að vera griðastaður. Við sjáum alls konar útgáfur af því, jafnvel hafa komið hingað foreldrar illa leiknir af börnum sínum. Það er oft vegna fíkni­efna, börnin eru orðin skemmd af neyslu. Þetta unga fólk er oft líka að neyta áfengis en fíkniefnin draga það miklu hraðar niður."

Fyrst talið barst að skráningu ofbeldisverka vaknaði sú spurning hversu áreiðanlegar tölurnar eru sem Valgerður sýndi á málþinginu. Eru þær marktækar?

"Já, þær hljóta að endurspegla ástandið nokkuð vel vegna þess hversu margir koma við sögu. Tölurnar sýna okkur að tæplega 10% af öllum núlifandi íslenskum karlmönnum 15 ára og eldri hafa verið lagðir inn á Vog og tæplega 4% kvenna á sama aldri. Það koma um 1800 manns á ári inn á Vog, þar af um 600 nýir. Þetta er harðari endinn því þessu til viðbótar er stór hópur sem er virkur í neyslu án þess að koma í meðferð.

Þórarinn Tyrfingsson á allan heiður af góðu skráningarkerfi á Vogi sem hefur verið við lýði í 28 ár. Sama blaðið hefur verið notað til að skrá neysl­una í hartnær 20 ár og af því má lesa ýmsar faraldsfræðilegar upplýsingar um alla þá sem lagðir eru inn," segir Valgerður.

Trúnaður og almannaheill

Á málþinginu flutti Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands erindi um trúnaðarsamband læknis og sjúklings eins og lesa mátti um í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Það var sjónarmið lögfræðingsins en hvernig líta vanda­mál sem tengjast trúnaðarsambandi læknis og sjúklings út "á gólfinu" ef svo má segja

"Þetta er í rauninni mjög einfalt fyrir okkur á Vogi," segir Valgerður. "Við erum að sinna sjúklingum sem geta alltaf leitað til okkar öruggir um trúnað. Reyndar er furðanlega lítið um ofbeldi inni á Vogi í ljósi þess að við erum iðulega með afbrotamenn í meðferð og stórneytendur áfengis og örvandi vímuefna. Það er afar sjaldgæft að við þurfum að kalla til lögreglu, það gerist kannski einu sinni eða tvisvar á ári og þá oftast þegar menn ganga berserksgang.

Lögreglan kemur stundum til okkar í leit að mönnum en sýna því yfirleitt fullan skilning að við veitum henni enga þjónustu, nema ef sjúklingur óskar þess sjálfur. Við eigum gott samstarf við lögreglu sem kemur oft með menn til okkar sem þurfa að komast strax í meðferð."

Kristín segist vera sammála Valgerði um að öllum sem þurfi aðstoð eigi að sinna og að almennt gangi samskiptin við lögreglu mjög vel. "Hins vegar heyrum við undir landslög, þar með talin bæði lög um persónuvernd og um almannaheill. Við eigum að gæta að hvoru tveggja og þegar þetta stangast á lendum við í vandræðum. Við sjáum stundum hluti sem við viljum koma í veg fyrir. Dæmi um slíkt gæti verið maður sem veifar byssu og segist ætla að fara að skjóta forsætisráðherrann. Ef við teljum að honum sé alvara eigum við að láta lögreglu vita."

Hvenær á að kalla í lögreglu?

"Burðardýrin hafa verið vaxandi vandamál," heldur Kristín áfram. "Stundum kemur lögreglan með þau og veit af þeim og þá er þetta einfalt. En hvað eigum við að gera þegar lögreglan veit ekki af þeim, þau hafa leitað sjálf á deildina með áhyggjur af heilsunni en reynast svo ekki vera í yfirvofandi lífshættu. Þá þurfum við kannski ekki að bregðast við nema að flýta fyrir úthreinsun efnanna. En vilji viðkomandi hinsvegar fara af deildinni, eigum við að koma í veg fyrir það" Hann getur verið í lífshættu með margfaldan dauðaskammt af efnum innvortis. Eigum við að horfa á eftir honum út með allt þetta magn eiturefna sem er skaðlegt fyrir þjóðfélagið eða ber okkur að tilkynna það lögreglu?

Menn hafa mismunandi skoðun á hvernig bregðast eigi við. Sumir segja að læknirinn eigi ekki að hugsa um neitt nema sjúklinginn og ekkert að hugleiða eða skipta sér af því hvaða afleiðingar gerðir hans geti haft. Aðrir vilja fara bil beggja og láta lögreglu vita í sumum tilvikum, til dæmis ef einhver ætlar að setjast upp í bíl ölvaður og aka héðan. Enn aðrir segja að þeir ætli ekki að hylma yfir svona glæp og vilja tilkynna allt ólöglegt til lögreglu."

Trúnaðarskyldan kemur einnig við sögu þegar ofbeldið er annars vegar. Kristín nefnir dæmi: "Hingað kemur maður nær dauða en lífi eftir gróft ofbeldi. Takist okkur ekki að bjarga lífi hans ber okkur að tilkynna það til lögreglu. Ef okkur tekst að lífga manninn við og hann vill ekki kæra verknaðinn, eigum við þá ekki að aðhafast neitt? Eiga þeir sem ofbeldið frömdu að geta haldið áfram að gera slíka hluti? Þetta gerist stundum þegar um heimilisofbeldi er að ræða. Stundum er fólk tilbúið að kæra í upphafi en verður svo hrætt og dregur í land."

Valgerður: "Sé sjúklingur sjálfráða verðum við að virða ákvarðanir hans. Oft getur verið erfitt fyrir okkur að setja okkur inn í aðstæður fórnarlamba ofbeldis. Ef við fáum til okkar konu sem hefur verið barin illa finnst okkur sjálfsagt að hún kæri. Ef það er eiginmaður konunnar sem á í hlut getur konunni fundist miklu verra ef hann fer í fangelsi. Þetta er ekki einfalt og við verðum að treysta fólki til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Við getum ekki farið inn í líf fólks og lifað því. Hins vegar ættum við að reyna að ná til fólks í þessari stöðu og hjálpa því að leita sér faglegrar aðstoðar."

Kristín bætir við enn einu dæminu: "Ef lögreglan kemur með ökumann og biður um blóðrannsókn vegna gruns um ölvunarakstur og við komumst að því að hann er ekki ölvaður heldur undir áhrifum fíkniefna, hvað eigum við þá að gera? Lögreglan bað eingöngu um áfengispróf og fær það. Eigum við að spyrja hvort hún vilji fíkni­efnaprufu? Trúnaðarskyldan segir að við megum það ekki en á sama tíma viljum við koma í veg fyrir að menn fari aftur út í umferðina og valdi tjóni."

Siðferðisbrestur í samfélaginu

Þeim Kristínu og Valgerði verður heitt í hamsi þegar talið berst að ástæðum aukinnar neyslu og meðfylgjandi ofbeldis og hvað sé hægt að gera við því.

Valgerður: "Hluti af vandanum er lyfjatrúin sem er allt of útbreidd. Allt á að laga með lyfjum. Fólk má ekki missa svefn eina nótt þá vill það fá svefnlyf og við fáum til okkar fólk sem segist ekki geta lifað án þess að fá lyf. Annað er vaxandi einstaklingshyggja sem birtist í aðgerðum stjórnvalda. Við tímum ekki að starfrækja öfluga heilbrigðisþjónustu og menntakerfi eða löggæslu og tollgæslu. Það er svekkjandi að finna sífellt fyrir niðurskurðinum því við erum svo fá að við eigum að geta sinnt þessu betur en við gerum."

Kristín segir að sumar aðgerðir hafi borið árangur en það vanti enn meira á að fólk spyrji sig hvað sé undirliggjandi og reyni að bæta úr. "Sem dæmi um árangursríka aðgerð var átakið sem gert var til að koma börnum og unglingum úr miðbænum um helgar. Þar tóku foreldrar, lögregla og borgaryfirvöld höndum saman og það bar góðan árangur. Þetta sýndi að það er hægt að breyta og laga. Það sama gilti um átakið gegn e-pillunum. En svo hætti átakið og þá rauk neyslan upp aftur. Þetta þurfum við að skoða, athuga hvað gerðist, voru þetta nýir sölumenn á markaðnum, lengdur opnunartími eða eitthvað allt annað" Mér finnst það sorglegt að hrista bara hausinn og segja að þetta sé það sama og gerst hafi í útlöndum svo við þessu sé ekkert að gera. Okkur er ekki sama og það hefur verið sýnt fram á að með samstilltu átaki er hægt að hafa áhrif og bæta ástandið.

Í framhaldi af þessu fór ég að velta fyrir mér opnunartíma veitingahúsa. Það hafði verið varað við því að fíkniefnaneysla gæti aukist eftir að opnunartíminn lengdist. Ástæðan fyrir því er sú að áfengi er slævandi og menn endast ekki mjög lengi á því einu. Þess vegna eykst þörfin fyrir að fá eitthvað sem eykur úthaldið fram undir morgun. Nú virðist þetta vera að gerast, er ekki rétt að draga í land og sjá hvort eitthvað dragi úr neyslunni með því að stytta opnunartímann eða breyta honum."

Kristín vitnaði til orða Sigurbjörns Sveinssonar formanns LÍ eftir málþingið en hann sagði að við værum að horfast í augu við siðferðisbrestina í samfélaginu.

"Aukin fíkniefnaneysla og ofbeldi eru einkenni um bresti í þjóðfélaginu sem við þurfum að horfast í augu við. Vissulega hafa menn verið að rannsaka hitt og þetta og það er vel en það þarf meira til. Við sem búum í þjóðfélaginu berum sjálf ábyrgð. Erum við orðin of gráðug og höfum ekki tíma til að sinna hvert öðru? Markaðshyggjan miðar að því að gera alla óánægða með það sem þeir hafa.

Fjölmiðlarnir eru uppfullir af fréttum um stóru fyrirtækin og einstaklinga sem eru alltaf að græða en það er ekki endilega það sem almenningur hefur mestan áhuga á eða áhyggjur af. Nýlega var gerð viðamikil rannsókn sem sýndi að besta forvörnin gegn fíkniefnaneyslu unglinga væri að fjölskyldan eyddi meiri tíma saman. Samt megum við ekki vera að því, við erum svo upptekin af því að vinna.

Náum við ekki að höndla velmegunina? Við eigum svo margt gott en samt eiga börnin okkar met í neyslu þunglyndislyfja. Ég held að vaxandi vímuefnaneysla sé hluti af lífsstílsbreytingunum sem eru að verða, rétt eins og offita og aukið þunglyndi. Á þessu öllu þarf að taka og það þurfum við að gera öll, ekki bara einhverjir menn í nefndum," sagðir Kristín og á þeim nótum lauk spjallinu.

Valgerður Rúnarsdóttir (til vinstri) og Kristín Sigurðardóttir.

Hér eru þær Kristín og Valgerður í anddyri slysadeildarinnar í Fossvogi. Í glerbúrinu að baki þeim eiga þeir sem þangað leita að segja starfsfólki hver sé ástæða heimsóknarinnar. Þetta finnst þeim afleitur staður til þess að ræða um viðkvæm persónuleg málefni, ekki síst þegar mikið er að gera og fjöldi fólks stendur í biðröð fyrir aftan viðkomandi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica