01. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Þagnarskyldan er til að vernda mannréttindi einstaklingsins. Viðtal við Gunnar Ármannsson.

- Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ segir að tiltölulega skýrar reglur gildi um samskipti lækna og lögreglu í fíkniefnamálum

Samstarf og samskipti lögreglu og heilbrigðis­þjónustu á sviði fíkniefnamála var umræðu­efni ráð­stefnu sem haldin var í Norræna hús­inu snemma í desember. Að henni stóðu bráða­lækn­ar, Landspítali, landlæknir, Læknafélag Ís­lands, lögreglan í Reykjavík og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Þar var farið yfir sviðið og fíkni­efnavandinn skoðaður með augum lækna og lögreglumanna. Meðal frummælenda á ráðstefn­unni var Gunnar Ármannsson hdl. og framkvæmda­stjóri LÍ en hann fjallaði um þagnarskyldu heilbrigðisstétta og hvernig hún virkar í fíkniefnamálum.

Erindi Gunnars vakti töluverða athygli á ráðstefnunni. Læknablaðið tók Gunnar því tali og bað hann að segja lesendum blaðsins frá því sem fram kom á ráðstefnunni.

"Mitt hlutverk var að skoða þagnarskyldu læknisins, hvað hann megi segja og hvað ekki. Í lækna­lögunum segir að þagnarskyldan sé mjög rík og gildi um hvaðeina sem fram kemur í samskiptum lækna og sjúklinga. Hins vegar segir þar einnig að hægt sé að víkja frá þagnarskyldunni ef lög heimili slíkt eða ef brýna nauðsyn beri til. Um þessar undanþágur gilda matskenndar reglur og í greinargerð með lögunum segir að þær geti til dæmis gilt ef um er að ræða rannsókn á alvarlegum brotamálum eða öðrum refsimálum. Ef eingöngu er horft á læknalögin virðast því reglurnar við fyrstu sýn geta verið býsna matskenndar.

Árið 1995 var hins vegar gerð breyting á stjórnarskrá sem klárlega þrengir þann ramma sem læknalög draga upp. Í ákvæðum 71. greinar um friðhelgi einkalífs segir að þagnarskyldu megi ekki rjúfa nema fyrir liggi sérstök lagaheimild. Þetta ákvæði gengur lengra en læknalög og þar sem stjórnarskrá er æðri almennum lögum verða læknar að fara eftir henni. Hæstiréttur hefur fjallað um þessa grein stjórnarskrárinnar og komist að þeirri niðurstöðu að tilgangur hennar sé að vernda einstaklinginn og þess vegna sé þagnarskyldan mikilvæg, bæði vegna almennra mannréttindasjónarmiða og í þeim tilgangi að samband sjúklings og læknis geti verið náið og heilsuvernd og lækningar skilað sem mestum árangri. Einstaklingurinn þarf að geta treyst á þjónustu heilbrigðiskerfisins, jafnvel þótt hann hafi gerst brotlegur við lög."

Þagnarskylda og vitnaskylda

Gunnar vitnar einnig til laga um réttindi sjúklinga þar sem finna má undanþágur frá þagnarskyldunni ef lög kveða á um slíkt. "Þar má nefna barnaverndarlög sem kveða á um að upplýsingaskylda um hag barna sé ríkari en þagnarskyldan. Það er beinlínis kveðið á um það í lögunum svo það fer ekkert á milli mála. Einnig má nefna tilkynningar samkvæmt sóttvarnalögum þar sem kveðið er á um skyldur lækna til að tilkynna sóttvarnalækni um sjúklinga sem greinast með tiltekna smitsjúkdóma. Þar er verið að horfa á almannahag og löggjafinn hefur í því tilviki talið að þagnarskyldan verði að víkja.

Ég skoðaði einnig ákvæði laga um sjúkraskrár sem læknum er skylt að halda um sjúklinga sína. Þar er að finna mjög viðkvæmar persónuupplýsingar þar sem meginreglan er sú að enginn má sjá þær nema aðrir heilbrigðisstarfsmenn og þá eingöngu ef það er í þágu þess sjúka. Undantekningar frá þessari reglu eru mjög þröngar en þær eru að sjúklingum er heimilt að veita öðrum aðgang að sjúkra­skrá sinni og auk þess er það til í dæminu að lög kveði á um aðgang annarra að sjúkraskrám. Það á til dæmis við um lækna Tryggingastofnunar ríkisins í ákveðnum tilvikum. Loks getur Persónuvernd veitt skriflegt leyfi fyrir aðgangi að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna. Aðrir mega ekki skoða sjúkraskrár og þar með ekki starfsmenn löggæsl­unnar.

Í lögum um meðferð opinberra mála er kveðið á um vitnaskyldu. Þar segir í 55. grein að vitnum sé óleyfilegt að svara spurningum fyrir dómi án leyfis þess sem í hlut á ef um er að ræða atriði sem varða einkahagi manna og vitninu hefur verið trúað fyrir í starfi sínu. Þarna eru sérstaklega tilteknir læknar, prestar, lyfsalar, lögfræðingar og fleiri stéttir. Frá þessari reglu er ein undantekning og hún er sú að ef um er að ræða afbrot sem við liggur að minnsta kosti tveggja ára fangelsi þá ber vitninu að greina frá því sem það veit. Það er dómara að skera úr um það hvort ákæran í málinu varði slíkt brot og það liggur yfirleitt ekki fyrir fyrr en ákæra hefur verið gefin út. Lögregla sem rannsakar mál getur því ekki krafist þess að læknar rjúfi þagnarskyldu sína vegna þess að hún veit sjaldnast hvort ákært verður fyrir brot sem varða tveggja ára fangelsisvist hið minnsta.

Þetta er mikilvægt ákvæði og á það hefur reynt í Hæstarétti. Það varðaði prest sem talið var að byggi yfir upplýsingum um kynferðisbrot gegn barni. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að prestinum bæri að virða þagnarskylduna af því að í refsilögum var ekki kveðið á um neina lágmarksrefsingu fyrir brotið sem ákæran varðaði. Dómstólar fara því mjög bókstaflega eftir þessu ákvæði.

Það eru eingöngu gróf brot sem varða tveggja ára lágmarksrefsingu svo það var mín niðurstaða að væru læknar í vafa um hvort þeir eigi að víkja frá þagnarskyldunni, komi sú staða upp, beri þeim að túlka þann vafa skjólstæðingnum í hag og neita að upplýsa um þau tilvik sem lögreglan óskar upplýsinga um."

Löggjöfin styður þagnarskylduna

Gunnar nefndi dæmi af sjúkrahúslækni sem fær til sín burðardýr með fullan kvið af fíkniefnum sem því hefur orðið meint af. Hvað á hann að gera"

"Hann á að veita viðkomandi þá læknisþjónustu sem til þarf. Þegar hann er búinn að ná fíkniefnunum úr líkama burðardýrsins á hann að gera yfirvöldum viðvart um efnin og skila þeim til lögreglunnar. Hann á hins vegar að virða þagnarskyldu sína gagnvart sjúklingnum. Hann má með öðrum orðum ekki upplýsa lögreglu um það hver hafði þessi efni innvortis. Í þessu tilviki er verið að vernda einstaklinginn og tryggja að hann geti leitað til heilbrigðiskerfisins og fengið þá þjónustu sem hann þarf án þess að eiga á hættu að lenda hjá lögreglu eða vera dreginn fyrir dóm.

Um þetta má nefna dæmið af Litháanum sem fannst látinn í höfninni í Neskaupstað. Í því máli gerðust þeir sem með honum voru sekir um að koma honum ekki til hjálpar, það var sjálfstætt brot þeirra. Hins vegar má vel vera að þeir hafi haft af því áhyggjur að ef þeir leituðu til heilbrigðiskerfisins væru þeir að koma upp um sjálfa sig og burðardýrið. Það hafi síðan leitt til þess að maðurinn lét lífið. Það er tilgangur laganna að vernda þá sem lenda í þessari stöðu, þeir eiga að geta treyst því að þeir verði ekki settir bakvið lás og slá bara fyrir það eitt að leita til heilbrigðisstarfsmanna þegar þeir lenda í vanda."

Þessar reglur virðast vera mjög skýrar eins og þú setur þær fram. En hvað um refsiábyrgð læknis sem annað hvort rýfur þagnarskylduna eða neitar að bera vitni þótt honum sé það skylt"

"Þarna skiptir miklu máli að meginhugsun í refsilöggjöfinni er að tryggja að þeir sem bundnir eru þagnarskyldu rjúfi hana ekki. Þar sem um svo mikilsverð réttindi þess sem á njóta trúnaðar er að ræða hefur löggjafinn sett inn refsiákvæði gagnvart þeim sem bundnir eru trúnaði ef þeir rjúfa hann. Á hinn bóginn eru þar ákvæði um refsileysi í ákveðnum tilvikum, svo sem þegar menn gera eitthvað í nauðvörn eða með skírskotun til meiri hagsmuna, neyðarréttar. Sem dæmi má nefna bráðalækni sem heyrir á tal sjúklings í annarlegu ástandi sem hann hefur haft hjá sér að hann hyggist fara út í bæ og drepa mann. Þá ber honum að gera lögreglu viðvart. Í þessu tilviki eiga ákvæði um refsileysi við gagnvart honum.

Vissulega geta slík tilvik verið matsatriði en menn verða að hafa í huga að þarna eru mikilvæg mannréttindi sjúklings í húfi og þess vegna má segja að sé læknir í vafa þá ber honum að túlka allan vafa sjúklingnum í hag."

Varasamt að auka undanþágur

Gunnar áréttar að ef vafi leiki á hvort víkja skuli frá þagnarskyldunni þá séu það dómstólar einir sem geti knúið lækna til að rjúfa þagnarskylduna. Komi upp ágreiningur milli læknis og lögreglu verði lögreglan að leita eftir úrskurði dómara um það hvort lækninum sé skylt að greina frá því sem hann veit.

"Á ráðstefnunni mátti greina að lögreglan gerir kröfu um að fá rýmri heimildir til þess að knýja lækna til sagna en sú krafa snýr að löggjafanum, ekki læknum. Reglurnar í gildandi lögum eru nokkuð skýrar og ljóst hvernig læknirinn á að haga sér. Fyrirspurnir lögreglumanna og tollvarða á ráðstefnunni gáfu til kynna að sumir þeirra hafi staðið í þeirri trú að heimildir þeirra væru víðtækari og að þeir gætu krafið lækna um svör í ríkara mæli en þeir geta. Það er kannski þess vegna sem lögreglan er að þrýsta á um frekari undanþágur frá þagnarskyldunni.

Ef víkja á frá þagnarskyldunni í ákveðnum afmörkuðum og vel skilgreindum tilvikum vil ég leggja áherslu á að það er mjög vandasamt að ákveða hvaða undanþágur ætti að veita vegna þess hversu mikil áhersla er lögð á mannréttindi einstaklingsins og friðhelgi einkalífsins í stjórnarskránni. Það þarf að fara mjög varlega í að víkja frá þagnarskyldunni."

- Finnst þér ákvæði laganna um samskipti lækna og lögreglu vera nægilega skýr?

"Já, mér finnst þau nógu skýr. Mér fyndist það vera áhyggjuefni ef löggjafinn ætlar að draga úr þeirri vernd sem þagnarskyldan veitir. Þá væri verið að stíga skref inn í friðhelgi einstaklingsins og draga úr líkunum á að hann leiti eftir aðstoð heilbrigðiskerfisins, eigi hann það á hættu að sagt verði frá honum. Ég skil mjög vel áhuga lögreglunnar á því að komast yfir þær upplýsingar sem heilbrigðisstarfsmenn geta búið yfir og gætu nýst í viðleitni hennar til að koma í veg fyrir dreifingu fíkniefna í landinu. En meðan við leggjum svona mikla áherslu á að vernda mannréttindi einstaklingsins þá verðum við að fara afskaplega varlega."

Gunnar sagðist vera mjög ánægður með ráðstefnuna, hún hefði skýrt línurnar og aukið gagn­kvæman skilning heilbrigðisstarfsmanna og lög­reglunnar. "að er mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn setji sig inn í aðstæður lögreglumanna og ekki síður að lögreglan skilji að staða heilbrigðismanna er við hlið sjúklinga sem þeim ber að vernda,"sagði Gunnar Ármannsson héraðsdómslögmaður.

Gunnar Ármannsson héraðsdómslögmaður og framkvæmdastjóri LÍ.

Gunnar í pallborði ásamt læknunum Valgerði Rúnarsdóttur, Sigurbirni Sveinssyni og Kristínu Sigurðardóttur.

Ráðstefnan í Norræna húsinu var vel sótt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica