12. tbl. 91. árg. 2005

Líf með hestum

Inngangur

Ég man ekki hvenær ég var fyrst settur upp á hest, en það hefur verið snemma. Fimm ára eða þar um bil var ég hafður með á vagnhesti í kálfastússi í Mjóumýri sem þá var kúabeit frá Breiðholti, en er nú undir malbiki í Seljahverfi. Klárinn snarstansaði og ég fauk fram af honum. Því er mér þetta í minni. Síðan hafði ég að heita má öll sumur hesta undir höndum, að vísu mest brúkunarhesta, allt til ársins 1952. Árið eftir fór ég úr landi og var í burtu í ein 12 ár. Á þeim árum kom ég varla á hestbak. Heimkominn fór ég að fara með hesta á ný og frá 1969 hefur fjölskyldan átt reiðhesta.

Hestamennska getur verið með ýmsum hætti. Hjá mér hefur umgengni við hesta og útreiðar ætíð verið mótvægi eða slökun frá daglegu amstri. Á löngu tímabili sundurslítandi kennslu á vegum Háskóla Íslands þegar höfuð manns nánast líkt og þornaði upp í rás dagsins, verkaði veran í hesthúsinu og samvera við félaga þar eins og græðandi endurfylling hugans eða sem einhvers konar "cerebral refill". Þó fór svo að ég gat ekki með öllu losað mig við aðferðafræði vinnudagsins og fór að gera athuganir og rannsóknir á eigin hestum og annarra með læknum, dýralæknum, lyfjafræðingi og örverufræðingi. Mun ég á eftir víkja að þremur slíkum rannsóknum sem birtar hafa verið.

Allir hestamenn að kalla sækjast eftir að ferðast á hestum sínum á sumrin. Hér á eftir mun ég því einnig víkja að eftirminnilegum sumarferðum á hestum sem birst hafa á prenti. Eigi er hér rúm til þess að fjalla um reiðleiðalýsingar sem ég hef lagt nafn við (1).

Sumarferðir á hestum

Djúp og Strandir

Í júlí 1977 fórum við allnokkur í 10 daga reiðferð um Djúp og um Strandir að undirlagi Guðmundar Magnússonar leigubílstjóra og Strandamanns. Bíll fylgdi okkur víðast og yfirleitt var gist í tjöldum. Hestarnir voru fluttir á bíl norður í Reykhólasveit. Þaðan lá leiðin um Kollabúðaheiði í Staðardal og svo upp hann og um Langadal að Nauteyri. Þar var skemmtileg útilaug, hlaðin úr torfi. Næsti áfangi var að Melgraseyri. Við brugðum okkur þaðan inn í Kaldalón. Þangað hafði ég komið á hestum 26 árum áður og riðið upp á jökulsporðinn. Þar var nú komin klettabringa undan jöklinum. Næsta dag var haldið að Laugalandi, upp Skjaldfannardal og Hraundal og síðan yfir vatnaskilin og um Ófeigsfjarðarheiði til Ófeigsfjarðar. Á kortum er þarna merkt gömul alfaraleið og hefur hún án efa fyrrum verið farin á jökli. Nú er jökullinn hvergi nærri og leiðin grýtt og hreint torleiði á hestum. Við urðum að ganga langar leiðir með hestana. Það var því rétt þegar konan mín sagði að þetta hefði verið ferð "með hesta" en ekki "á hestum". Í Ófeigsfirði var hópnum skipt á tvö hús og stóð veisluborð í hvoru húsi líkt og við hefðum sent boð á undan okkur! Við höfðum svo náttstað í Ingólfsfirði. Næsta dag héldum við í Veiðileysufjörð. Á leiðinni þangað var meðal annars stansað í Djúpuvík. Undarlegt var að skoða draugahús síldarverksmiðjunnar þar á staðnum. Á níunda degi var komið til Hólmavíkur og á 10. degi til Ólafsdals. Þar var gist í gamla timburhúsinu. Næsta dag voru flest hrossin sótt á bíl. Ferðasagan hefur birst í stuttu máli (5).

Á leiðinni vestur í Reykhólasveit í upphafi ferðar komum við að hrikalegu bílslysi þar sem tvær stúlkur dóu. Einn í hópnum slasaðist snemma í ferðinni. Varð það tilfelli á endanum læknisfræðilega ærið áhugavert, en það er önnur saga.

Fjallið Þríhyrningur

Sumarið 1987 byggðum við hjónin sumarbústað í Litla-Odda í landi Gaddstaða við Hellu. Höfum við stundað þar trjárækt og ræktað beitiland er dugir nokkrum hestum sumarlangt. Á meðfylgjandi mynd sést einmitt þegar verið er að taka þar hesta síðsumars og flytja í haustbeit. Þarna í grennd eru einhverjir bestu reiðvellir á Íslandi sem jafnframt eru Njáluslóðir. Hlaut ég því fyrr eða síðar að ríða í slóð Gunnars, Njáls og sona hans eða Flosa og Sigfússona.

Eitt fyrsta árið rákumst ég og félagar mínir á merkilega háreistar seljarústir, Innstusel, suðaustan undir nyrsta horni Þríhyrnings og þar hjá leifar af túngarði eða vörslugarði og hugsanlega einnig tröðum. Til suðvesturs undir Þríhyrningi heitir Kirkjulækjarflóð og er það með afbrigðum grasgefið land. Ég gekk svo með þetta í smiðju til hins fróða og aldna þular, Oddgeirs Guðjónssonar frá Tungu, og áður hreppstjóra Fljótshlíðinga. Oddgeir trúir því að staðfræði Njálssögu sé rétt og lýsi nokkurn veginn sannri atburðarás um ferðir manna um héruð sögunnar. Hann sagði mér að þarna myndi hafa verið "bærinn undir Þríhyrningi" sem víða er nefndur í Njálssögu og fleiri væru á þeirri skoðun. Fullyrti hann að fært væri með hesta upp fjallið hið næsta "bænum" og þá leið gæti Flosi hafa farið til fylgsnis í Flosadal með menn og hesta er hann kom frá því að brenna Njál og hans fólk inni kringum árið 1010. Ég ákvað nú að kanna þetta nánar.

Fyrst var að íhuga hvort ferð Flosa með menn og hesta austan frá Svínafelli og til móts við Sigfússyni á Þríhyrningshálsum gæti staðist. Reiðleið þessi er lengst kringum 200 km og þeir hafa samkvæmt sögunni þurft að fara hana á einum 32-33 klukku­tímum. Til samanburðar tók ég staðfestar upplýsingar um frægar langreiðar eins af forfeðrum mínum og eins af forfeðrum dr. Guðmundar Þorgeirssonar prófessors. Af samanburði við staðfestar langreiðar þessara manna svo og annarra er ljóst að reið þeirra Flosa og félaga er engan veginn einstæð og þaðan af síður ólíkleg.

Af Njálssögu má ráða að Flosi hafi falist í þrjá daga í Flosadal í Þríhyrningi með hesta og menn eftir að hann kom frá því að brenna Njál inni og áður en hann reið aftur heim austur. Þennan tíma hefur hann orðið að sjá mönnum sínum fyrir mat og hestunum fyrir fóðri auk vatns. Til þessa þurfti hann góðan birgi eins og heitir á nútímamáli. Allar líkur eru til þess, að fólkið á "bænum undir Þríhyrningi" hafi á þessari tíð verið afkomendur skyldmenna eða venslafólks Flosa. Það var þar að auki í næsta nábýli við Sigfússyni og gat því að undirlagi Flosa hafa séð um matinn handa mannskapnum. Menn Flosa gátu svo að næturlagi farið óséðir með hrossin niður fjallið, látið þau fylla sig í Kirkjulækjarflóði og svo farið aftur með þau upp til felustaðar í fjallinu. Í þessu sambandi ber þess að minnast að Njálsbrenna á að hafa orðið seinni partinn í ágúst þegar dag er umtalsvert tekið að stytta.

Sumarið 1993 (22.7.) fórum við tveir með þrjá hesta hvor í spor Flosa og manna hans upp í Þríhyrning. Ferðin gekk eins og í sögu upp og ofan fjallið og ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að hemja allt að 200 hross í Flosadal ef nægur mannskapur er fyrir hendi. Það kitlaði hégómagirnd mína að geta sagt að ég hefði riðið á tölti eftir fjallshryggnum til suðurs í átt að Flosadal "svo að kastaði toppi"!

Sumarið 1995 fórum við svo enn í könnunarleiðangur um landið kringum Þríhyrning. Þá fórum við með hesta upp á Litla-Þríhyrning. Var þá sú mynd tekin sem hér fylgir með (bls. 960). Til vinstri á myndinni sést "typpan" á hrygg fjallsins sem við stefndum á á leiðinni upp. Þessum ferðum hefur verið ítarlega lýst á prenti (6).

Á þessum árum fór ég með úrvalshest, Gangvara, sem var í eigu dóttur minnar. Hann var mjög vel brattgengur og kom það sér vel í ferðinni á Þríhyrning. Ég reið honum einnig eftir fjallshryggnum og hann tók þátt í ýmsum rannsóknum og tilraunum meðal annars í Gýmismálinu. Hér fylgir mynd af okkur. Myndin er af málverki sem málað var eftir ljósmynd.

Þótt enginn viti hvort Njálsbrenna sú sem lýst er í Njálssögu hafi í raun átt sér stað er að mínu viti fátt eða alls ekkert í ferðum Flosa og hans manna til og frá brennunni sem ekki fær staðist. Helst fellur mér fyrir brjóst að Flosi og félagar hafa að öllum líkindum riðið járnalaust. Í því sambandi ber þess þó að minnast: " . . . að ýmsar leiðir sem voru fjölfarnar á miðöldum af mönnum á ójárnuðum hestum væru vafalaust gersamlega ófærar slíkum ferðalöngum nú" (7). Fyrir mér er Flosi ein allra trúverðugasta persónan í Njálu, sannur höfðingi í háttum og snjall herfræðingur. Stundum minnir hann mig, ekki síst vegna mikilla skapsmuna, á Patton úr síðari heimsstyrjöld!

Námahvammur og Brennisteinsfjöll

Á árunum 1981-1983 fór ég að sumarlagi ásamt félaga mínum, Óttari Kjartanssyni kerfisfræðingi, nokkrar ferðir í Námahvamminn norðan og austan Brennisteinsfjalla og í sjálfar námurnar sem eru í hrauninu sunnan við hvamminn. Þar hafði þá síðast verið unninn brennisteinn með ærnu erfiði um hundrað árum áður og hann verið fluttur með ekki minna erfiði á hestum til Hafnarfjarðar. Þar er um Kerlingarskarð að fara og ógreiðfært með hesta. Kerlingarskarð er um 475 m yfir sjó og þar getur rekið á með þoku nær fyrirvaralaust. Myndin hér fyrir neðan er tekin í þokusudda við Kerlingarpoll, lítið vatnsstæði ofan Kerlingarskarðs. Í Námahvamminum og í námunum eru mannvirkjaleifar sem kanna þarf nánar. Við birtum um þessar ferðir ítarlega grein (8).

Ég get að lokum ekki látið hjá líða að minnast á Ferð að Fjallabaki (9), ekki síst vegna upplýsinga sem þar eru og geta komið óvönum ferðamönnum að notum.

Þakkir

Óttar Kjartansson kerfisfræðingur gerði tölvumyndir og eru honum færðar þakkir fyrir.

Rannsóknir á hestum

1. Magaspeglun hrossa

Svo virðist sem magasár séu algeng í hrossum erlendis. Ekkert var vitað um magasár í íslenskum hestum þegar við Ásgeir Theodórs meltingarsjúkdómalæknir og Þorvaldur Hlíðdal Þórðarson dýralæknir gerðum fyrstu magaspeglanir á hestum hér á landi árið 1992. Við skoðuðum sjö hross og fundum ekk­ert afbrigðilegt við skoðun né við vefjaskoðun (Jóhann Heiðar Jóhannsson) eða bakteríuræktun (Franklín Georgsson) eða við svokallað CLO-próf. Við tókum fyrst til rannsóknar Perlu, 18 vetra, lífsreynda meri í minni eigu. Hún sést hér á meðfylgjandi mynd með miklum þolinmæðissvip, en var stillt og prúð. Það átti einnig við hin hrossin. Ásgeir sagði raunar að hrossin væru öllu auðveldari viðskiptis en mannfólkið! Við birtum um þetta grein í Eiðfaxa (2). Um sumarið eftir fór Ásgeir til Ameríku. Kollegar hans þar voru svo hrifnir af myndunum í Eiðfaxa að ég varð að senda honum aukalega eintök af blaðinu. Það er ekki ónýtt að vera frægur hjá Könum!!

2. Breytileiki í öndunartíðni íslenskra hesta

Í samvinnu við Tryggva Ásmundsson lungnalækni og Eggert Gunnarsson dýralækni gerði ég rannsókn á öndunartíðni í íslenskum hestum. Við gerðum athuganir á 16 heilbrigðum hestum (11 geldingar og fimm merar á aldrinum 4-18 vetra) sem voru á gjöf í sama hesthúsi við mismunandi aðstæður (fyrir gjöf, úti í gerði, eftir gjöf). Rannsóknin var gerð í tvennu lagi. Meðalöndunartíðni var svo sem við var að búast mest eftir einnar klukkustundar dvöl í gerðinu (ca. 60% hærri). Sérstaka athygli vakti samt hve breytileg öndunartíðni gat verið í einstökum hestum við sömu aðstæður (allt að 100%). Við birtum um þetta grein í Eiðfaxa 1981 með enskum útdrætti (3). Þegar þeirri vinnu var að ljúka komumst við á snoðir um að þýskur maður, dr. Storz, hafði skrifað doktorsritgerð m.a. um öndunartíðni íslenskra hesta árið 1961. Sem betur fer bar niðurstöðum okkar saman. Í ritgerðinni vildi hann skýra miklar sveiflur í öndunartíðni íslenskra hesta sem "rassebedingt".

3. Gýmismál

Sumarið 1994 varð hestur, Gýmir að nafni, fyrir áverka á fæti á sýningarvöllum á Rangárbökkum við Hellu þannig að fella varð hann. Kviknaði óðar orðrómur þess efnis að að baki lægi óleyfileg staðdeyfing á fætinum með lídókaíni í því skyni að breiða yfir helti í lokaatriði sýningarinnar. Ég fékk sýni úr hestinum til greiningar ásamt Jakobi Kristinssyni dósent. Okkar niðurstöðutölur sýndu túlkaðar með reynslu af lyfinu í erlendum hestum að hesturinn hefði örugglega verið staðdeyfður innan sex klukkustunda áður en atvikið varð. Þessu vildi hlutaðeigandi dýralæknir ekki una eða aðstandendur knapans, og lögfræðingur fólksins lét eins og baldinn foli. Allt var þetta þó léttvægt. Steininn tók hins vegar úr þegar læknir fór fram í Morgunblaðinu og bar brigður á starfsheiður minn og ætlast var til þess að ég færi að skattyrðast við manninn í blaðinu! Nú fannst mér nóg komið og tími til þess kominn að stemma á að ósi. Er skemmst frá því að segja að í desember 1994 og janúar 1995 gerðum við Jakob og Þorvaldur Hlíðdal Þórðarson tilraun lege artis á fjórum hestum í minni eigu eða umsjá. Sýndum við fram á að öll rök bentu til þess að Gýmir hefði verið staðdeyfður innan ca. tveggja klukkustunda fyrir slysið. Enn fremur gat ég sýnt fram á að klínískt virk deyfing eftir lídókaín í fæti endist ívið skemur en eina klukkustund. Þetta nægði ásamt öðru (m.a. að stungusár fundust) til sakfellingar í málinu. Við fengum svo grein um þessar rannsóknir birtar í þekktu bresku dýralæknatímariti (4). Var greinin notuð sem málsskjal fyrir Hæstarétti. Er slíkt vafalaust fátítt þótt hart sé að gengið.

Heimildir

1. Jóhannesson Þ, Kjartansson Ó. Elliðavatnsheiði og Hólmar, fjórar leiðir í Gjáarrétt, Elliðavatnshringur, suður fyrir Elliðavatn, úr Glaðheimum í Mygludali. Í: Áfangar. Ferðahandbók hesta­manna. Safnrit ferðanefndar Landssambands hestamannafélaga. Reykjavík 1986: 183-272.
2. Þórðarson ÞH, Theódórs Á, Jóhannesson Þ. Magaspeglun hrossa. Eiðfaxi 1993; 4: 42-4.
3. Ásmundsson T, Jóhannesson Þ, Gunnarsson E. Öndunartíðni hrossa. Eiðfaxi 1981; 9: 14-5.
4. Kristinsson J, Thordarson TH, Jóhannesson T. Pharmacokine­tics of lidocaine in Icelandic horses after infiltration anaesthesia. Veterinary Rec 1996; 138: 111-2.
5. Kjartansson Ó. Hestaferð um Strandir 1977. Í: Gustur í Glað­heimum. Hestamannafélagið Gustur í Kópavogi 1965-2000. Útg. Kjartansson Ó, Sigurðsson B, Halldórsson K. Hesta­manna­félagið Gustur, Kópavogi 2000: 93-6.
6. Jóhannesson Þ. Fornar frægðarreiðir. Ferðir Flosa á Þrí­hyrn­ingshálsa og í fjallið Þríhyrning eftir Njálsbrennu. Goðasteinn. Héraðsrit Rangæinga 1997; 33 (8.árg. nýs flokks): 170-87.
7. Friðjónsson JÁ. Af beislabátum og unnarjónum. Járning hesta og samgöngubylting á miðöldum. Saga 2005; XLIII: 1: 43-80.
8. Jóhannesson Þ, Kjartansson Ó. Landnám Ingólfs. Nýtt safn til sögu þess. Félagið Ingólfur gaf út. 1985; 2: 7-35.
9. Kjartansson Ó, Jóhannesson Þ. Ferð að Fjallabaki. Hesturinn okkar 1982; 1: 19-30.

Höfundur (til vinstri) og Freyr Magnússon með hesta sína á Litla- Þríhyrningi. Í baksýn til hægri er Bjallinn, þá Austurhorn Þríhyrnings og þar upp af og fjær til vinstri á fjallshryggnum sést "typpan". Skáhallt til hægri frá henni er sneiðingurinn í skriðum fjallsins, sem farið var með hesta eftir upp á hrygg þess og í Flosadal. Þótt annað kunni að sýnast, er þarna tiltölulega greið leið upp að fara. (Ljósm.: Skúli Pálsson.)

Höfundur og Bergþóra, dóttir hans, með hesta í beitilandinu í Litla-Odda í september 2005. Frá vinstri Hrókur, Snerla, Fló og Goði. Verið var að taka hestana og fara með þá í haustbeit. (Ljósm.: Auðunn Hermannsson.)

Höfundur í þönkum í 12 ára gömlum birkiskógi í Litla-Odda. Þótt birkið yrði fyrir áföllum í fönn eitt árið hefur vöxtur þess reynst góður. Sendinn jarðvegur á Rangárvöllum virðist henta gróðursettu birki vel. Myndin var tekin í ágúst 2004. (Ljósm.: Þorkell Þorkelsson.)

Gangvari (1977-2001) var keyptur 1981 og hafður til reiðar í ein 19 ár. Hann var kostamikill og glæsilegur reiðhestur. Í móðurætt var Gangvari ættaður frá Kirkjubæ og hann var sonarsonur Núpakots-Blesa. Myndin er af málverki í eigu RLE HÍ sem gert var eftir ljósmynd og tekin var við sumarbústaðinn í Litla-Odda sumarið 1993. (Ljósm.: Þorkell Þorkelsson.)

Myndin er tekin við Kerlingarpoll ofan Grindaskarða á heimleið á hestum úr Náma­hvamminum norðan og austan við brennisteins­námurnar. Kerlingarpollur er lítið vatnsstæði með graskraga í kring og kjörinn áningarstaður á þessari berangursleið. Höfundur er fyrir miðri mynd, en Kári Sigurjónsson, fylgdarmaður okkar Óttars, er til hægri. (Ljósm.: Óttar Kjartansson.)

Ásgeir Theodórs mundar speglunartækið. Þorvaldur Þórðarson horfir í gegnum hliðarsjá. Til hægri er verið að taka vefjasýni (Ingigerður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur). (Ljósm.: Þorkell Jóhannesson.)Þetta vefsvæði byggir á Eplica