11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Sullaveikivarnir í Stykkishólmshéraði 1962-63

Hlutverk íslenskra héraðslækna hefur löngum verið margþætt, náð til margra þátta heilbrigðis­kerfisins, og bilið verið breitt milli þess sem krafist var af þeim í erindisbréfi og þess sem unnt var að sinna. Þetta gilti sérstaklega um ástandið eins og það var fyrir daga heilsugæslustöðvanna, það er fyrir árið 1973, en gildir að mörgu leyti enn.

Ein af skyldum héraðslækna var að sinna sulla­veikivörnum. Sullaveiki var einn mannskæðasti sjúkdómur á Íslandi allt fram á 20. öld. Þegar ég hóf héraðslæknisstörf 1954 var hún nánast horfin sem sjúkdómur, en þó sást óvirkur sullur í einstaka manni. Á starfsferli mínum minnist ég sex manns sem urðu að fara í aðgerð vegna sullaveiki en auk þess sá ég fjóra með kalkaðan sull í lifur. Samkvæmt ársskýrslum var seinasta dauðsfallið af sullaveiki árið 1964.

Sullaveikivarnir fólust fyrst og fremst í því að hafa eftirlit með árlegri hundahreinsun og að sjá til þess að hundar næðu ekki í hráæti, meðal annars með því að fræða almenning og hafa eftirlit með vinnubrögðum í sláturhúsum. Starfsmönnum þeirra var gert skylt að gefa gaum að sull í inn­yfl­um sláturfjár og setja sull sem fannst við slátr­un í sérstakt ílát og brenna í lok hvers vinnu­dags. Þetta var embættisverk héraðslæknis að kynna sláturhússtjóranum. Sömu reglur giltu um heima­slátrun sem fór fram á hverjum bæ, en þar var ekki hægt að hafa kerfisbundið eftirlit.

Ég hygg að víðast hafi verið gengið út frá því að fólk gerði sér grein fyrir sambandinu milli hunds, sauðkindar og sullaveiki enda mun mikil fræðsla hafa farið fram um það fyrr á árum. Þeirri fræðslu mun þó hafa verið minna sinnt þegar hér var komið sögu. Ég rak mig fljótlega á að þekking á þessu var sums staðar götótt.

Í Hofsóshéraði var nokkuð góð regla á hundahreinsun og meðferð hráætis í sláturhúsum. Slátrun fór fram á tveim stöðum í héraðinu, á Hofsósi og í Haganesvík. Ég kom daglega í bæði sláturhúsin vegna kjötskoðunar og gat sannreynt að settum reglum væri fylgt. Engin sullatalning fór fram en ég hygg að sullatíðni hafi almennt verið lág. Þó kom upp umtalsverður sullafaraldur á tveim bæjum í Fellshreppi árið 1958. Engin skipuleg talning var gerð en einhver brögð voru að sull í lömbum. Ég hafði samband við oddvita hreppsins og viðkomandi bændur og benti þeim á hætturnar af þessu.

Um Stykkishólmshérað gegndi hér nokkuð öðru máli. Þar virtust menn ekki eins meðvitaðir um sullaveikivarnir. Slátrað var á mörgum stöðum í héraðinu, allt upp í sex stöðum, Dröngum á Skógarströnd, tveim stöðum í Stykkishólmi, Vegamótum í Miklholtshreppi og í tveim húsum í Grundarfirði. Ég annaðist kjötskoðun í þessum húsum og kom þar því daglega meðan á slátrun stóð.

Haustið 1961 var fyrsta haustið sem ég gegndi héraðinu. Nokkru áður en slátrun hófst kom til mín Guðmundur Ólafsson bóndi á Dröngum, en hann stjórnaði slátrun í sláturhúsinu þar.

Mig minnir að ég hafi orðið að gefa honum vottorð vegna hússins sem raunar var óhæft sem sláturhús, en það gilti um flest þau hús sem slátrað var í á þessu svæði. Það var bara ekki völ á öðru.

Í samtali okkar kom fram að tíðkast hefði að fleygja í sjóinn þeim innyflum sem ekki væru nýtt. Ég benti honum á að lögum samkvæmt ætti að urða allt hráæti sem ekki væri notað eða brenna það. Allan sull ætti skilyrðislaust að brenna. Hann hafði góð orð um að fylgja þessum reglum.

Svo er það um haustið, fyrsta daginn sem slátrað er, að ég fer inn að Dröngum og átti jafnframt erindi inn á Skógarströnd. Þegar ég kem að Dröngum er slátrun í fullum gangi og búið að fleygja heilmiklu af görnum og öðru innvolsi í sjóinn niður af bænum. Hafði þá sláturhússtjórinn slegið á sín ráð eða gleymt fyrirmælunum.

Ég benti honum á að hér væri um alvarlegt brot að ræða og skipaði honum að safna saman öllum þeim innyflum sem fleygt hafði verið og urða og hafa lokið því þegar ég kæmi síðar um daginn. Þetta var gert og ég vissi ekki annað en að hann fylgdi reglum upp frá því. Slátrun var svo aflögð á Dröngum.

Í Grundarfirði fékk ég þær upplýsingar að þar væri öllum úrgangi frá sláturhúsi hent í sjóinn og var hann svo að velkjast á fjörum út um alla Eyrarsveit fram á vetur og aðgengilegur fyrir hunda sveitarinnar. Þar virtust menn ekki heldur gera sér grein fyrir hættunni sem stafaði af því að hundar ætu hráæti. Ástandið virtist þarna sérlega alvarlegt, meðal annars vegna þess að hundahreinsun virtist hálfgert í molum.

Vegna kjötskoðunar kom ég við í Grundarfirði daglega og gat því fylgst að nokkru með frá degi til dags. Brátt kom í ljós að óvenju mikið var af sulli í innyflum sláturfjárins. Þetta voru mestan part lömb, en að jafnaði finnst ekki sullur í lömbum. Ég hafði ekki tök á að fylgjast með slátruninni allan daginn og varð því að styðjast við lýsingu starfsmanna.

Um 50-70% fullorðins fjár var sullaveikt og frá sumum bæjum fannst sullur í hverri fullorðinni kind. Sullur fannst í 20 lömbum og margir í sumum. Eftir hvern sláturdag komu 1-2 lítrar af sulli. Í einu tilfelli var netja undirlögð af litlum sullablöðrum. Nokkrir lifrarsullir fundust, en engir lungnasullir. Nokkur grunsamleg lungu voru send rannsóknar­stofunni á Keldum. Sullatíðnin reynd­ist mest á þeim bæjum sem næst voru þorpinu.

Í Eyrarsveit er stutt á afrétt og fé gengur því mikið í heimahögum, en það leiðir til þess að fé er í nábýli við hunda meira og minna allt árið.

Ég átti annríkt um þessar mundir, var eini læknirinn í Stykkishólmi og sinnti auk þess Breiða­fjarðareyjum. Ég hafði því ekki tíma til að sinna þessu starfi eins og þörf var á. Milli Stykkishólms og Grundarfjarðar voru 50 km og vegurinn ekki sem bestur svo að þessi þjónusta var tímafrek ef henni var sinnt sómasamlega. Ég hafði því samband við landlækni og óskaði eftir að sérstakur læknir yrði settur til að annast kjötskoðun framvegis og væri honum jafnframt falið að gera sullatalningu hjá sláturfénu. Varð það svo úr að haustið 1963 var fenginn læknanemi á vegum landlæknis­embættisins til að annast þetta verk.

Þetta haust var slátrað alls 343 fullorðnum kindum í Grundarfirði. Þar af voru 101 kind sulla­veik, eða 29,4% kindanna. Sullur úr kindum var alls 188, eða 0,54 í hverri kind. Alls var slátrað 2633 lömbum, en sullur fannst ekki í neinu þeirra. Sullir voru flestir í netju, en nokkrir í lifur. Enginn sullur fannst í lungum.

Þarna hafði orðið breyting á ef marka má upplýsingarnar frá haustinu áður. Má hugsanlega þakka það breyttum vinnuaðferðum við sulla­varnir, en árangurinn hlaut að skila sér fyrst sem lækkuð sullatíðni í lömbum.

Ég bað starfsmenn í hinum sláturhúsunum að gefa þessu gætur og telja sull. Sú talning var í molum, en þaðan komu eftirfarandi tölur: Í Stykkishólmi var slátrað 442 fullorðnum kindum, og fannst sullur í sex kindum, eða 1,3% kindanna. Á Vegamótum var slátrað 3431 lambi og fannst sullur í þremur þeirra, eða 0,08%. Ekki bárust tölur um fullorðið fé.

Á þessum tíma höfðu hundar verið hreinsaðir á Íslandi í áratugi. Það gilti líka um Stykk­is­hólms­hérað. Þessi hreinsun var þannig framkvæmd að hundum var gefið ormalyf einu sinni á ári að haustinu eftir sláturtíð, í október eða nóvember. Þetta lyf átti að drepa orma í hundinum. Hreppsnefndaroddviti skyldi sjá um að hreinsun færi fram. Hann fékk til þess starfa sérstakan mann. Á þessum tíma voru fjórir hundahreinsunarmenn í Stykkishólmshéraði, einn í hverjum hreppi. Það þótti engin virðingarstaða að vera hundahreinsunarmaður og ég hygg að menn hafi verið tregir til að taka það að sér þó að óneitanlega hafi þetta verið ábyrgðarstarf og mikið undir því komið að rétt væri að því staðið. Í Grundarfirði annaðist það maður að nafni Þorsteinn Jónsson. Hann var kominn af léttasta skeiði þegar hér var komið sögu, einbúi og ekki mikill fyrir sér.

Þorsteinn átti í erfiðleikum með að framkvæma þessi embættisverk. Hundaeigendur gerðu sér dælt við hann og tregðuðust við að koma með hunda sína í hreinsun. Þeir staðhæfðu að Þorsteinn gæfi hundunum of mikið og þeir veiktust. Þetta varð til þess að þeir fengu of lítinn skammt og lyfið verkaði ekki. Í nokkrum tilvikum virtust hundarnir sleppa með öllu við hreinsun.

Ég ræddi þessi mál við oddvitann og gerði kröfu til að hreinsun færi fram samkvæmt settum reglum, meðal annars að hundarnir væru vigtaðir og skömmtum hagað eftir þyngd, en til þess var ætlast í reglunum. Veit ég ekki annað en þetta hafi síðan farið fram samkvæmt lögum og reglum. Talning var ekki framkvæmd eftir þetta og finnst mér nú eftir á að málinu hafi ekki verið fylgt nógu fast eftir, einkum þegar þess er gætt að dauðsfall hafði orðið af sullaveiki í sveitinni skömmu áður. Hins vegar varð mikið umtal um þetta umstang allt og trúlega hefur það orðið til að ýta við fólki.

Þarna hefur verið um að ræða tvo veika punkta í sullaveikivörnum héraðsins og þá fyrst og fremst í Eyrarsveit. Í fyrsta lagi var umgengni um hráæti stórlega ábótavant, en í öðru lagi var hundahreinsun í molum. Þetta hvort tveggja hlaut að bjóða heim hættu á sullaveiki í fólki. Það reyndist líka svo að ung kona úr Eyrarsveit dó úr sull í spjaldhrygg og mjaðmarbeinum árið 1960.Þetta vefsvæði byggir á Eplica