11. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Nefnd falið að semja lagafrumvarp um stofnfrumurannsóknir

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að fjalla um nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga og semja frumvarp til laga um stofnfrumurannsóknir. Stofnfrumurannsóknir hófust fyrst á níunda ára­tugnum. Töluverður árangur hefur náðst nú þegar og eru vonir bundnar við að stofnfrumur geti orðið til þess að lækna ýmsa illvíga sjúkdóma. Stofnfrumurannsóknir vekja hins vegar margvíslegar siðfræðilegar spurningar, einkum þegar notast er við fósturvísa til rannsóknanna og hafa umræður um þau efni verið ofarlega á baugi meðal margra þjóða á liðnum árum. Hér á landi eru slíkar rannsóknir ekki heimilar samkvæmt lögum nema þær séu liður í glasafrjóvgunarmeðferð eða greiningu arfgengra sjúkdóma í fósturvísunum sjálfum. Að öðru leyti er ekki fjallað um stofnfrumurannsóknir í íslenskum lögum.

Formaður nefndarinnar er Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í heilbrigð­is­ráðuneytinu og aðrir nefndarmenn Sigurður Guðmundsson land­lækn­ir, Magnús Karl Magnússon læknir, Björn Guðbjörnsson formaður Vísinda­siða­nefndar, Þórarinn Guðjónsson frumulíffræðingur, Ingileif Jónsdóttir ónæmisfræðingur,Vilhjálmur Árnason formaður stjórnar Siðfræðistofnunar, Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur og Jóhann Hjartarson lögfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar er Ágúst Geir Ágústsson, lögfræðingur. Nefndinni er ætlað að ljúka störfum í lok mars 2006.

(Frétt frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.)Þetta vefsvæði byggir á Eplica