10. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Um fyrstu íslensku konurnar í læknastétt

I. Steinunn Jóhannesdóttir, 1870-1960, læknapróf 1902 í Los Angeles. Fyrst íslenskra kvenna til þess að verða læknir og prestur

Fyrsta íslenska konan sem tók læknapróf sam­kvæmt Læknum á Íslandi eftir Lárus H. Blöndal og Vilmund Jónsson var Steinunn Jó­hann­es­dóttir/ Steinunn Alice J. Hayes, fædd 19. janúar 1870, dáin 14. mars 1960.

Uppruni og fjölskylda

Steinunn var fædd og uppalin á Eystra-Miðfelli í Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd sem er rétt fyrir innan Grundartanga, dóttir hjónanna Ellisifjar Helgadóttur og Jóhannesar Jónssonar bónda, 1828-1879, frá Hrískoti í Brynjudal. Hún fór að heiman 16 ára sem vinnukona í vist í Reykjavík. Hún fluttist vestur um haf 1888, þá 18 ára, og vann fyrir sér, fyrst í Winnipeg í Kanada, síðan N-Dakóta og loks í Chicago. Þar komst hún á trúboðsskóla, lauk námi 1895 og vígðist til kirkju­þjónustu og kennimannlegrar stöðu fyrst íslenskra kvenna. Að námi loknu starfaði séra Steinunn fyrst sem aðstoðarprestur í Indíana, var um tíma trúboðsprestur meðal Kínverja í Oregon og þjónaði síðan sem aðstoðarprestur við baptistakirkju í Los Angeles sem hún taldi sinn heimastað. Þar fór hún í lækna­nám í University of Southern California, School of Medicine í Los Angeles og lauk læknaprófi þann 11. febrúar 1902 með hæstu einkunn, 96 stig, þá 32 ára gömul. Hún tók upp nafnið Alice í Bandaríkjunum þar sem Steinunn var fremur óþjált.

Steinunn kynntist Charles Arthur Hayes í Los Angeles, skurðlækni og trúboða, en þau voru skóla­systkin í læknaskólanum og þau giftu sig þegar að loknu kandídatsprófi hennar 1902.

Charles var tveimur árum yngri en Steinunn, fæddur í Illinois 5. júlí 1872, en flutti 15 ára gamall með foreldrum sínum til LA. Hann var af breskum ættum, en forfeður hans höfðu verið í Bandaríkjunum í marga ættliði. Honum var lýst sem hávöxnum manni, beinum í baki, höfðinglegum og ljúfmenni hinu mesta. Nákominn ættingi hans í föðurætt var Rutherford Hayes Bandaríkjaforseti 1877-1881. Eftir Charles var haft að hans mesta gæfa í lífinu hefði verið að eignast íslenska konu sem hefði verið hans stoð og stytta í öllu ævistarfinu, og henni gæti hann einnig þakkað hrífandi Íslandsferð. Þau hjón eignuðust einn son, Arthur Hayes, sem var fæddur í Suður-Kína 1905. Hann varð prófessor í efnafræði og var kvæntur og átti tvö kjörbörn þegar Skúli Bjarnason hitti þau og tók viðtal við Steinunni fyrir blaðið Lögberg í Winnipeg 1943.

Starfsferill

Steinunn og Charles fóru til Kína strax eftir útskrift hennar, eða í lok febrúar 1902, og störfuðu þar í um 40 ár sem læknar og trúboðar. Þau fóru fyrst í kínverskunám til eyjarinnar Macao sem var þá undir Portúgölum. Síðan fóru þau til Hong Kong og Canton sem er ekki langt frá Hong Kong þar sem Bretar réðu. Tveimur árum áður hafði þar verið ein af mörgum Boxara-uppreisnum í Kína og átti að útrýma öllum útlendingum í landinu. Í henni var talið að um 200 kristniboðafjölskyldur hefðu verið drepnar, auk þúsunda Kínverja og var ástandið því fremur ótryggt og öryggi lítið.

Áður en þau settust endanlega að í Canton áttu þau nokkur afar örðug byrjunarár norðvestar í landinu, í Ying Tak í fimm ár og í Wuchow í átta ár og þar var Arthur sonur þeirra fæddur. Það tók langan tíma fyrir þau að ávinna sér traust fólksins þar með lækningum, líknarstarfi og trúboði. Eitt sinn var til dæmis kveikt í kytrunum sem þau höfðu komið sér upp og þar sem þau bjuggu og störfuðu. Hvítar konur voru fáar í landinu og voru þær kallaðar hvítu djöflarnir. Í Ying Tak þar sem var um 40 þúsund manna byggð var almenningur fátækur og þar var mikið pestarbæli.

1909 fóru Steinunn og Charles í eins árs hvíld­arleyfi og fengu fararleyfi til Íslands og Banda­ríkjanna. Þau fóru sjóleiðis í vestur frá Hong Kong til Evrópu. Í greinaflokki séra Ágústs Sigurðssonar í tímaritinu Heima er best 2004, sem efni þessarar greinar styðst að verulega leyti við, telur hann að grísk frásögn um íslenskan prest á grísku eyjunum frá 1909 gæti átti við síra Steinunni sem þá var á leið til Íslands.

Frá 1910 voru Steinunn og Charles samfellt í skattlandinu Kwong Sai í Kína og borginni Canton að frátöldu einu ári, 1936-7, er þau dvöldu vestanhafs vegna veikinda Charles. Á þessu svæði bjuggu um sjö milljónir manna og þar voru um 50 trúboðar. Þarna höfðu þau sæmilegan starfsfrið og stunduðu trúboð og lækningar þar til Japanir gerðu innrás 1938 og lögðu undir sig austurströnd Kína í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá jókst álagið á þau mjög mikið því mikill fjöldi særðra og hungraðra kínverskra flóttamanna sótti til þeirra í trúboðsstöðina, stundum svo þúsundum skipti á dag þegar mest var. En margir Japanir sóttu líka til þeirra læknisþjónustu og þar sem þau greindu ekki hafrana frá sauðunum og sinntu þeim líka bökuðu þau sér tortryggni og óvild stjórnvalda og lauk dvöl þeirra í Kína með fangavist frá 1939-1942.

Í styrjöldinni studdu Kínverjar Bandaríkin en Japanir Þýskaland. Setti hernámsliðið þau í stofu­fangelsi og bannaði þeim að vinna læknisstörf, en áður hafði þeim verið bannað að stunda trúboð og að lokum lentu þau í fangelsi. Þau komust frá Kína í fangaskiptum fyrir milligöngu Bandaríkjamanna og samherja þeirra og komust norður til hafnarborgarinnar Shanghai 1942 og þaðan með línuskipinu Gripsholm til Bandaríkjanna þar sem þau tóku land 27. ágúst. Þau settust að í Los Angeles og þar lést Charles fjórum árum síðar, 74 ára gamall. Steinunn lést 14. mars 1960, tveimur mánuðum eftir 90 ára afmæli sitt.

Tengsl Steinunnar við Ísland

Steinunn skrifaðist alltaf á við Ellisif móður sína meðan hún lifði og Jóreiði systur sína.

Hún kom í heimsókn til Íslands 1909 ásamt manni sínum og syni. Þau dvöldu hér í um það bil tvær vikur og var þá efnt til samkomu í húsakynnum Kristniboðsfélagsins í Reykjavík þar sem síra Steinunn hélt fræðsluerindi um störf þeirra hjóna í Kína. Var til þess tekið hve vel mælt hún var á íslenska tungu eftir 23 ára fjarveru. Hún átti aðeins tvær íslenskar bækur til að viðhalda tungu sinni, en það voru Hallgrímskver og Passíusálmarnir. Var því efnt til samskota meðal kvennanna í Kristni­boðsfélaginu og henni færð íslensk Biblía að gjöf. Svo mikið orð fór af þessari samkomu að Dómkirkjuprestarnir buðu henni Dómkirkjuna til samkomu- og fyrirlestrahalds um Kína og kom mikill mannsöfnuður þangað, en bæjarbúar voru lítt fróðir um þetta fjarlæga land og forvitnir að fræðast meira. Hún fór einnig upp á Akranes til ættmenna sinna og talaði fyrir margmenni í Akra­neskirkju. Þar hitti hún Jóreiði systur sína sem þá var orðin húsfreyja á Eystra-Miðfelli og mann hennar Jósef Jósefsson.

Steinunn kom aftur í heimsókn til Íslands 1950, áttræð að aldri, og dvaldi þá um tíma hjá systur sinni og fjölskyldu og hélt meðal annars fyrirlestra í Akraneskirkju. Í þessari ferð hitti hún í fyrsta sinn Ólaf Ólafsson kristniboða sem var samtímis henni í Kína þar sem þau munu hafa skrifast á. Þarna hitti hún einnig frænku sína, Oddnýju Sen, sem var einn­ig alllengi samtíða henni í Kína og bjó í borginni Amoy.

Heimildir um Steinunni

Skúli Bjarnason í Los Angeles átti viðtal við Stein­unni sem birtist í Lögbergi í Winnipeg 23. september 1943. Hann hafði áður hlustað á þau hjónin á fundunum á Íslandi 1909 og lýsti Steinunni þannig:

"Hún er mjög vel gerð og gefin og fágætlega minnug, og er ein þeirra, sem sjá með bláum augunum í gegnum holt og hæðir. Hún er í hærra meðallagi á vöxt, kvik á fæti, góðleg, gáfuleg og heldur sér vel þrátt fyrir strangan vinnudag."

Vestur-Íslendingurinn Hólmfríður Daníelsson skrifaði myndarlega grein um Steinunni í Lögberg-Heimskringlu 19. janúar 1960 í tilefni af níræðis­afmæli hennar. Birtist hún í Winnipeg 11. febrúar 1960 og var birt seinna í helgarblaði á Íslandi (Lesbók Morgunblaðsins?).

Dánarfregn um Steinunni birtist í Lögbergi-Heimskringlu tæpum sex vikum síðar, en hún lést 14. mars. Undir myndinni í dánarfregninni stendur dr. Alice J. Hayes og í sviga Steinunn Jóhannesdóttir.

Bréf Steinunnar til Ellisifjar móður sinnar og Jóreiðar systur sinnar sem lengi bjó í skjóli dóttur sinnar, Steinunnar Jósefsdóttur á Akranesi, eru til í vörslu Jósefs Þorgeirssonar, lögfræðings og fyrrverandi alþingismanns á Akranesi sem er dóttursonar­sonur Jóreiðar.

Heimildir

1. Greinaflokkur síra Ágústs Sigurðssonar, frá Möðruvöllum, í tímaritinu Heima er best, 1.-5. tbl. 2004.
2. Nýtt guðfræðingatal 2002.
3. Bjarmi III, einkum bls. 30, 96, og 118-119.
4. Læknar á Íslandi, 2. bindi, bls. 444.
5. Nýtt Kirkjublað IV, bls. 120 og 158.

Hjónin Steinunn Jóhannesdóttir og dr. Charles Arthur Hayes.Þetta vefsvæði byggir á Eplica