10. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Um fæðingarorlof og veikindi á meðgöngu

Mér brá fyrir nokkrum misserum þegar skjólstæðingur minn, vanfær, fór þess á leit við mig að ég gæfi út vottorð fyrir hana um veikindi á meðgöngunni. Þetta hefði auðvitað verið sjálfsagt mál, ef ástæðurnar hefðu ekki verið annars vegar þær að hætta vinnu nokkrum vikum fyrir fæðingu og hins vegar að skerða ekki fæðingarorlofið við þá ráðstöfun. Þessari beiðni fylgdi svo sú röksemd að þetta væri bara viðtekin venja, "þetta gerðu allar konur". Ég hafnaði þessari beiðni með þeim orðum að viðkomandi væri fullfrísk, meðgangan hefði verið alveg eðlileg. Ég gæti hins vegar alveg tekið undir það að það gæti verið heppilegt að byrja í orlofi nokkr­um vikum fyrir fæðinguna til hvíldar og undirbúnings. Það væri að mínu mati eðlilegur hluti fæðingarorlofsins og ekki veikindi.

Þegar tilvik af þessu tagi endurtóku sig nokkr­um sinnum tók ég málið upp við ljósmæður sem ég vinn með. Staðfestu þær að þetta ráðslag væri orðið almennt, en voru sömu skoðunar og ég að um misnotkun á veikinda­rétti og fæðingarorlofi væri að ræða.

Til þess að staðreyna þessa fullyrðingu að "þetta gerðu allar konur" leitaði ég í gagnabanka um fæðingarorlof og veikindi hjá stóru fyrirtæki hér í borg, þar sem almenningi er veitt þjónusta en lítið um erfiðisvinnu. Á tilteknu tímabili höfðu 54 konur sem unnu hjá fyrirtækinu fengið fæðingarorlof. Af þessum hópi höfðu 49 konur lagt fram læknisvottorð um veikindi fyrir fæðinguna. Veikindin runnu saman við fæðingarorlofið sem þá hófst með fæðingunni. Í mörgum tilvikum hófust veikindin með skertri vinnugetu sem síðan endaði með fullkominni óvinnufærni. Einungis fimm konur af 54 voru við eðlilega heilsu á meðgöngunni og fóru beint úr starfi í fæðingarorlof.

Það geta allir verið sammála um að réttindi af þessu tagi á vinnumarkaði, sem samið hefur verið um eða komið hefur verið á með lögum, eru ákaflega mikilvæg launþegunum og vert að hafast ekki neitt það að sem getur spillt þeim. Því miður eru of mörg dæmi þess að réttindabætur hafi verið útþynntar undir þrýstingi misnotkunar og annarrar óráðsíu.

Það er mín skoðun að hér sé fólk á rangri leið með þátttöku lækna. Ef vanfærar konur vilja fá orlof fyrir fæðingu ætti reglan að jafnaði að vera sú, að það sé tekið sem hluti af fæðingarorlofinu. Ef sú skoðun hefur fylgi að full þörf sé fyrir að konur fái allan þann tíma með barninu sem núverandi fæðingarorlof gerir ráð fyrir, þá verður að lengja fæðingarorlofið og binda lenginguna því skilyrði að hún sé tekin út fyrir fæðingu barnsins.

Það er ekki rétt að læknisvottorð um veikindi séu notuð til að miðla félagslegum gæðum sem samfélagið hefur ekki tekið ákvörðun um að í boði séu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica