10. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Stofnfrumurannsóknir enn á dagskrá

Mikil umræða víða um heim en hér á landi er hún svæfð með þingtæknilegum aðferðum

Umræðan um stofnfrumurannsóknir hefur ekki farið sérlega hátt hér á landi undanfarin misseri en hún verður æ háværari víða erlendis. Fyrir því eru ýmsar ástæður, meðal annars þær að spurningin um hvort rétt sé að heimila notkun stofnfrumna úr fósturvísum sem verða afgangs við tæknifrjóvgun hefur verið til umfjöllunar í stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og banda­ríska þingið.

Staðan er sú að í Evrópu hafa tvær þjóðir, Svíar og Bretar, leyft rannsóknir og það sem kallast einræktun í meðferðarskyni á stofnfrumum úr fósturvísum. Spánverjar, Svisslendingar og Frakkar hafa einnig fetað fyrstu skrefin inn á sömu braut og víða í Evrópu er umræðan um að leyfa þessar rannsóknir í fullum gangi.

Á hinn bóginn eru þjóðir sem hafna þessari leið algerlega. Það á við um lönd þar sem kaþólska kirkjan hefur sterka stöðu, svo ekki sé minnst á lönd múslima. Stjórn repúblikana í Bandaríkjunum hefur líka fetað þessa slóð og Bush forseti hefur lagt bann við því að stofnfrumurannsóknir njóti styrkja úr sjóðum alríkisins.

Bush-stjórnin beitti sér einnig fyrir því að alls­­herjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti álykt­un þar sem hvatt er til þess að allar tilraunir til einræktunar séu bannaðar. Þessi ályktun var samþykkt með 84 atkvæðum gegn 34 en 37 ríki sátu hjá. Flest Evrópuríki greiddu atkvæði gegn þessari ályktun, að frátöldu Írlandi, Ítalíu og Austurríki.

Kaþólskan og nasisminn

Í leiðara danska læknablaðsins (1) var fjallað um þessa ályktun í sumar. Þar sagði greinarhöfundar að nær hefði verið fyrir Sameinuðu þjóðirnar að samþykkja tillögu Belga sem gekk út á að setja bann við einræktun í æxlunarskyni inn í sáttmála samtakanna en með því móti yrði bannið bindandi fyrir aðildarríkin. Þess í stað var samþykkt ályktun sem engan bindur en sendir afar loðin skilaboð til heimsbyggðarinnar.

Á vettvangi Evrópusambandsins hefur framkvæmdastjórnin gefið til kynna að hún sjái ekkert athugavert við stofnfrumurannsóknir úr fósturvísum. Á hinn bóginn hefur sambandið verið ákaflegt tregt til að veita styrki til slíkra rannsókna. Fyrir því er sú ástæða að innan sambandsins eru skoðanir um þessar rannsóknir ákaflega skiptar. Páfinn í Róm, bæði sá nýi og forveri hans, er harður andstæðingur stofnfrumurannsókna og hann gefur tóninn fyrir margar kaþólskar þjóðir í sunnanverðri álfunni.

Kaþólikkar og fleiri trúarhópar eru þeirrar skoðunar að lífið hefjist við getnað og því sé öll tilraunastarfsemi á fósturvísum atlaga að lífinu. Á móti þessu segja þeir sem hlynntir eru rannsóknunum að það sé beinlínis siðlaust að banna rannsóknir sem geta leitt af sér nýja meðferð við sjúkdómum sem nú eru ill- eða óviðráðanlegir og kosta margt fólk ómældar þjáningar.

Í annarri grein í danska læknablaðinu (2) er greint frá gangi umræðunnar í Þýskalandi þar sem sporin frá tímum nasista hræða en eins og kunnugt er stóðu þeir fyrir rannsóknum sem fóru langt út fyrir öll siðalögmál. Þar í landi voru allar rannsóknir á stofnfrumum bannaðar fram til ársins 2002 þegar örlítið var slakað á banninu og leyft að stunda rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum sem fluttar voru inn frá öðrum löndum fyrir ársbyrjun 2002. Það má hins vegar ekki þróa nýjar stofnfrumulínur og það er líka bannað að nota þýskar stofnfrumur.

Arnold ögrar Bush

En þótt Bush forseti hafi getað beitt sér fyrir samþykkt ályktunar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á hann í töluverðu basli heimafyrir. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti síðasta vor að af­létta banni sem forsetinn setti árið 2001 við því að rannsóknir á stofnfrumum njóti styrkja úr opinberum sjóðum. Málið er nú til umfjöllunar í öldungadeildinni en Bush hefur sagt að hann muni beita neitunarvaldi verði niðurstaðan þar sú sama.

Á sama tíma og þetta gerist er ríkisstjórn Kali­forníu að reyna á þanþol sambandsríkisins með því að veita styrki til stofnfrumurannsókna að upphæð 40 milljónir dala (3). Óvíst er þó hvenær styrkirnir verða reiddir af hendi þar sem mál hefur verið höfðað til þess að koma í veg fyrir að Kaliforníuríki geti aflað fjár með skulda­bréfaútboði. Sú aðferð var hins vegar samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu sem fram fór í fylkinu í fyrrahaust.

Tillagan sem sofnaði

Það er því víða verið að ræða um stofnfrumurannsóknir og sú umræða teygir anga sína hingað til lands, þótt hljótt fari. Í fyrrahaust var lögð fram á alþingi þingsályktunartillaga sem kveður á um að heilbrigðisráðherra skipi nefnd "sem geri úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýt­ingu stofnfrumna úr fósturvísum manna til rannsókna og lækninga á alvarlegum sjúkdómum".

Örlög þessarar tillögu voru nokkuð sérkennileg. Hún var send út til fjölmargra stofnana og félagasamtaka sem undantekningalaust gáfu jákvæða umsögn um efni hennar. Einu athugasemdirnar voru raunar þær að fleiri vildu fá fulltrúa í nefndinni en tillagan gerði ráð fyrir.

Tillagan kom til umræðu í þinginu og allir sem tóku til máls voru sammála því að rétt væri að skipa þessa nefnd. Sumir höfðu þó fyrirvara á því hvort þeir styddu það að rannsóknir yrðu leyfðar en allir vildu að málið yrði rætt frekar. Samt dagaði tillagan uppi í vorönnum þingsins. Á því er svo sem engin opinber skýring en sú óopinbera er á þá leið að af því að flutningsmenn voru allir úr sama stjórnarandstöðuflokknum hefði ekki verið hægt að afgreiða hana.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Jóhanna Sig­urðardóttir, tjáði blaðamanni að hún hygðist leita að flutningsmönnum úr öllum flokkum og endurflytja tillöguna nú á haustþingi.

Sker í eyrun

Í lokin er ekki úr vegi að vitna aftur í leiðara danska læknablaðsins þar sem afstaða danska lækna­fé­lags­ins til stofnfrumurannsókna er tíunduð:

"Danska læknafélagið vill, rétt eins og öll lækna­félög í okkar heimshluta, að lagt verði afdráttarlaust bann við einræktun í æxlunarskyni. En við viljum að vísindamenn fái leyfi til að stunda rannsóknir á stofnfrumum með einræktun í meðferðarskyni undir eftirliti stjórnvalda. ... Sem ábyrgir læknar og vísindamenn getum við ekki leyft okkur að hundsa tækni sem getur hugsanlega leitt til þróunar nýrra lyfja og meðferðarúrræða sem dag einn gætu læknað fólk sem haldið er ólæknandi sjúkdómum. Slíkt væri mannfjandsamlegt og þess vegna sker það í eyrun að heyra Sameinuðu þjóðirnar mæla með algeru banni og rökstyðja það með tilvísun til mannlegrar reisnar og verndunar mannslífa." (1).

Heimildir

1. Buhl H. FN og kloning. Ugeskr Læger 2005; 167: 1357.
2. Hansen CF. Nazifrygt og pavetro bremser europæisk stam­celle­forskning. Ugeskr Læger 2005; 167: 2486-9.
3. New York Times 10. september 2005. www.nytimes.com


Þetta vefsvæði byggir á Eplica