10. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Á ég að gæta bróður míns? Birna Jónsdóttir

Nú hef ég setið í stjórn Læknafélags Íslands í fjögur ár og eins og hendir hugsar maður farinn veg. Ég er búin að velta því talsvert fyrir mér hvað svona selskap eins og læknafélag eiginlega er.

Kannski er það flókið því við erum bæði stéttarfélag og fagfélag. Stéttarfélagshlutinn snýst fyrst og fremst um samningagerð við vinnuveitendur og þjónustukaupa. Við erum flókið stéttarfélag því læknar eru bæði launþegar hjá ríki, borg, sveitarfélögum og sjálfum sér. Margir læknar eru einyrkjar en fjöldi tekur þátt í rekstri hlutafélaga og sameignafélaga. Samningsgerð fyrir lækna hefur lengi verið aðallega tvíþætt, þ.e. samninganefnd LÍ semur við ríkið um laun sjúkrahússlækna og samninganefnd LR við Tryggingastofnun ríkisins um þjónustu sérfræðilækna utan sjúkrahúsa. Heimilislæknar hafa verið undir kjaradómi sem er að breytast í komandi samningum, þeir eru komnir í samninganefnd LÍ en blikur eru á lofti um hvort skurðlæknar semji sér. Sérsamningar einstakra hópa hafa lengi viðgengist, svo sem eins og við í Röntgen Domus höfum haft eigin samning frá upphafi og viljum hafa þann háttinn á (lesist "treystum engum betur en okkur sjálfum").

Fagfélag, jú það erum við vissulega og blómlegir Læknadagar sem árlega lýsa upp svartasta janúarmyrkur eru til sóma fyrir Fræðslustofnun LÍ. Ég get samt ekki á mér setið að segja að bjartara væri yfir fræðslunni ef hún væri ekki niðurgreidd af lyfja­iðnaðinum. Mér persónulega finnst líka að fleiri heilbrigðisstéttir gætu átt aðgang. Símenntun er algerlega nauðsynlegur þáttur og á alþjóða­vett­vangi tíðkast í minni sérgrein að saman komi læknar, geislafræðingar, verkfræðingar, eðlisfræðingar og fleiri. Einu sinni í heimsku minni spurði ég hvort fleiri heilbrigðisstéttir en læknar gætu nýtt sér fræðslu á læknadögum en fékk svar frá gömlum jálki: "Nei það viljum við ekki því við þurfum að fá að vera útaf fyrir okkur." Útaf fyrir okkur með lyfsölum? Allir hinir starfsfélagarnir okkar sem eru með BS, MS og doktorspróf í heilbrigðisvísindum eru útilokaðir frá "okkar" heilbrigðis/vísindafræðslu. Svarið stendur ennþá í mér, reyndar hafa verið gerðar undanþágur í sérstökum tilvikum fyrir afmarkaða hópa, svo sem þegar ljósmæðrum bauðst að heyra um ómskoðanir fóstra í móður­kviði enda framkvæma þær flestar skoðanirnar á Íslandi. Ekki bara það heldur stendur líka í mér hvaða reglur eiga að gilda almennt um samskipti lækna og lyfsala, reyndar vil ég útvíkka fyrirbærið í lækna og lyfjaiðnaðar/lækningarannsóknartækja. Þetta er auðvitað litað af þeim samskiptum sem ég á við lyfjabirgja. Stærsti hluti þeirra peninga sem fyrirtæki mitt notar til framleiðslu sjúkdómsgreininga fer í launakostnað til lifandi fólks en næststærsti hlutinn til lækningarannsóknartækja.

Hvernig bræðrafélag erum við? Jú við höfum sameiginlegar siðareglur. Væntanlega eru þær á einhvern hátt sértækar fyrir lækna og þannig að sérstaklega eru tilgreind þau tilvik sem læknasiðir eiga við um. Nú liggja fyrir komandi aðalfundi drög að endurskoðun á Codex Ethicus. Stjórn LÍ fékk sérstakri nefnd það verk að endurskoða núgildandi siðareglur og var unnið undanfarin tvö ár auk þess sem Siðfræðiráð LÍ fjallaði um breytingartillögur nefndarinnar. Stjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar breytingartillögur með smávægilegum viðbótum. Bæði gömlu reglurnar og nýju tillögurnar held ég að væru fullnægjandi rammi um samskipti lækna við sjúklinga, sín á milli og við aðra aðila í heilbrigðisgeiranum sem og ríkið bara ef farið væri eftir þeim. Þar er stóra málið finnst mér og gildir það sama um samskipti lækna og birgja, hvort sem þeir selja lyf eða rannsóknartæki. Þar er til samningur um sam­skipta­reglur sem er að flestra mati ágætur, ef eftir honum væri farið. Fyrsta vers til að svona reglur séu viðmið í umgengni er auðvitað að þekkja til þeirra. Codex Ethicus nægði svo sem sennilega en samskiptasamningur lækna og birgja á að vera ennþá nákvæmari, þrengri og meira leiðandi og beina okkur á réttar brautir. Hvað þarf til að kynna hann enn meir en gert hefur verið? Illt umtal um þessi samskipti virðist varla duga því ef samningurinn kemur upp í þeirri umræðu er bara rétt tæpt á honum. Ég tel að ef Codex Ethicus er eins og við viljum hafa hann væri það stéttinni til sóma að sýna það í verki.Þetta vefsvæði byggir á Eplica