10. tbl. 91. árg. 2005

Broshorn 62. Af eldra fólki og ungu hjá lækninum

Á guðlegum stofugangi

Tveir læknar, annar þeirra yfirlæknir og hinn deild­ar­læknir, gengu stofugang ásamt hjúkrunarfræð­ingi. Eldri kona sem var ekki með alla hluti á hreinu lá á deildinni. Þegar þrenningin gekk inn á stofuna og yfirlæknirinn gekk í átt að rúmi gömlu konunnar reisti hún sig upp til hálfs, rétti hend­urnar á móti honum og sagði: "Guð minn góður." Hjúkrunarfræðingurinn sem hafði áratugareynslu í samskiptum við sjúklinga og lækna, sneri sér að deildarlækninum og stundi: "Þetta var nú akkúr­at það sem ég þurfti að heyra, sjúklingur að láta ykkur fá á tilfinninguna að þið séuð guðir."

Með maska í skoðun

Á kvennadeild nokkurri þar sem starfsfólk var of fátt miðað við verkefni og asinn oft á tíðum ansi mikill var beðið eftir sérfræðingi beint úr aðgerð á skurðstofunni til að skoða móðurlífið í eldri frú sem lá á legudeildinni. Loksins birtist kvensjúkdómalæknirinn með höfuðfat og maska. Hann gekk beint að verki en láðist að kynna sig þannig að gamla konan heyrði. Að skoðun lokinni hvarf læknirinn á braut og hjúkrunarfræðingur varð eftir hjá konunni sem virtist nokkuð ráðvillt og undrandi þegar hún spurði: "Hver var þessi grímuklæddi maður?"

Aldrei á klósettið

Læknirinn spurði eldri mann hve oft hann færi á klósettið á nóttunni. "Aldrei," svaraði maðurinn, "ég er með þvagflösku undir rúminu mínu."

Sá óskýrt

Gömul kona trúði heimilislækni sínum fyrir því að hún hefði nokkru áður séð ofsjónir. "Hvað sástu?" spurði læknirinn. "Ég er ekki alveg viss af því ég var ekki með gleraugun," svaraði konan.

Sjónpróf

Sjúklingur var lagður inn á gæsludeild vegna ein­kenna sem bentu til þess að heilinn starfaði ekki sem skyldi. Taugasérfræðingurinn sem var kall­að­ur til bað aðstoðarlækni um að framkvæma sjón­próf sem hluta af þeim rannsóknum sem þurfti að gera. Sjúklingurinn stóð með tærnar við línu á gólfinu, huldi annað augað og starði á sjónprófs­töfluna með bókstöfunum. Svo leið tíminn og eftir nokkuð langa þögn sem sumum fannst vera heil eilífð hrópaði einn hjúkrunarfræðingurinn sem stóð álengdar: "VILTU LESA UPPHÁTT". Sjúklingurinn varð hálf vandræðalegur og sagði: "Ég sé alla stafina en get ekki borið fram orðin."

Lítil fegurð

Læknirinn var að fara að skoða fjögurra ára dömu og lagði sig í líma við að útskýra fyrir stúlkunni hvað hann ætlaði að gera. Hún virtist hin áhuga­samasta og horfði stíft framan í lækninn á meðan hann talaði. Þegar hún var beðin um að leggjast út af á skoðunarbekkinn sagði sú stutta: "Þú ert með ljótar tennur."

Útivinnandi

Læknanemi var að skrá félagssögu konu um sextugt og spurði: "Vinnur þú utan heimilis?"

"Já," svaraði konan, "ég slæ grasflötina og hirði garðinn minn."

Vírus

Læknirinn hafði lokið skoðun á níu ára gutta með hita, hósta og hálssærindi.

"Hvað er að mér?" spurði strákurinn.

"Þú ert með vírus," svaraði læknirinn.

Strákurinn varð steinhissa og spurði: "Vírus eins og tölvurnar fá?"

Sýnishorn

Fjórburapabbi kom með eitt barnanna til læknis vegna veikinda. Að skoðun lokinni spurði læknirinn: "Hvað er svo að frétta af hinum börnunum?"

"Þau eru öll með sama hóstann, en ég ákvað að koma bara með eitt sýnishorn."

Stórslysaæfing

Það var stórslysaæfing og "slasað" fólk var flutt í hrönnum á háskólasjúkrahúsið. Þar á meðal voru tveir "sjúklingar" sem voru fluttir á skurðstofugang þar sem þeir lágu hreyfingarlausir og útataðir rauðum lit. Nokkru síðar lauk æfingunni og hinir "slösuðu" risu á fætur og gengu í rólegheitum út af skurðstofuganginum.

Næsta dag trúði eldri kona sem hafði verið í aðgerð deginum áður stöllu sinni í næsta rúmi fyrir því að hún hafi verið að vakna upp eftir aðgerðina þegar hún hafi séð tvo sjúklinga rétt hjá henni deyja og fara til himna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica