09. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Nýi sloppur keisarans

"Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stendur vakt­ina þessa dagana í afleysingum á taugasjúkdómadeild Landspítalans." Þannig byrjaði Bogi Ágústsson stórfrétt ríkissjónvarpsins mánudaginn 18. júlí síðastliðinn. Daginn áður höfðu bæði stóru dagblöðin boðað tíðindin á forsíðu.

Þessi afleysing Kára Stefánssonar á taugadeild Landspítala var slíkt dómgreind­arleysi og reginhneyksli að efast verður alvarlega um hæfi stjórnenda hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis. [*]

Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í lækna­deild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum. Um það getur heill her skólafélaga hans vitnað og fjölmargir aðrir. Þar á meðal núverandi landlæknir, þá formaður félags læknanema. Kári fékk lækningaleyfi með undanþágu í júní 1977, þar sem hann var látinn undirrita eið, í vitna viðurvist, um að ljúka héraðsskyldu við fyrsta tækifæri, enda "væri mér ljúft að heita því að gera það að loknu sérnámi." (Sjá Guðni Th. Jóhannesson: "Kári í jötunmóð".)

Kári hefur ekki starfað sem læknir á Íslandi frá árinu 1977.

Í nærfellt áratug hefur hann ekkert starfað sem læknir. Þar áður vann Kári einkum við rannsóknir. Engu að síður er hann ráðinn til að "standa vaktina" á taugadeild Landspítala í fimm daga. Stekkur svo burt í miðju kafi til að opna hlutabréfamarkað í New York. Hvernig getur svona gerzt á æðstu heilbrigðisstofnun Íslands? Er þetta leikhús? Það voru ekki gæði og traust sem þarna réðu ferð. Ekki einu sinni margrómað frelsi fólks til að velja sjálft lækni. Er ekkert gæðaeftirlit með ráðningum lækna? Beztu og færustu læknum þykir erfitt að taka upp þráðinn eftir nokkurra mánaða hlé. Hvað segir yfirstjórn spítalans? Gaf hún leyfi fyrir þessari ráðningu? Eins og sérstaklega var tekið fram í fréttatilkynningu að stjórn deCODE hefði gert. Hvað segir landlæknir? Veitti hann frekari undanþágu á lækningaleyfinu?

Kári talaði um "elegant tillögu" Elíasar Ól­afs­sonar yfirlæknis taugadeildar. Í sjónvarpinu 18. júlí sl. hafði hann eftir Elíasi "að þetta væri sniðug aðferð til þess að gera þessa góðu samvinnu ennþá betri, milli spítalans og Íslenskrar erfðagreiningar."

Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Er það aðferðin til að bæta enn frekar samvinnu Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítala að bjóða Kára vinnu á taugadeild? Skuldar taugadeildin Kára eitthvað? Hvað kemur næst?

Við sem störfum sem læknar alla daga vikunnar hljótum að spyrja. Megum við eiga von á svona þjónustu við sjúklinga okkar, þegar við vísum þeim á Landspítala að vandlega athuguðu máli? Eru engin takmörk fyrir því hve hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi ætlar að leggjast lágt í siðleysinu?

Hér voru fjarlægðar tvær málsgreinar úr upphaflegri grein skv. niðurstöðu bráðabirgðaritstjórnar sem stjórnir LÍ og LR settu á laggirnar. Greininni var breytt 18. nóvember 2005.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica