07/08. tbl. 91.árg. 2005

Umræða og fréttir

Málefni lækna fyrirferðarmikil í dómsölum

- LÍ á aðild að fjórum málum sem varða kjör lækna

Læknafélag Íslands hefur að undanförnu séð sig tilneytt að fara með ýmis túlkunaratriði kjara- og ráðningarsamninga lækna fyrir dómstóla. Í vor féll úrskurður Félagsdóms í einu máli félaginu í óhag. Tvö önnur mál bíða afgreiðslu dómstóla en auk þess tók félagið að sér að kosta mál Tómasar Zoëga gegn Landspítalanum.

Málið sem tapaðist fyrir Félagsdómi snerist um rétt heilsugæslulækna við Heilbrigðisstofnun Suðurlands til þess að ákveða sjálfir hvort þeir ynnu á föstum mánaðarlaunum eða í afkastahvetjandi launakerfi. Forsagan er sú að með úrskurði kjaranefndar haustið 2002 var kveðið á um að heilsugæslulæknar gætu valið hvoru launakerfinu þeir fylgdu. Í fyrstu kusu fáir að vinna eftir afkasta­hvetjandi kerfi en það breyttist í ársbyrjun 2004 þegar læknarnir á Selfossi ákváðu að vinna samkvæmt því.

Þegar kom fram á mitt ár 2004 taldi yfirmaður stofnunarinnar að launakostnaður væri orðinn of hár og bað læknana að breyta ákvörðun sinni. Því neituðu þeir og þá ákvað framkvæmdastjórinn að frá og með síðustu áramótum skyldu læknarnir vinna á föstum mánaðarlaunum. Þessu vildu læknarnir ekki una og þess vegna stefndi LÍ fjármálaráðherra fyrir Félagsdóm. Niðurstaða dómsins var sú að málinu hefði átt að vísa til almennra dómstóla.

Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ sem sótti málið fyrir hönd læknanna sagði í spjalli við Læknablaðið að ákveðið hefði verið að fara ekki með þetta mál fyrir almenna dómstóla. Ástæðan er sú að ljóst þótti að endanleg niðurstaða fengist tæplega fyrr en um næstu áramót en þá fellur gildandi úrskurður kjaranefndar úr gildi. "Tilgangurinn með málssókninni fyrir Félagsdómi var einmitt sá að fá niðurstöðu sem hægt hefði verið að starfa eftir út gildistíma úrskurðar kjaranefndar. Það er nokkuð víst að ríkisvaldið muni í komandi kjaraviðræðum setja fram kröfu um að ákvæði sem samræmist þeirra skilningi - óháð niðurstöðu dómstóla - verði fest í samningum," sagði Gunnar.

Dagvinnulaun og hvíldartími

Annað mál sem varðar túlkun kjarasamninga bíður nú meðferðar fyrir Félagsdómi en það snýst um skilgreiningu á hugtakinu dagvinnulaun. Málið varðar lækna á Landspítala sem fá greidda svonefnda viðbótarþætti ofan á föst dagvinnulaun. Þeir geta verið vegna stjórnunar, kennslu eða annarra sérverkefna og numið allt að fjórðungs uppbót ofan á dagvinnulaunin. Þegar þeir læknar sem þetta gildir um ávinna sér frítökurétt vegna skerts hvíldartíma og vilja fá hluta hans greiddan út eins og samningar heimila, reka þeir sig á að launin sem fást fyrir frítökuréttinn eru reiknuð á dagvinnu­taxta án viðbótarþátta.

Um túlkun þessa ákvæðis í kjarasamningi sjúkra­húslækna hefur verið deilt í samstarfsnefnd LÍ og Landspítala í rúm tvö ár án þess að niðurstaða fengist. Þess vegna taldi stjórn LÍ nauðsynlegt að stefna Landspítalanum fyrir Félagsdóm svo fá megi niðurstöðu um þetta atriði áður en kjarasamningurinn rennur út.

Þriðja málið sem varðar túlkun kjarasamninga var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl. Það snýst um að tryggja unglæknum á Landspítala sömu lágmarksréttindi og öðrum læknum hvað varðar reglur um hvíldartíma. Eins og flestum er kunnugt var samið um hvíldartíma lækna í kjarasamningum sem gerðir voru í apríl 2002 og voru "læknar í starfsnámi" undanþegnir þessu ákvæði. Síðan hefur staðið deila um hverjir teljist til þess hóps. Stjórnendur spítalans hafa sett alla unglækna undir þennan hatt og neita að viðurkenna að þeir eigi rétt á fríi sem nemur hálfri annarri klukku­stund fyrir hverja stund sem lágmarkshvíldartími skerðist um.

Um þetta hefur staðið töluverður styr og átti þetta ákvæði kjarasamningsins stærstan þátt í því að unglæknar sögðu sig um tíma úr LÍ.

Með lagabreytingu sem gerð var í apríl 2003 var öllu launafólki tryggður réttur á "samsvarandi" hvíld síðar ef fullnægjandi hvíld fengist ekki á viðmiðunarsólarhring. Þetta hefur Landspítalinn ekki viljað viðurkenna að gildi um unglækna og hefur honum því verið stefnt vegna málsins.

Mál Tómasar Zoëga

Fjórða og síðasta málið sem LÍ hefur afskipti af þessi misserin er málarekstur Tómasar Zoëga vegna þess sem hann telur ólögmæta breytingu á störfum sínum hjá Landspítala. Málið höfðaði Tómas eftir að stjórnendur Landspítala tilkynntu honum 27. apríl síðastliðinn að hann yrði fluttur úr starfi yfirlæknis í stöðu sérfræðings. Er það krafa hans að þessi ákvörðun verði ógilt.

Forsaga þessa máls teygir sig aftur til 13. desember 2001 þegar stjórnarnefnd Landspítala ákváð að yfirlæknar skyldu eftirleiðis vera í 100% starfshlutfalli og að þeir mættu ekki reka einkastofu samhliða starfi sínu. Tómas byggir málflutning sinn á því að þessi ákvörðun hafi verið ólögmæt og að hún hafi verið tekin einhliða án þess að þeim sem hana vörðuðu hafi verið gefinn kostur á að nýta sér andmælarétt sinn.

Í minnisblaði sem Gunnar Ármannsson hefur tekið saman um mál Tómasar sem byggjast á stefnunni eru tíundaðar eftirfarandi málsástæður fyrir ógildingarkröfunni:

Í fyrsta lagi sé um að ræða tilfærslu í lægra sett starf en ekki breytingu á starfi. Það sé í raun lausn úr embætti án þess að farið sé eftir leikreglum starfsmannalaga.

Í öðru lagi sé Tómas ráðherraskipaður og því séu forstöðumenn Landspítala ekki bærir til að taka ákvörðun um starfslok hans sem yfirlæknis.

Í þriðja lagi sé brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins vegna þess að Landspítali byggi á ákvörðuninni frá 2001 sem sé ólögmæt. Tómas hafi ekki tekið við neinu aukastarfi eftir að hann var skipaður yfirlæknir og ekki hafi verið sýnt fram á að aukastarf hans samrýmist ekki starfi hans hjá Landspítala en um það beri spítalinn sönnunar­byrðina. Tómas hafi ekki hafnað því að láta af aukastarfinu en beðið um rökstuðning sem ekki hafi fengist. Þá hafi réttur yfirlækna til að tjá sig um ákvörðunina frá 2001 ekki verið virtur.

Í fjórða lagi segir að ákvörðunin frá 27. apríl brjóti gegn jafnræðis- og meðalhófsreglum stjórnsýslulaga því vitað sé að ýmsum yfirlæknum spít­alans sé heimilað að stunda aukastörf.

Loks segir að brotið hafi verið gegn reglum um málshraða og rannsóknarreglu og að ekki hafi verið haft lögbundið samráð við læknaráð spítalans áður en ákvörðunin var tekin.

Kjarabaráttan ekki á leið í dómsalina

Eins og áður segir hefur úrskurður þegar fallið í fyrstnefnda málinu en um hin málin gildir að ríkislögmaður hafði frest fram undir lok júnímánaðar til að skila greinargerð verjanda. Réttarhlé er nú hafið og stendur fram í lok ágúst en eftir það má búast við að dragi til tíðinda í þessum málum.

Gunnar Ármannsson segir að þessi málarekstur þýði ekki að kjarabarátta lækna sé almennt að færast inn í dómsalina. Mál Tómasar hafi sérstöðu en um hin málin gildi það að þau séu eftirhreytur af málum sem fjallað hafi verið um í samstarfsnefndinni á samningstímabilinu. "Við teljum eðlilegt að láta reyna á þessi atriði fyrir dómstólum áður en við­ræð­ur hefjast um næsta kjarasamning. Finnist LÍ at­vinnurekendur lækna ósveigjanlegir og túlka kjara­­mál læknum í óhag vílar félagið ekki fyrir sér að láta reyna á deilumál fyrir dómstólum. Við vilj­um fá endanlega niðurstöðu um málin," sagði Gunnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica