07/08. tbl. 91.árg. 2005

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Af samningamálum. Sigurður E. Sigurðsson

Ágætu félagar

Eins og flestum ætti að vera kunnugt lýkur gildistíma núgildandi kjarasamnings sjúkrahúslækna um næstu áramót. Á sama tíma lýkur einnig gildistíma kjaranefndarúrskurðar fyrir heilsugæslulækna. Þetta þýðir með öðrum orðum að upp rennur tími samningaviðræðna í vetur. Ný samninganefnd var valin síðastliðið haust og undirritaður skipaður formaður. Stjórn LÍ tók síðan þá ákvörðun að sameina samninganefndir sjúkrahúslækna og heilsugæslulækna þar sem grunnkjarasamningur þessara hópa er nánast eins. Var þar kominn möguleiki á að koma fram sem einn stór hópur sem vonandi á eftir að nýtast okkur vel í komandi baráttu. Nefndin hefur þegar hist nokkrum sinnum og sett saman drög að þeim áhersluatriðum sem ætlunin er að leggja fram í komandi viðræðum. Drögin hafa verið kynnt formönnum svæðafélaga á formannaráðstefnu í vor og voru einnig kynnt á almennum félagsfundi LR í maí (mæting um það bil 1% félagsmanna LÍ). Síðast en ekki síst þá má finna þessi drög á heimasíðu okkar www.lis.is undir flipanum "efni" og þar undir "til félagsmanna". Ætlun okkar í samninganefnd er að reyna að kynna þessa áherslupunkta og gefa mönnum tækifæri til að gera athugasemdir og koma með breytingar áður en við leggjum fram endanlega kröfugerð. Má líta á þennan pistil sem hluta af ferlinu. Þetta er kannski að einhverju leyti nýmæli en ætti að hafa nokkra góða kosti. Með þessu móti gefst hinum almenna félagsmanni tækifæri til að kynna sér áherslurnar og koma með athugasemdir áður en kröfugerðin er lögð fram og það er einnig von okkar að þetta auðveldi sjálfa samningagerðina þar sem kröfugerðin liggur ljós fyrir töluvert áður en samningar renna út. Það fer hins vegar að einhverju leyti eftir viðbrögðum viðsemjenda okkar. Það er ekki ætlun mín að hér að fara yfir áhersluatriðin lið fyrir lið þar sem menn geta kynnt sér þau á heimasíðunni en það eru þó nokkur atriði sem ég vil minnast á þar sem í sumum tilfellum er um nýjungar að ræða ef hægt er að tala um nýjungar í þessum málum og einnig eru atriði sem verða kannski umdeild.

Unglæknar. Þeir sem fylgdust með síðustu samn­ingum og eftirmálum þeirra skilja kannski vel hvers vegna við ætlum að leggja sérstaka áherslu á kjör unglækna. Sjálfir hafa unglæknar unnið mikla og góða undirbúningsvinnu fyrir kröfugerð sína og það er kominn tími á að við leggjum frá okkur rök eins og að þeir vinni upp lág laun í dag með hærri launum seinna eða að þeir vinni svo mikla vaktavinnu að laun þeirra verði mjög há. Þá þýðir heldur ekki að einblína á að launamunur milli unglækna og yngstu sérfræðinga verði að vera ákveðið hlutfall eða krónutala. Ef sú krafa nær fram að ganga að unglæknar hækki umfram aðra þá verður þessi munur minni en í dag og menn verða að sætta sig við það. Það verður að leggja af þá hugsun að fái ég ekki eitthvað þá skuli enginn annar fá neitt.

Eldri læknar. Þarna er hópur lækna sem ef til vill er ekki vel skilgreindur en kannski ágætt að miða við 55 ára aldur þar sem breyting verður á vaktaskyldum við þann aldur. Við sjáum mörg tækifæri til að koma til móts við þennan hóp með til dæmis breytingum á vaktafyrirkomulagi án launaskerðingar eða möguleikum á að komast fyrr á eftirlaun ef menn kjósa. Rauði þráðurinn verður að nýta kunnáttu og reynslu eldri lækna án óhóflegs vinnuálags. Þetta ætti einnig að geta orðið góður kostur fyrir atvinnurekandann.

Launalaus leyfi. Þetta er réttlætismál sem er eiginlega furðulegt að ekki hafi verið lögð áhersla á áður. Þetta er í fullu samræmi við hugmyndir manna um endur- og símenntun lækna, getur einnig verið möguleiki að skipta algerlega um umhverfi og ætti að gefa yngri sérfræðingum aukin tækifæri að komast heim frá námi erlendis.

Heilsugæslulæknar. Fyrir utan almenn kjaramál þá má hér nefna að það þarf að skoða vaktskyldu­mál sérstaklega í fámennum héruðum og þar sem vaktskylda tengist sjúkrahúsum. Þá er einnig mik­il­vægt að fara vel yfir gjaldskrármál og réttindi manna til hlutavinnu.

Þá er einnig vert að geta þess að ráðning hagfræðings til LÍ og aukið samstarf milli samninganefnda læknafélaganna á Norðurlöndum ætti að koma sér vel í komandi samningalotu.

Það sem mestu máli skiptir þó er að læknar standi saman í kjarabaráttunni, beri virðingu hvor fyrir öðrum og séu vel upplýstir um kjör sín og réttindi.

Með baráttukveðju,

Sigurður E. SigurðssonÞetta vefsvæði byggir á Eplica