07/08. tbl. 91.árg. 2005

Umræða og fréttir

Danir styrkja Nesstofu

Endurbygging Nesstofu stendur nú yfir og er unnið að því að gera upp þann hluta hússins sem skilinn var eftir á sínum tíma. Þar er um að ræða íbúð fyrsta landlæknisins í austurhluta hússins ásamt loftinu. Gert er ráð fyrir að endurbyggingunni ljúki í árslok 2006. Framkvæmdaáætlun hljóðar upp á liðlega 20 milljónir króna og hlotnaðist Þjóðminjasafninu danskur styrkur til að kosta endurbygginguna.

Styrkurinn nemur tveimur milljónum danskra króna sem samkvæmt gengi dagsins eru 21.400.000 íslenskar krónur. Hann kemur frá einum gildasta menningarsjóði Danmerkur, Augustinerfonden, og er nokkur saga að segja frá því hvernig styrkveitinguna bar að. Þannig var að á síðastliðnu hausti hafði danski læknirinn Povl Riis samband við Tómas Árna Jónasson fyrrverandi formann Læknafélags Íslands og skýrði honum frá samræðum sem hann hafði átt við stjórnarmenn í Augustinerfonden. Povl er ráðgjafi stjórnarinnar á sviði heilbrigðismála og eftir einn fundinn var farið að spjalla saman. Talið barst þá að gömlu steinhúsunum sem Danakóngur lét reisa á Íslandi á 18. öld og kom í ljós að stjórnarmenn þekktu til þeirra. Höfðu þeir áhuga á að stuðla að varðveislu þessara húsa þar sem þau væru hluti af sögu danska nýlenduveldisins.

Tómas sendi Povl nánari upp­lýsingar um Nesstofu og fékk þau skilaboð til baka að sjóðsstjórnin hefði sýnt því áhuga að styrkja endurbygginguna. Þeir Tómas og Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ gengu þá á fund Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar og greindu henni frá þessum áhuga. Hún sendi umsókn til sjóðsins og svo fór að stjórnin ákvað að styrkja endurbygginguna með þeirri fjárhæð sem Þjóðminjasafnið áætlaði að hún myndi kosta. - ÞH

Íslands­vinur­inn Povl Riis gerir það ekki endasleppt við íslenska menningu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica