07/08. tbl. 91.árg. 2005

Umræða og fréttir

Endurskoðun Codex Ethicus

Siðareglur lækna endurspegla hugsunarhátt og hefðir þeirra sem stéttar. Þótt sum atriðin breyt­ist ekki í áranna rás hafa önnur tilhneigingu til að sveigjast eftir tíðaranda og aðstæðum. Þær siða­reglur sem við búum við núna í Læknafélagi Ís­lands hafa ekki tekið neinum umtalsverðum breyt­ingum í hálfan annan áratug. Stjórn LÍ ákvað því í byrjun árs 2004 að fram skyldi fara endurskoðun á Siðareglum lækna, Codex Ethicus. Stjórnin skipaði þriggja manna nefnd undir forystu Ásdísar Rafnar hrl., fyrrum framkvæmdastjóra félagsins, en auk hennar sátu í nefndinni Tómas Zoëga, fyrrum formaður Siðfræðiráðs LÍ og Einar Oddsson þáverandi formaður ráðsins. Nefndin skilaði tillögu sinni að endurskoðuðum siðareglum til stjórnarinnar sem ákvað að senda tillöguna til Siðfræðiráðs til umfjöllunar. Siðfræðiráð skipa: Jón Snædal formaður, Arna Rún Óskarsdóttir, Ástríður Stefáns­dóttir, Benedikt Ó. Sveinsson, Guðlaug Þorsteins­dóttir, Kristín Sigurðardóttir og Sveinn Kjart­ans­son.

Tillögur nefndarinnar voru talsverðar og vörðuðu innihald, uppbyggingu og innra samræmi. Siðfræðiráðið var í flestum grundvallaratriðum sammála en gerði nokkrar breytingar til viðbótar og skilaði svo af sér til stjórnar LÍ í apríl síðastliðnum og verða tillögurnar lagðar fyrir aðal­fund í haust til umræðu og afgreiðslu. Það gefst tæplega rúm til þess þá að fara nákvæmlega yfir þessar breytingar en auðvitað gefst færi á umbótum ef þurfa þykir. Það er því mikilvægt að allir læknar sem láta sig siðareglur félagsins einhverju skipta skoði þær vel og komi á framfæri hugmyndum að breytingum fyrir aðal­fund eða á honum.

Þær breytingar sem lagðar eru til verða ekki tíundaðar hér en minnst á nokkur atriði sem taka efnislegum breytingum. Læknar eru því hvattir til að skoða tillögurnar á netinu og mynda sér skoðun.

- Skírskotað er til laga og reglugerða sem samþykkt hafa verið frá því síðasta endurskoðun fór fram, svo sem lög um réttindi sjúklinga, persónuvernd og ákvæði um starfsumhverfi lækna.

- Ákvæði úr lögum um réttindi sjúklinga rata inn í siðareglurnar efnislega, svo sem réttindi þeirra til að fá upplýsingar og einnig réttindi þeirra að fá ekki upplýsingar ef þeir ákveða svo. Ennfremur hvernig fara skuli með upplýsingar sem viðkomandi sjúklingur getur vegna heilsu sinnar ekki meðtekið.

- Nýr seinni hluti á 6. grein: "Læknir sem tekur þátt í vísindarannsókn skal gæta þess að allar rannsóknarniðurstöður, sem hafa þýðingu fyrir sjúkdómsgreiningu, meðferð og forvarn­ir, verði birtar. Birting niðurstaðna skal almennt fara fram á vettvangi læknisvísindanna."

- Í 10. grein er nýtt ákvæði: "Læknir skal hafa það hugfast að náin persónuleg kynni við sjúkling geta haft áhrif á dómgreind hans og faglegt sjálfstæði. Læknir ætti því almennt að forðast að bera ábyrgð á læknismeðferð náinna vandamanna sinna, ekki síst þegar um langvarandi og alvarlega sjúkdóma er að ræða. Ótilhlýðilegt er að læknir stofni til kynferðislegs sambands við sjúkling sem hann hefur til meðferðar."

- Ákvæði um vísun sjúklinga frá einum lækni til annars eru stytt og einfölduð en þau þóttu full smámunasöm.

- Til viðbótar stuttri grein er hljóðar svo og verður óbreytt: "Læknir má auglýsa starf­semi sína að því marki, sem landslög leyfa." bætist:

"Við kynningu á læknisþjónustu skal veita nákvæmar og áreiðanlegar upplýsingar og hafa öryggi þeirra að leiðarljósi sem leita eftir þjónustunni. Kynni læknir sjálfan sig og starfsemi sína á vefsíðum eða með öðrum hætti skal hann birta siðareglur lækna með aðgengilegum hætti."

- Ákvæði um að læknar og fjölskyldur þeirra skuli fá þjónustu endurgjaldslaust hjá öðrum læknum er felld niður.

Röksemdafærsla fyrir þessum breytingum og þær tillögur sem skilað var til stjórnar LÍ eru á neti LÍ www.lis.is Til glöggvunar verða tillögurnar birtar aðskildar eins og þær hafa komið fram frá nefnd stjórnar LÍ annars vegar og frá Siðfræðiráði hins vegar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica