06. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Læknanám fyrir 60 árum

Á þessu ári eru 60 ár frá því ég lauk prófi frá Læknadeild Háskóla Íslands.

1945 var mikið merkisár því einmitt á því ári - 8. maí - lauk síðari heimsstyrjöldinni hér í Evrópu, en nokkru síðar - 14. ágúst - einnig stríðinu við Japani. Miklu fargi var létt af þjóðum heims eftir sex löng styrjaldarár með miklu mannfalli og margskonar hörmungum öðrum.

Við vorum aðeins fjögur sem lukum læknaprófi á þessu vori (auk mín voru þar Þorgeir Gestsson, Björn Guðbrandsson og Einar Th. Guðmundsson en í janúar hafði lokið prófi Jón Hjaltalín Gunnlaugsson). Þetta var alveg óvenju fámennur árgangur.

Ég var sjöunda konar sem lauk læknanámi hér, en Kristín Ólafsdóttir sú fyrsta lauk prófi 1917 og varð fyrsta konan sem lauk prófi frá Háskóla Íslands. Þess má til gamans geta að þetta ár höfðu aðeins níu konur lokið prófi frá HÍ, því auk okkar sjö úr læknadeild höfðu aðeins tvær lokið prófi úr öðrum deildum, önnur úr lagadeild, hin úr guðfræðideild.

Þetta er heldur rýr eftirtekja á 34 árum frá stofnun Háskóla Íslands 17. júní 1911.

Á menntaskólaárum mínum hafði ég þegar ákveðið að leggja stund á nám í bókmenntum. Ég hef alltaf haft ánægju af að lesa og mennta­skólanemendur í minni tíð voru yfirleitt mjög vel lesnir bæði í íslenskum og erlendum bókmenntum. Ég hóf því nám við háskólann í Kaupmannahöfn í þýskum og enskum bókmenntum, auk náms í heimspeki sem var heilmikið nám, sex fyrirlestrar í viku í átta mánuði. Auk prófs í heimspeki lauk ég aðeins ýmsum forprófum á þýsku og ensku. Þar sem þýska var mitt aðalfag hugleiddi ég að ljúka námi við þýskan háskóla. Árið 1937 átti ég þess kost að fara til Þýskalands og fór þá meðal annars til Heidelberg en þar er gamall og gróinn háskóli. Hefði allt verið með felldu hefði ég hugsanlega farið þangað. En það var ekki allt með felldu því þetta voru miklir uppgangstímar hjá Hitler og stjórn hans og andrúmsloftið með þeim hætti að ég gat alls ekki hugsað mér að vera þar.

Ég venti því mínu kvæði í kross eins og sagt er og hóf nám við Háskóla Íslands. Hér var ekki margra kosta völ á þessum tíma. Það voru aðeins fjórar deildir: læknadeild, lögfræðideild, guðfræðideild og norræna eða íslensk fræði eins og námið var kallað.

Af þessum greinum áleit ég að læknisfræðin myndi höfða mest til mín enda fjölbreytt og áhugaverð námsgrein eins og varla þarf að taka fram hér. Háskólinn var á þessum tíma í Alþingishúsinu. Háskólinn hafði til umráða alla neðri hæðina en þingsalir voru á efri hæðinni eins og nú er. Við skólasetningu á haustin fékk háskólinn til umráða sal sameinaðs Alþingis sem nú er þingsalurinn síðan alþingi varð ein málstofa. Anddyrið var sameiginlegt fyrir alþingi og háskólann. Að sjálfsögðu var þröngt um bæði okkur og þingmenn en ég held að sambýlið hafi yfirleitt verið hnökralaust og auðvitað datt engum í hug að kvarta um aðstöðuleysi sem var nokkuð áberandi, ekki síst hjá okkur í læknadeild. Stofa deildarinnar var í austurenda hússins, allrúmgóð og vísuðu gluggarnir beint að dyrum Dómkirkjunnar. Stofan er nú þingflokksherbergi Framsóknarflokksins.

Ég tók öll prófin í fyrsta hluta námsins í þessari stofu í Alþingishúsinu. Trausti Ólafsson kenndi okkur efnafræði, lífræna og ólífræna. Verklega námið, efnagreiningin, fór fram í smáhúsi bak við Menntaskólann, Fjósið svonefnda sem hefur trúlega borið nafn með rentu í upphafi. Verklega námið var frá hausti til vors, tvisvar í viku, þrír tímar í senn, svo við fengum mikla æfingu í efnagreiningu. Mér þótti efnafræðin skemmtileg. Jón Steffensen kenndi okkur anatómíu, embryológíu og einnig fysíólógíu og bíókemíu. Han kenndi ekki í fyrirlestrarformi heldur tók upp eða ræddi efnið við þá sem komnir voru að prófi en þeir sátu á fremsta bekk, næstir honum. Þetta var eiginlega ófrávíkjanleg regla. Það má segja að þetta væri ágætt því þá var verið að tala við nemendur sem kunnu orðið nokkuð góð skil á efninu. Því miður fengum við nær enga verklega kennslu í anatómíu eða fysíólógíu. Það voru engar krufningar, trúlega bæði vegna aðstöðuleysis og erfiðleika við að fá lík. Jón setti fljótt á stofn rannsóknarstofu, fyrst í húsi Líknar, litlu timburhúsi vestanvert við Alþingishúsið, en síðan flutti hann hafa í hús Háskólans eins og kunnugt er. Við fengum leiðbeiningar hjá honum á rannsóknarstofunni en að öðru leyti var ekki um verklega kennslu að ræða.

Prófin hjá prófessor Jóni voru munnleg eins og öll önnur próf í læknadeildinni nema tvö skrifleg próf ? ritgerðir ? í síðasta hlutanum. Þessi próf voru í heyranda hljóði ef svo má segja því það gátu allir komið og hlustað á sem það vildu. Þó held ég að það hafi eingöngu verið samstúdentar sem hlustuðu á en kennslustofan var alltaf full af áheyrendum. Svona var þetta hvort sem okkur líkaði það betur eða verr. Annars vorum við vön að hlustað væri á okkur á prófum því þannig var það í menntaskólanum. Það var yfirleitt verið að prófa okkur upp undir þrjú kortér, alltaf rúman hálftíma. Síðan báru þeir saman bækur sínar prófessorinn og prófdómarinn. Að lokum kom prófessorinn í dyra­gættina og tilkynnti hvaða vitnisburð við höfðum fengið. Að sjálfsögðu var það með blendnum tilfinningum sem við hlustuðum á úrslit prófsins í margra áheyrn.

Meðan ég var í Alþingishúsinu í fyrsta hlutanum var ég eina stúlkan og svo var einnig í mið- og síðasta hlutanum. Í hinum deildunum, lögfræði, guðfræði og íslenskum fræðum, voru engar stúlkur að staðaldri.

Í forspjallsvísindum sem svo voru kölluð hjá prófessor Ágústi H. Bjarnasyni voru alltaf nokkr­ar stúlkur. Þær sá ég aldrei því prófessor Ágúst kenndi síðari hluta dags. Þó svo ég væri ein var ég hvorki einmana né einangruð, langt í frá. Það var engin nýlunda fyrir piltana að vera með stúlkum í skóla, því höfðu þeir vanist í menntaskólanum sem voru bara tveir á þessum tíma, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn á Akureyri. Kenn­arar mínir allir komu fram við mig eins og hina stúdentana.

Eftir fyrsta hluta prófið urðu þáttaskil meiri að því leyti að nú lauk veru okkar endanlega í Alþingishúsinu. Við kvöddum líka prófessor Jón Steffensen. Hann var alvörugefinn maður, okkur fannst hann réttsýnn og okkur velviljaður.

Nú fluttumst við í umhverfi Landspítalans, fyrst á Rannsóknarstofu Dungals og síðan á Land­spítalann sjálfan. Kennarar okkar í miðhlutanum voru prófessorarnir Níels Dungal og Kristinn Stefánsson. Dungal kenndi okkur patólógíu og bakteríólógíu. Hann var einstaklega skemmtilegur kennari sem tókst að gera þau fög sem hann kenndi lifandi og áhugaverð. Mér finnst þegar ég lít til baka að hann hafi verið eftirminnilegast kennari minn í deildinni. Við kynntumst honum líka betur en hinum því fyrir utan hinar eiginlegu kennslustundir vorum við með honum á rannsóknarstofu hans og svo aðstoðuðum við hann við krufningar. En svo stóð á að læknirinn (Þórarinn Sveinsson) sem að jafnaði sá um þær var veikur í nokkurn tíma og á meðan sá Dungal um allar krufningar með aðstoð okkar. Á meðan féllu tímar niður en krufningarnar voru ekki síður lærdómsríkar en tímarnir. Það voru fyrst og fremst lík þeirra sem létust á Landspítalanum en þó mörg utan úr bæ því oft þurfti að gera réttarkrufningar.

Mér er minnisstætt hvað maður sá mikið af kölkuðum sullum þegar lík gamals fólks voru krufin. Sullaveiki var þá búið að útrýma en þetta sýndi hvað hún hefur náð til margra. Dungal kenndi okkur síðar réttarlæknisfræði og þar naut hans skýra hugsun og framsetning sín einkar vel. Kristinn Stefánsson kenndi okkur lyfjafræði. Við mátum hann mikils því hann lagði mikla alúð við kennsluna. Við kynntumst honum hins vegar ekki eins mikið og Dungal. Prófin hjá báðum voru munnleg og var nákvæmlega eins háttað og í fyrsta hlutanum eins og ég lýsti hér á undan. Svo var um öll prófin í síðasta hlutanum.

Meðan við vorum í miðhlutanum vorum við í ýmsum kúrsum samtals í níu mánuði, það er í þrjá mánuði á hverri deild á Landspítala í kírúrgí og medisín. Það sem vakti furðu, að ekki sé meira sagt, var að tími á Landakotsspítala var ekki tekinn gildur. Það var þeim mun undarlegra þar sem Landakotsspítali hafði verið eini kennsluspítali landsins fyrir læknastúdenta í nær 30 ár (1902-1930) og Matthías Einarsson einn þekktasti skurðlæknir landsins. Fyrir utan þessa kúrsa var einn mánuður í apóteki, annar á rannsóknarstofu Dungals og loks einn á Vífilsstöðum. Það var nokkuð sérstakt að vera á Vífilsstöðum að mörgu leyti. Við bjuggum í bænum en áttum að vera mætt á hælið kl. 8 á morgnana. Ég tók því Hafnarfjarðarbílinn kl. 7, hann stansaði við Vífilsstaðaafleggjarann og þaðan gekk ég en það er drjúgur spölur. Garðabær var ekki kominn til sögunnar og þess vegna var engin venjuleg byggð á þessu svæði, hins vegar var þarna mikil byggð hermanna þar sem þetta voru stríðsárin og margir braggar út um allt svæðið og meðfram veginum. Aldrei kom það fyrir að ég yrði fyrir áreitni frá þessum fjölda hermanna sem þarna voru. Veran á Vífilsstöðum var lærdómsrík en að sama skapi mjög dapurleg. Það var átakanlegt að sjá fjölda ungs fólks á aldur við mann sjálfan tærast upp af lungnaberklum. Það var því ekki að undra að lungnaberklarnir gengju undir nafninu tæring hjá öllum almenningi.

Og nú tók við lokaspretturinn ef svo má segja ? síðasti hlutinn. Nú fór öll kennslan fram á Landspítala að frátaldri heilsufræðinni sem Júlíus Sigurjónsson kenndi í Háskólabyggingunni. Landspítalinn þá var einungis gamla byggingin. Á jarðhæð var röntgendeildin og fleira. Þar fyrir ofan var lyflæknisdeildin, svo skurðdeildin og loks á loftinu var fæðingardeildin. Það var raunar undrunarefni hvað fæðandi konum var búið þröngt húsnæði. Svo það var ekki að undra að margar dugandi ljósmæður hefðu fæðingarheimili á sínum vegum og svo var fjöldi fæðinga í heimahúsum. Kennslustofa okkar á Landspítala var í norðurálmu út frá fyrstu hæð með gluggann móti vestri. Við hliðina á kennslustofunni var rannsóknarstofa spítalans í einni nokkuð rúmgóðri stofu.

Aðalkennarar okkar voru prófessorarnir Guð­mundur Thoroddsen og Jón Hjaltalín Sig­urðs­son. Guðmundur kenndi kírúrgí og obstetrík en Jón medisín. Guðmundur var þekktur fyrir að vera glettinn og gamansamur svo það var oft mikið hlegið í tímum hjá honum. Glettni hans var alveg græskulaus og beindist ekki síður að honum sjálfum en öðrum en aldrei að okkur. Jón Hjaltalín var ákaflega hlýr og viðfelldinn maður og báðir lögðu alúð við kennsluna. Auk þeirra nutum við tilsagnar í nokkrum sérgreinum læknisfræðinnar, í augnlækningum hjá Kjartani Ólafssyni, eyrna-, nef- og hálslækningum hjá Ólafi Þorsteinssyni, húð- og kynsjúkdómum hjá Hannesi Guðmundssyni og í geðlækningum hjá Helga Tómassyni. Af þessu má ráða að það voru fimm prófessorar og sex aukakennarar við læknadeildina á þessum tíma.

Lokaprófin stóðu eða áttu að standa frá 3. til 22. maí. Byrjað var á skriflegum prófum ? ritgerðum ? í kírúrgí og medisín. Þau voru í Háskólabyggingunni og fengum við sex tíma til úrlausnar. Það var einn dagur á milli þeirra. Skoðun á sjúklingum ? klíník ? átti að fella inn í þennan tíma. Skipulag á þessum lið var heldur klaufalegt því það voru bara tveir sem luku prófi 22. maí eins og til stóð. Ég fékk mína klíník 23. maí og síðasta var 24. eða 25. maí. Heldur fannst mér óþarfi að kalla mig í klíník á friðardaginn en þann dag voru mikil hátíðarhöld í Reykjavík eins og úti í heimi. Hitt fannst okkur beinlínis ámælisvert og Háskólanum ekki samboðið að það voru engin skólaslit þar sem okkur voru afhent prófskírteinin okkar. Okkur var sagt að þau gætum við sótt á skrifstofu Háskólans einhvern næstu daga. Þó alltaf sé full ástæða til skólaslita og afhendingar prófskírteina þá var alveg sérstök ástæða til að fagna á þessu ári, 1945, því nú voru sex löng styrjaldarár að baki sem höfðu að sjálfsögðu snert okkur öll. Þetta vor útskrifuðust, fyrir utan okkur fjögur úr læknadeild, fjórir úr guðfræðideild, fjórir úr íslenskum fræðum og 10 úr lagadeild en innan hennar var nýstofnuð viðskipta­deild.

Styrjaldarárin höfðu eins og allir vita víðtæk áhrif á allt mannlíf á Íslandi eins og annars staðar. Þegar hugsað er til áranna fyrir stríð þá er það ?veröld sem var? svo vitnað sé í Stefan Zweig. Hvað Háskólann snertir var hann einangraður, ekki síst frá öðrum háskólum. Það var ómögulegt að fá bækur eins og þær þýsku sem mikið var stuðst við. Ekkert okkar fjögurra átti til dæmis kírúrgíuna en þar komu fyrirrennarar okkar til hjálpar svo við höfðum hvert sitt eintakið.

Í byrjun stríðsins voru loftvarnarmerki stundum gefin þegar þýskar sprengjuflugvélar sveimuðu hér yfir. Þá áttum við læknastúdendar að mæta á Landspítala og Landakotsspítala. Við vorum auðkennd með hjálm á höfði og Rauðakrossmerki á handlegg svo við kæmumst ferða okkar því þá var útgöngubann. Ég fann þessi auðkenni í fórum mínum ekki alls fyrir löngu.

Ef litið er með sanngirni á kennsluna í lækna­deild á þessum tíma þá held ég að óhætt sé að fullyrða að hún hafi veitt okkur býsna staðgóða menntun, undirstöðu sem hægt var að byggja ofan á. Besta staðfesting á þessu er sú að íslenskir læknar hafa hvarvetna verið gjaldgengir ef svo má að orði komast þar sem þeir hafa stundað framhaldsnám og störf en það er víðsvegar um Evrópu og Norður-Ameríku, bæði í Bandaríkjunum og Kanada eins og kunnugt er. Þetta sem ég hef hér rifjað upp eru aðeins örfá minningabrot frá löngu liðnum og viðburðaríkum árum meðan ég stundaði nám við læknadeild HÍ.

Það er bæði með ánægju og söknuði sem ég minnist þessa tíma. Ánægju fyrir að hafa átt þess kost að stunda háskólanám en þar var allt of fátt fólk sem stóð slíkt nám til boða, að ég tali nú ekki um konur. En jafnframt er söknuður vegna þess að flest af því fólki sem var mér samtíða er nú fallið frá. Þó þetta sé eðlilegur gangur lífsins fylgir því söknuður engu að síður.

Um leið og ég óska ykkur velfarnaðar á komandi árum langar mig jafnframt að óska ykkur til hamingju með þetta félag sem ykkur tókst að stofna með glæsibrag. Ég hef trú á, já mikla trú á að þið getið látið margt gott af ykkur leiða, ýmist einar sér eða innan læknasamtakanna. Læknar þurfa vegna þekkingar sinnar og reynslu að hafa mótandi áhrif á samfélagið svo þar geta beðið ykkar margvísleg og þörf verkefni sem ykkur er trúandi til að rækja af alúð og dugnaði.

Á jarðhæð í austurenda Alþingishússins, gegnt anddyri Dómkirkjunnar, var kennslustofa lækna­deildar á stríðsár­un­um. Þar er nú þing­flokks­herbergi Framsókn­ar­flokksins.

Ragnheiður Guðmunds­dóttir ásamt Sigurbirni Sveinssyni formanni LÍ á aðalfundi félagsins haustið 2004 en þar var Ragnheiður gerð að heiðursfélaga LÍ. Myndin var tekin í Nesi við Seltjörn, húsi lyfjafræðinga.

Á Vífilsstöðum fannst Ragnheiði átakanlegt að sjá allt þetta unga fólk tærast upp af lungnaberklum.

Seinni hluti námsins hjá Ragnheiði fór að mestu fram á Landspítalalóðinni. Prófessor Níels Dungal kenndi nemendum á rannsóknarstofu sinni sem var til húsa við Barónsstíg þar sem enn er rannsóknarstofa en einnig var kennt í aðalbyggingunni sem nú er að hverfa bak við tré og bíla.Þetta vefsvæði byggir á Eplica