06. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Greining formanns lækna­ráðs á vanda Landspítala

Í bréfi Friðbjörns Sigurðssonar formanns læknaráðs Landspítala til Jó­hann­esar M. Gunnarssonar setts forstjóra þann 22. apríl síðastliðinn setur for­­maðurinn fram eftirfarandi greiningu á vanda spítalans. Plássins vegna verð­um við því miður að sleppa tillögum hans til úrlausnar en bréfið má nálgast í ársskýrslu Læknaráðs sem lögð var fram á aðalfundi þess 27. maí.

1. LSH er sérgreinaskipt sjúkrahús. Því þurfa allar sérgreinar lækninga að vera vel skilgreindar. Ljóst þarf að vera hver sé í forsvari fyrir viðkomandi sérgrein, og að sá aðili beri starfsheiti sem er aðgreinanlegt frá öðrum stjórnendum lækninga á sjúkrahúsinu. Sérgreinar lækninga þurfa að hafa skilgreinda aðstöðu með skrifstofum lækna og skrifstofustjóra. Stjórnkerfi LSH hefur verið gagnrýnt fyrir of mikla miðstýringu, og þurfa sérgreinar að fá aukið stjórnunarvægi og sjálfstæði. Fagleg og rekstrarleg ábyrgð þarf að fara saman á öllum stigum í lækningum og er því eðlilegt að sérgreinar verði meginrekstrareiningar lækninga á sjúkrahúsinu.

2. Hlutverk sviðstjóra er að mörgu leyti óljóst og skarast að nokkru við störf yfirlækna. Ágreiningur er um hvernig staðið er að vali á sviðstjórum, en sviðstjórar eru nú valdir af forstjóra. Starfsheitið sviðstjóri er ekki nægilega lýsandi fyrir forystumenn lækninga. Eðli málsins samkvæmt verða forystumenn lækninga að vera leiðtogar, en bent hefur verið á að núverandi tilhögun á vali sviðstjóra hamli því.

3. Skerpa þarf á hlutverkaskiptingu lækninga og hjúkrunar í stjórnun sjúkrahússins, en óljós mörk eru milli stjórnunarhlutverks forystumanna lækninga og hjúkrunar, annars vegar sviðstjóra lækninga og hjúkrunar og hins vegar deildarstjóra og yfirlækna. Nauðsynlegt er að fyrir liggi nákvæm skilgreining á hlutverki og ábyrgð viðkomandi stjórnenda. Ástæðulaust er að þessir aðilar séu ávallt kallaðir saman við ákvarðanatöku, því sum mál eru vissulega annaðhvort viðkomandi hjúkrun eða lækningum. Núverandi fyrirkomulag er til þess fallið að hamla eðlilegri þróun hjúkrunar og lækninga, enda er hér ekki um sömu fræðigreinar að ræða. Samhliða þarf að tryggja að áfram ríki náin samvinna meðal þessara tveggja helstu faggreina sjúkrahússins.

4. Landspítalinn er háskólasjúkrahús og gera þarf sjúkrahúsinu kleift að standa undir því nafni. Nú er komið að endurskoðun samnings LSH og HÍ og verður að nýta það tækifæri til að skilgreina betur en áður hefur verið gert, hlutverk HÍ í stjórnun LSH, þar á meðal stjórnunarhlutverk forstöðumanna fræðasviða læknadeildar á sjúkrahúsinu.

5. Í fjölmiðlum að undanförnu og í erindi læknaráðs til ráðherra hefur komið fram gagnrýni á stjórnsýslu sjúkrahússins. Nefnt hefur verið að stjórnsýslan sé ekki nægilega gegnsæ og að sum erindi hafi ekki fengið tilhlýðilega afgreiðslu. Þá skorti á virðingu fyrir faglegum sjónarmiðum. Fjöldi fagaðila leggur á sig gríðarlega vinnu við þjónustu og þróun sjúkrahússins. Háskólasjúkrahús á stærð við LSH rúmar margar skoðanir. Þó svo að einstakir fagaðilar séu ekki alltaf sammála stjórn sjúkra­hússins á hverjum tíma merkir það ekki að þeir séu dottnir út úr ?liði LSH? enda er jákvæð gagnrýni nauðsynleg fyrir þróun háskólasjúkrahúss.Þetta vefsvæði byggir á Eplica