05. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Hver er munurinn á auglýsingu og upplýsingu?

Umræður á formannafundi um hvort rétt sé að afnema bann á auglýsingum heilbrigðisstétta

Að loknum umræðum um samskipti lækna og lyfja­fyrirtækja var tekið til við að ræða hvort læknar og aðrar heilbrigðisstéttir og jafnvel heilbrigðisstofnanir eigi að fá leyfi til að auglýsa starfsemi sína og þjónustu. Tilefni umræðunnar var tillaga til þingsályktunar sem þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hefur lagt fram á alþingi og var hann mættur til að útskýra mál sitt.

Ágúst rakti þær reglur sem gilda um auglýsingar heilbrigðisstétta en þær eru afar þröngar hér á landi. Meginreglan væri sú að læknir mætti einungis auglýsa með efnislegum og látlausum hætti þrívegis ef hann hefur störf eða ef breyting verður á starfsemi hans eða viðtalstíma. Þetta er tilgreint í læknalögum en í lögum og reglum um aðrar heilbrigðisstéttir er oft vísað til þessa ákvæðis í lækna­lögum. Auk þess væru í siðareglum ýmissa stétta ákvæði sem takmarka svigrúm viðkomandi stéttar til auglýsinga.

Þetta taldi hann vera í ósamræmi við þróun þjóðfélagsins þar sem auglýsingar og önnur upplýsingagjöf léki æ stærra hlutverk í leit fólks að þjónustu. Tilkoma netsins hefði líka breytt miklu enda væru margir heilbrigðisstarfsmenn og stofnanir nú komnir með heimasíður þar sem þeir veittu upplýsingar um það sem þar er í boði.

"Með auglýsingabanninu er hins vegar komið í veg fyrir að heilbrigðisstéttir og -stofnanir geti kynnt þjónustu sína almenningi með fullnægjandi hætti. Svo virðist sem sjúklingar verði að treysta á umtal eða ímynd þegar þeir velja sér heilbrigðisþjónustu," sagði þingmaðurinn. Hann nefndi dæmi af tannlæknum, lýtalæknum, augnlæknum og fleiri stéttum sem bjóða þjónustu sína í samkeppnisumhverfi en gætu ekki auglýst hana.

Rýmri reglur í öðrum löndum

Ágúst sagði að auglýsingabannið hefði upphaflega verið sett í lög árið 1932 í þeim tilgangi að halda uppi aga innan læknastéttarinnar. Þau rök væru löngu orðin úrelt og ekki hægt að sjá að almannahagur eða annað réttlætti lengur bannið. Nú væru orðin til ýmis grá svæði þar sem mörkin milli auglýsinga og upplýsingagjafar væru mjög óljós, til dæmis á netinu. Þetta leiddi til þess að lögin væru erfið og flókin í framkvæmd.

Ágúst benti á að í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Norðurlöndunum, giltu víðast hvar mun rýmri reglur um auglýsingar heilbrigðisstétta. Til dæmis væri heimilislæknum leyft að auglýsa starfsemi sína í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, þó ekki í kvikmyndum. Til væru Evrópureglur sem kvæðu á um að upplýsingar sem birtust á netinu yrðu að vera réttar, sannanlegar og í samræmi við góða starfshætti og þær siðareglur sem gilda í hverju landi.

Þingmaðurinn sagði að þótt auglýsingar yrðu leyfðar myndu gilda um þær ákvæði samkeppnislaga og að sjálfsögðu siðareglna heilbrigðisstétta. Þau ákvæði ættu að duga til að koma í veg fyrir skrumkenndar og ósannanlegar auglýsingar, svo sem að læknar segist þekkja einhverja töfralækningu sem öðrum séu ókunnar. Siðareglurnar komi einnig í veg fyrir að læknar séu keyptir til að taka þátt í auglýsingum annarra fyrirtækja á vörum sínum eða þjónustu, svo sem lyfjaauglýsingum.

Er heilbrigðisþjónustan svona hættuleg?

Næsti frummælandi var Eiríkur Þorgeirsson augnlæknir en hann hafði þá sögu að segja að hann hefði fengið bréf frá landlækni vegna auglýsingastarfsemi hlutafélags sem Eiríkur starfar hjá. Það mál leystist í góðu en það snerist um fyrirtæki fimm augnlækna sem hafði opnað heimasíðu um þjónustu sína. Þar var henni lýst ítarlega á 40 síðum, sagður á henni kostur og löstur með tilvísunum í vísindagreinar og heimasíður erlendra læknasamtaka, sjúklinga­samtaka og fleiri hagsmunasamtaka. Í framhaldi af þessu ákvað fyrirtækið að senda út auglýsingakort þar sem vakin var athygli á heimasíðunni. Þar taldi embætti landlæknis að of langt væri gengið.

Eiríkur spurði hvort ekki gætti nokkurs tvískinnungs í auglýsingabanninu, ekki síst vegna þess að það væri helst rökstutt með tilvísun í almannahag. "Er íslensk heilbrigðisþjónusta þá svona hættuleg?" spurði hann og bætti því við að þó hann mætti ekki auglýsa hana hér á landi væri ekkert sem bannaði honum að segja á henni kost og löst í öðrum löndum þar sem aðrar reglur giltu. Þetta vekti líka spurningar um það hvernig menn ætluðu að stuðla að útflutningi íslenskrar heilbrigðisþjónustu ef ekki mætti segja frá henni.

Eiríkur velti vöngum um hlutverk ríkisvaldsins á markaði fyrir heilbrigðisþjónustu og sagði eðlilegt að það vildi geta stýrt því hvert almenningur færi í leit að þjónustu sem ríkið greiddi fyrir. En hvað um þá þjónustu heilbrigðisstétta sem fólk greiðir fyrir sjálft? Er sjálfsagt mál að banna auglýsingar um hana? Eða þegar einkarekin þjónusta leitaði hófanna í samkeppni við opinbera þjónustu. Þá er ríkið ekki háð samkeppnislögum og getur beitt undirboðum og öðrum brögðum til að ýta keppinautnum út af markaði. Það væri því nauð­synlegt að skoða samkeppnislögin í tengslum við afnám á auglýsingabanni.

Hann nefndi líka að auglýsingabannið snerti jafnrétti milli kynslóða í læknastétt því yngri læknar þyrftu meira á því að halda að auglýsa þjónustu sína en hinir eldri.

Síðasti frummælandi var Sigurður Guðmunds­son landlæknir. Hann ræddi um tilgang auglýsingabanns og þær röksemdir sem gripið væri til gegn því. Þær eru fyrst og fremst þær að ekki sé tekið mið af samkeppnissjónarmiðum í nútímasamfélagi, heldur ekki einkarekstri í heilbrigðisþjónustu eða netvæðingarinnar.

Galdralæknar Group?

Hann vísaði til laga um réttindi sjúklinga þar sem þeim væri tryggður réttur á upplýsingum. Þar kvaðst hann kominn að kjarna málsins sem væri spurningin hvort auglýsing væri það sama og upplýsing. Markmið auglýsingar væri ekki að koma á framfæri óvilhöllum upplýsingum heldur tilteknum upplýsingum um ákveðna vöru eða þjónustu sem geta orðið til að auka sölu á henni.

Í framhaldi af þessu vitnaði landlæknir til ákvæðis stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi sem væri bannað að skerða með örfáum undantekningum. Spurningin væri þá hvort ekki væri verið að vernda fólk gegn blekkingum með því að banna auglýsingar.

Í lokin sagði landlæknir að hann teldi gildandi lög og reglur of þröng. Læknar þyrftu að hafa meira svigrúm til að veita upplýsingar um starf­semi sína. Upplýsingar þeirra þyrftu þó að vera faglegar, látlausar og fjalla um það sem læknar geta gert, hver árangurinn er af meðferð lækna, vel að merkja gagnreyndur, hvaða ábendingar eru og hvaða hættur geta fylgt því sem læknar gera.

Það þarf líka að setja mörk sem taka mið af virðingu fagsins."Viljum við heilsíðuauglýsingar í dagblöðum frá Galdralæknar Group eða frásagnir af kraftaverkum lækna að hætti Séð og heyrt? Nei, varla," sagði landlæknir. Hann sagði að læknar þyrftu að ræða þessi mál og móta reglur sem gerðu greinarmun á auglýsingum og upplýsingum.

Codex í endurskoðun

Í umræðunum urðu margir til að þakka Ágústi Ólafi fyrir að eiga frumkvæði að umræðu um auglýsingar heilbrigðisstétta. Ekki voru þó allir sammála niðurstöðum hans og bentu margir á muninn á auglýsingum og upplýsingum. Jón Snædal formaður siðfræðiráðs LÍ greindi frá endurskoðun á Codex sem nú er langt komin og verður á dagskrá aðalfundar í haust en þar væri meðal annars tekið á reglum sem snertu upplýsingagjöf lækna.

"Umræðan er rétt að hefjast," sagði Sigurbjörn formaður á fundinum og væntanlega á eftir að heyrast meira um það hvort rétt sé að afnema auglýsingabann á heilbrigðisstéttum.

u04-fig1ny

Sigríður Dóra Magnús­dóttir heilsugæslulæknir á Seltjarnarnesi, Ólafur Hergill Oddsson heimil­is­læknir á Akureyri og Óskar Einarsson formaður LR.

u04-fig2ny

Tveir frummælenda, Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður og Sigurður Guðmundsson landlæknir.

u04-fig3ny

Vilhjálmur Rafnsson ábyrgðarmaður Lækna­blaðsins og Hjalti Kristj­ánsson heimilislæknir í Vestmannaeyjum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica