05. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Formannafundur LÍ

Lyfjafyrirtækin eru engin skrímsli - en hversu langt á að ganga í því að setja reglur um samskipti lækna við þau?

Það má segja að markaðsmál eða markaðsafskipti lækna hafi verið í forgrunni á formannafundi Læknafélags Íslands sem haldinn var 15. apríl síðastliðinn. Auk hefðbundinnar skýrslugjafar og umfjöllunar um málefni Lífeyrissjóðs lækna var haldið málþing þar sem rætt var annars vegar um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og hins vegar hvort læknum og öðrum heilbrigðisstéttum skuli leyft að auglýsa starfsemi sína.

Sigurbjörn Sveinsson formaður hafði framsögu um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og ræddi um samninginn sem í gildi er milli LÍ og lyfjafyrirtækja um samskiptin. Hann kynnti einnig nýgerðan samn­ing norska læknafélagsins við lyfjaiðnaðinn og plagg sem Evrópusamtök lækna og lyfjaframleiðenda hafa komið sér saman um. Í máli hans kom fram að samningur LÍ og lyfjafyrirtækjanna rennur út um næstu áramót en framtíð hans er nú til umræðu í stjórn LÍ. Á hann að vera óbreyttur eða er rétt að taka inn í hann ný atriði?

Sigurbjörn reifaði nokkuð þau lagaákvæði sem gilda um lækna í starfi, ekki síst sem opinbera starfsmenn. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að ekki sé óeðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort læknar geti tekið óvilhalla ákvörðun í þágu sjúklings ef hún hefur áhrif á hag þriðja aðila sem þeir hafa þegið eitthvað frá. Þessu hafi læknar gert sér grein fyrir víða um lönd.

"Í nýlegum samningi sem gerður var í Noregi er vikið beint að þessum vanda. Þar er skilið á milli þeirrar endurmenntunar sem læknar hafa skuldbundið sig til að sinna og hinnar sem þeim er frjálst að taka þátt í. Þá fyrrnefndu er bannað að fjármagna með stuðningi þriðja aðila. Þessi regla er raunar óskrifuð í Evrópu og Bandaríkjunum og gildir um þá viðbótarmenntun sem læknar leita eftir viðurkenningu á. Það er því alls staðar verið að takast á við þessi mál," sagði hann.

Öll ný þekking er vel þegin

Sigurbjörn ræddi síðan nokkuð endurnýjun samn­ingsins við lyfjafyrirtækin hér á landi og sagði að áhugi lækna á því að gera slíkan samning byggðist á því að þeir vilja varðveita trúnaðarsamband sitt við sjúklinginn og samfélagið, þá tiltrú sem þeir búa við. "Tilgangurinn með svona samningi er að draga fram að þessi samskipti geta leitt til hagsmunaárekstra," sagði hann.

Sigurbjörn ræddi nokkuð um endurmenntun lækna og hvernig hún skuli fjármögnuð. Þar sagði hann mikilvægt að læknar gerðu þá kröfu til samfélagsins að það stæði straum af kostnaði við þá endurmenntun sem læknum er skylt að sinna. Opinber stuðningur við endurmenntun tryggði betur jafnræði milli lækna því eins og allir vissu væru sumir læknahópar vinsælli en aðrir í augum lyfjafyrirtækja.

"En samskiptin við lyfjaiðnaðinn eru nauðsynleg til þess að kynna læknum nýja þekkingu. Þau hafa ekki þann tilgang að hamra á alþekktum staðreyndum, það er áróður og auglýsingamennska. Öll ný þekking um ný lyf eða nýja notkun eldri lyfja er vel þegin og hana á að setja fram í eðlilegu samhengi við starfsvettvang lækna," sagði Sigurbjörn og lagði til að komið yrði á fót samstarfsvettvangi um framkvæmd samningsins, ekki til að refsa eða áminna heldur til að ræða um það sem betur má fara í samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja.

Þrýstingurinn hefur áhrif

Að framsögu formannsins lokinni urðu nokkrar umræður. Þar kom í ljós að sumum fundarmanna þótti sú umræða sem fram hefur farið í fjölmiðlum og á alþingi hafa verið fremur einlit. Eins og gengur voru menn ekki sammála í öllum atriðum og þótti sumum gildandi samningur nógu góður meðan aðrir vildu skerpa á ákvæðum hans. Þeir sem töldu samninginn nægjanlegan bentu á að lög landsins og Codex Ethicus tækju við þar sem honum sleppti. Óráðlegt væri að setja svo strangar reglur að menn færu ekki eftir þeim. Betra væri að treysta læknum til að gæta heiðurs stéttarinnar sjálfir. Læknar hefðu vissulega þörf fyrir samskipti við lyfjafyrirtækin en þau hefðu miklu meiri þörf fyrir samkeppni við lækna.

Á hinn bóginn var bent á að norrænir læknar færu enn eftir reglunum þótt þær hefðu verið hertar. Fram kom að á Norðurlöndum væru menn komnir í vandræði með sum læknaþing því það vantaði peninga til að halda þau. Í Svíþjóð er í gangi dómsmál gegn nokkrum læknum fyrir meinta mútuþægni og sænskir læknar gættu þess mjög vel að halda sig fjarri öllu því sem lyktar af lyfjaiðnaðinum.

Landlæknir blandaði sér í þessa umræðu og varaði við því að menn gerðu lyfjafyrirtækin að einhverju skrímsli. Menn yrðu þó að vera á varðbergi því rannsóknir sýndu að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hefðu áhrif á lyfjaávísanir lækna. Það væri hollt að setja sig í spor sjúklings sem velti því fyrir sér hvers vegna læknirinn væru einmitt að gefa honum tiltekið lyf og hvort þrýstingur frá lyfjafyrirtæki hefði komið þar við sögu. Hann sagði að boltinn væri á vallarhelmingi lækna, meira að segja rétt upp við marklínuna. Á hinn bóginn taldi hann ekki rétt að grípa til refsinga en læknar þyrftu að vera vakandi í umræðunni um þessi samskipti. Eins og margoft hefur verið sagt þá er ekkert til sem heitir ókeypis málsverður.

u03-fig1ny

Svipmyndir af formanna­fundi LÍ. Hér að ofan eru Hulda Hjartardóttir og Sigríður Ólína Har­alds­dóttir úr stjórn LÍ og Tómas Guðbjartsson en að baki þeim er Gunnar Ármannsson framkvæmda­stjóri LÍ.

u03-fig2nyHér til vinstri eru þær Birna Jónsdóttir gjaldkeri LÍ og Margrét Georgs­dóttir formaður Félags kvenna í læknastétt.Þetta vefsvæði byggir á Eplica