05. tbl. 91. árg. 2005

Ritstjórnargrein

Læknablaðið í Medline

Vilhjálmur Rafnsson

r01-hofnyMedline er gagnabanki alríkislæknisfræðibóka­safns­ins (National Library of Medicine, NLM) í Banda­ríkjunum yfir skráðar tímaritaívitnanir og út­drætti sem tekur til 4500 útgefinna blaða frá Banda­ríkjunum og meira en 70 öðrum löndum. Hægt hefur verið að gera tölvuleit í gagnabankan­um frá árinu 1971 og nær hann þá til skráðra greina frá árinu 1966. Medline er hluti af PubMed gagnabanka alríkislæknisfræðibókasafnsins sem er aðgengilegur á netinu. Talið er að út séu gefin um 13.-14.000 tímarit í líf- og læknisfræði í heimin­um þannig að aðeins hluti þeirra er tekinn upp í Medline.

Læknablaðið var áður fyrr skráð í Medline en féll út af skránni í kringum 1974. Síðan þá hefur nokkrum sinnum verið sótt um að blaðið yrði skráð aftur. Á síðasta ári var enn send umsókn, en sérstök valnefnd fjallar um umsóknir tímarita um að verða tekin upp í skráningu Medline. Í þetta skipti var í umsókninni nákvæmlega skýrður rit­rýnisferillinn, sagt frá hvernig ritstjórn vinnur með aðsent efni, hverjir sitja í ritstjórn og að hafðar séu í heiðri staðlaðar reglur alþjóðlegra læknatímarita (1, 2). Umsókninni fylgdu einnig nokk­­ur tölublöð Læknablaðsins. Auk þess voru þrír íslenskir læknar, búsettir í Bandaríkjunum, fengnir til að skrifa stuðningsbréf með umsókninni til valnefndar bóka­safnsins enda nefndarmönnum sá vandi á höndum að meta læknablað frá litlu málsvæði. Nú er skemmst frá því að segja að í febrúar síðastliðnum var fundur í valnefndinni sem féllst á að Læknablaðið yrði skráð í Medline ef blaðið gæti uppfyllt ákveðin tæknileg skilyrði sem miða að því að gera skráninguna nánast sjálfvirka. Að þessum skilaboðum fengnum var þegar í stað hafinn undirbúningur að því að leysa þessi tækni­legu atriði og mun því Læknablaðið formlega birtast á Medline innan skamms. Efni blaðsins sem aðgengilegt verður á Medline eru frumrannsóknargreinar, leiðarar, aðsend bréf til ritstjórnar og fræðileg innlegg en hér er átt við að hægt verður að leita í gagnagrunninum að höfundum, titlum, árgangi, númeri tölu­blaðs og blaðsíðum en hvað varðar frumgreinarnar verður einnig leitanlegt í útdráttum og lykilorðum, allt á ensku. Auk þessa mun alríkislæknisfræðibókasafnið gera mögulegt að hægt verði að tengjast beint af PubMed inn á vefútgáfu Læknablaðsins og ná þannig öllum texta ofannefndra greina, auk blaðsins í heild.

Skráning blaðsins á Medline hefur mikla þýðingu, ekki einungis fyrir blaðið heldur einnig fyrir eigendur þess, lækna og aðra þá sem í blaðið skrifa. Það tryggir enn víðtækari dreifingu hins fræðilega efnis og eykur hróður íslenskra lækna. Birt efni fær meira fræðilegt vægi en áður. Læknablaðið verður einnig fýsilegri birtingarvettvangur og aðsendum skrifum og greinum mun vafalítið fjölga. Vandi mun eðlilega fylgja vegsemdinni því þetta mun leiða til meira vinnuálags á ritstjórn og starfsmenn blaðsins. Eitt af því sem alríkislæknisfræðibókasafnið óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um var hvort Læknablaðið færi eftir stöðluðum reglum al­þjóðlegra læknatímarita um framsetningu og rit­rýnis­feril fræðigreina og þær verða því áfram hafðar að leiðarljósi. Þessar reglur fjalla meðal annars um auglýsingar í læknablöðum þar sem meðal annars er bent er á að þær megi ekki hafa áhrif á ákvarðanir ritstjórnar, að lesendum blaðanna skuli gert auðvelt að skilja á milli auglýsinga og leiðara­efnis, annað efni og auglýsingar megi ekki vera tengt og læknablöð skuli ekki auglýsa heilsuskaðlegar vörur, svo sem tóbak.

Á næstunni verða því leiðbeiningar til höfunda fræðilegra greina í Læknablaðið gerðar ítarlegri með frekari vísan til áðurnefndra reglna. Þar verður fjallað um hagsmunaárekstra og hvernig sagt skuli frá þeim um leið og efni er sent til blaðsins. Almennt trúnaðartraust ritrýnisferilsins og trúverðugleiki birtra greina hvílir meðal annars á því hvernig tekið er á hagsmunaárekstrum þegar verið er að skrifa, ritrýna og taka ákvarðanir í ritstjórninni. Hagsmunaárekstrar eru til staðar þegar höfundur (eða stofnun/fyrirtæki höfundar), ritrýnir eða ritstjóri hefur fjárhagsleg eða per­sónu­leg tengsl sem á óeðlilegan hátt hefur áhrif á (skekkir) viðbrögð viðkomandi. Þessi tengsl geta haft mismunandi þýðingu eða allt frá því að það sé hverfandi möguleiki að þau hafi áhrif yfir í það að vera mjög líkleg til þess að hafa áhrif á afstöðu og mat. Það er ekki svo að öll tengsl leiði til hagsmuna­árekstra. Hugsanlegir hagsmunaárekstrar geta verið til staðar hvort sem viðkomandi einstaklingur telur að tengslin sem um er að ræða hafi áhrif á eigið vísindalegt mat/skoðun eða ekki. Fjárhagsleg tengsl, svo sem vegna ráðningar, ráðgjafar, hlutabréfaeignar, þóknunar og sérfræðiálit sem greitt er fyrir, er það sem auðveldast er að þekkja sem hagsmunaárekstra og eru líklegust til þess að grafa undan trausti blaða, höfunda og sjálfum vísindunum. Árekstar geta einnig orðið af öðrum ástæðum, svo sem einkasambanda, samkeppni innan háskóla, trúarbragða og fleiri atriða.

Við fögnum þeirri viðurkenningu sem skráning Læknablaðsins á Medline felur í sér.

Heimildir

1. www.icmje.org
2. www.laeknabladid.is/fragangur


Þetta vefsvæði byggir á Eplica