05. tbl. 91. árg. 2005

Fræðigrein

Sameiginleg yfirlýsing Alþjóðasamtaka ljósmæðra (ICM) og Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (FIGO) 2003

Meðferð þriðja stigs fæðingar til að koma í veg fyrir blæðingu eftir burð

ICM (International Confederation of Midwives) og FIGO (Federation Internationale de Gynecologie et Obs­te­trique) eru lykilaðilar í alheimsátaki um aukið öryggi í fæðingum sem nefnist "Safe Motherhood." Tilgangur þess er að draga úr mæðradauða og veikindum mæðra hvarvetna í heiminum. Stefnuyfirlýsing samtakanna um þetta verkefni felur í sér sameiginlegar skuldbindingar til að stuðla að heilbrigði, mannréttindum og velferð allra kvenna, sérstaklega þeirra sem eru í mestri hættu á að deyja eða veikjast vegna barnsburðar. FIGO og ICM styðja inngrip sem sannast hefur að eru áhrifarík og sem með réttri notkun og upplýstu samþykki geta dregið úr dánartíðni mæðra og minnkað veikindi fæðandi kvenna í heiminum.

Alvarleg blæðing á meðgöngu eða eftir fæðingu er ein megin ástæða mæðradauða í heiminum, einkum við eða fljótlega eftir fæðinguna. Meira en helm­ingur alls mæðra­dauða verður innan 24 klukkustunda frá fæðingu, yfirleitt vegna mikillar blæðingar. Hver og ein þunguð kona getur lent í lífshættu vegna mikils blóðmissis við fæðingu. Konum sem þjást af blóðleysi er sérstaklega hætt, þar sem þær þola jafnvel ekki vægan blóðmissi. Fylgjast þarf náið með öllum konum fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu og ef nauðsynlegt er veita meðferð til að koma þeim í líkamlegt jafnvægi.

Eftir að hafa farið yfir þau gögn sem fyrir liggja um meðferð þriðja stigs fæðingar, eru FIGO og ICM sammála um að sannað sé að virk meðferð á þriðja stigi fæðingar dragi úr tilvikum afbrigðilegra blæðinga eftir burð (postpartum hemorrhage), magni blóðmissis og fjölda þeirra sem þurfa á blóðgjöf að halda.

Því ætti að bjóða konum virka meðferð á þriðja stigi fæðingar þar sem það dregur úr hættu á blæðingu eftir burð vegna samdráttarleysis í legi.

Virk meðferð á þriðja stigi fæðingar samanstendur af inngripum sem ætluð eru til að auðvelda fylgjufæðingu með því að auka samdrætti í leginu og koma í veg fyrir afbrigðilega blæðingu eftir burð með því að varna samdráttarleysi í legi. Hefðbundnu þættirnir eru meðal ann­ars að:

- gefa samdráttarörvandi lyf

- beita stjórnuðu naflastrengstogi

- nudda legið eftir fylgjufæðingu eins og þörf er á

Hver sá sem er viðstaddur fæðingu þarf að hafa þá þekkingu, hæfni og dómgreind sem nauðsynleg er til að beita virkri meðferð á þriðja stigi fæðingar, ásamt aðgangi að nauðsynlegum úrræðum og búnaði.

Í þessu samhengi hafa fagsamtök í hverju landi mikilvægu og sameiginlegu hlutverki að gegna í:

- málsvörn fyrir að konur fái umönnun fagfólks við fæðingu;

- útbreiðslu þessarar yfirlýsingar til allra meðlima fagfélaga heilbrigðisstarfsfólks, til að greiða fyrir framkvæmd yfirlýsingarinnar;

- fræðslu til almennings um nauðsyn þess að koma í veg fyrir og með­höndla blæðingu eftir barnsburð;

- birtingu yfirlýsingarinnar í fagtímaritum, fréttabréfum og á vefsíðum á starfsvettvangi lækna, ljósmæðra og fæðinga- og kvensjúkdómalækna;

- skoða hvort lagaleg mörk eða aðrar hindranir torveldi fyrirbyggjandi meðferð og rétta meðhöndlun á blæðingu eftir barnsburð;

- taka virka meðferð á þriðja stigi fæðingar inn í klínískar leiðbeiningar og verklagsreglur, eins og við á;

- bæta virkri meðferð á þriðja stigi fæðingar inn í námsefni fyrir allt fagfólk sem kemur að fæðingum;

- samstarfi við lyfjaeftirlit, löggjafa og aðra stefnumótandi aðila til að tryggja að fullnægjandi birgðir af samdráttarörvandi lyfjum og sprautubúnaði séu til staðar.

Meðferð þriðja stigs fæðingar til að varna blæðingu eftir burð

Hvernig nota skal samdráttarörvandi lyf

- Innan mínútu eftir fæðingu barns, ætti að þreifa kviðinn til að útiloka fleiri börn og gefa síðan oxýtósín, 10 einingar, í vöðva. Oxýtósín er æskilegra en önnur samdráttarörvandi lyf af því það er virkt 2-3 mínútum eftir gjöf, hefur lágmarks aukaverkanir og má gefa öllum konum.

- Ef oxýtósín er ekki til staðar, er hægt að nota önnur samdráttarörvandi lyf eins og: ergómetrín 0,2 mg í vöðva, blöndu oxýtósíns og ergómetríns (Synto­metrine®) (1 lykja/ampúlla) í vöðva eða mísóprostól (Cytotec®) 400-600 míkrógrömm gefið um munn. Að­eins ætti að gefa mísóprostól um munn ef aðstæður eru þannig að örugg gjöf og/eða viðunandi geymslu­aðstæður fyrir oxýtósín eða ergó­metrín í sprautuformi eru ekki til staðar.

- Samdráttarörvandi lyf þarf að geyma við réttar aðstæður:

- Ergómetrín: við 2-8 °C, fjarri ljósi og má ekki frjósa.

- Mísóprostól: við herbergishita, í lokuðum umbúðum.

- Oxýtósín: við 15-30 °C, má ekki frjósa.

- Veita skal ráðgjöf um aukaverkanir þessara lyfja.

Varúð! Ekki á að gefa konum með meðgöngueitrun, fæðingarkrampa eða há­an blóðþrýsting ergómetrín eða Synto­metrine® (inniheldur ergómetrín).

Hvernig á að beita stjórnuðu naflastrengstogi

- Klemmið naflastrenginn nálægt spöng (þegar æðasláttur stöðvast í naflastreng heilbrigðs nýbura) og haldið í hann með annarri hendi.

- Setjið hina hendina rétt ofan við líf­bein konunnar og haldið leginu stöðugu með því að beita mótþrýstingi upp á við meðan togað er í naflastrenginn.

- Haldið vægri spennu á naflastrengn­um og bíðið eftir sterkum samdrætti í leginu (eftir 2-3 mínútur).

- Þegar sterkur samdráttur finnst þarf að hvetja móðurina til að rembast og toga mjög gætilega í naflastrenginn, niður á við svo fylgjan fæðist. Haldið áfram að beita mótþrýstingi á legið.

- Ef fylgjan kemur ekki niður á meðan á 30-40 sekúndna stjórnuðu naflastrengstogi stendur, á ekki að halda áfram að toga í naflastrenginn heldur:

- haldið mjúklega í naflastrenginn og bíðið þar til legið dregst vel saman aftur;

- endurtakið stjórnað naflastrengstog með mótþrýstingi í næsta samdrætti.

Notið aldrei naflastrengstog án þess að beita mótþrýstingi fyrir ofan lífbeinið á vel samandregið leg (toga og ýta).

- Þegar fylgjan fæðist, haldið um fylgjuna með báðum höndum og snúið henni varlega þar til snýst upp á belgina. Togið varlega til að ljúka fæðingu fylgjunnar.

- Ef belgirnir rifna, skoðið efri hluta legganganna og leghálsinn varlega með dauðhreinsuðum/sótthreinsuðum hönskum og notið túffutangir til að fjarlægja alla belghluta sem næst í.

- Skoðið fylgjuna vandlega til að vera viss um að ekkert af henni vanti. Ef hluta yfirborðsins vantar eða á henni eru rifnir belgir með æðum, gerið ráð fyrir að fylgjuleifar hafi orðið eftir og grípið til viðeigandi ráðstafana til að staðfesta að leghol sé tómt.

Hvernig beita á legnuddi

- Nuddið samstundis legbotninn þar til legið er samandregið.

- Þreifið til að finna hvort samdráttur sé í legi á 15 mínútna fresti og endurtakið legnudd eftir þörfum fyrstu tvær klukkustundirnar eftir fæðingu.

- Gangið úr skugga um að legið verði ekki slakt (mjúkt) eftir að nuddinu er hætt.

Við alla ofangreinda meðferð þarf að útskýra aðferðir og aðgerðir fyrir konunni og viðstöddum stuðningsaðila/fjölskyldumeðlimum hennar, svo og veita henni hvatningu og stuðning.

Heimildir

1. WHO, UNFPA, UNICEF, World Bank. Mana­g­ing Complications in Pregnancy and Childbirth. WHO/RHR/00.7, 2000.
2. Elbourne DR, Prendiville WJ, Carroli G, Wood J, McDonald S. Prophylactic use of oxytocin in the third stage of labour. In: Cochrane Library, Issue 3, 2003. Oxford. Update Software.
3. Prendiville WJ, Elbourne D, McDonald S. Ac­tive vs. expectant management in the third stage of labour. In: Cochrane Library, Issue 3, 2003. Oxford. Update Software.
4. Joy SD, Sanchez-Ramos L, Kaunitz AM. Miso­prostol use during the third stage of labor. Int J Gynecol Obstet 2003; 82: 143-52.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica