04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Aftur í læknisbústaðnum Brimnesi

Eftir Sigurbjörn Sveinsson

Höfundur var heilsugæslulæknir í Búðardal með hléi 1978-1988. Hann bjó í Brimnesi.

I.

 

Þegar ég gekk í hús þitt,

þá fann ég ekkert nýtt.

Alla klassíkina

hafði ég fyrir löngu lifað.

Vívaldí og vinirnir allir

voru þarna á sínum stað.

Í sprungnum veggjum hússins

ómaði hjal barna minna,

og sporin sá ég,

sem þau stigu í bernsku sinni.

Þá minntist ég meistarans,

sem fóstraði hugsunina

í faðmi trúarinnar:

"Endurtekningin er ekki til."

En úti fyrir

hafði blær vorsins

hrifið burt gamlan kunningja.

Fönnin skildi eftir benjar

í gróandanum.

Sköpunin er endurtekning alls.

(6. júní 1989)

 

 

II.

 

 

Ég settist niður

til að semja ljóð

eins og síðast.

En ljóð er ferðalag

frá einni hugsun til annarrar

eins og allir vita.

Og sálin náði ekki fluginu.

Hún var föst í möskvum gærdagsins,

neti persónulegrar reynslu.

Sú reynsla venjulegs manns

eins og mín

er bæði hversdagsleg

og alþýðlega óspennandi.

Það hefðu orðið örlög þess ljóðs

að vera kastað

á ruslahauga borgaralegrar menningar

eða verða góðskáldum

eins og þér og Gyrði

að gríni.

(2. desember 1990)

 

Læknablaðið birtir hér ljóð formanns LÍ og lætur jafnframt í ljós þá ósk að menn fylgi hans fordæmi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica