04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Hægt að byrja að byggja strax

Eins og fram kemur í greininni hér að framan var efnt til samkeppni um hönnun sýningarhúss fyrir lækningaminjasafnið á árunum 1997-1998. Tvær konur úr stétt arkitekta fengu fyrstu verðlaun en þær voru Ásdís Helga Ágústsdóttir og Sólveig Berg Björnsdóttir í Yrki ehf. Í umsögn dómnefndar um tillögu þeirra segir meðal annars:

"Tengsl byggingarinn­ar við núverandi hús og land eru sérstaklega frumleg og hugvitsamleg. Byggingin er stílhrein og gott framlag nútíma arkitektúrs sem hluti af mannvirkjum staðarins. Hún er samsett úr tveimur formum; einfaldur rétthyrningur stendur sem útvörður að útivistarsvæðinu annars vegar og ávalur, ljós salurinn ásamt anddyri snýr að hinu manngerða umhverfi hins vegar. Tilraun höfunda að tengja útivistarsvæði inn á þak byggingarinnar og um leið draga úr áhrifum hennar af hlaði Nesstofu er látlaus og sannfærandi, auk þess sem þetta gefur byggingunni aukið vægi í umhverfinu, án þess þó að draga úr mikilvægi þessa nýja húss."

Húsið er tæplega 850 fermetrar að grunnfleti. Þar af er aðalsýningarsalur tæplega 500 fermetrar en auk þess eru í húsinu minni salir sem nota má til sýninga og fyrirlestrahalds. Einnig er gert ráð fyrir bókasafni og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn. Á hluta þaksins er hægt að hafa kaffihús og einnig settu höfundar fram hugmynd um að koma þar fyrir lyfjagrasagarði.

Þær Ásdís og Sólveig sögðu í spjalli við blaðamann að þeim þætti vænt um þessa byggingu og vonuðu að hún risi sem fyrst. Ekki væru þær þó alltof bjartsýnar um að af því yrði. Þær eru höfundar Saltfisksetursins í Grindavík sem hefur slegið í gegn og sögðu þær að aðsóknin að því húsi hefði farið fram úr björtustu vonum bæjarstjórnarmanna þar syðra. Engin ástæða væri til að ætla annað en að lækningaminjasafn í fallegu húsi hefði minna aðdráttarafl.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hefjast hand við bygginguna því allar teikningar eru til af henni. Kostnaðurinn stendur eflaust í mönnum. Þó er húsið ekki ýkja dýrt. Áætlun um byggingarkostnað hljóðaði upp á 130 milljónir króna í nóvember síðastliðnum en eflaust yrði endanlegur kostnaður eitthvað hærri ef að líkum lætur.

Höfundar verðlaunatillögunnar með líkan af henni uppi á vegg, Ásdís Helga Ágústsdóttir (tv.) og Sólveig Berg Björnsdóttir.

Að ofan má sjá líkan af Nesstofutorfunni eins og hún liti út ef sýningarhúsið verður reist. Það er næst, hús lyfjafræðinga er til vinstri og Nesstofa fjærst.

Grunnmynd af sýningarhúsinu. Þar er gert ráð fyrir stórum og smærri sýningarsölum, bókasafni, fyrirlestrarsal og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica