04. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Verður byggt yfir lækningaminjasafnið?
Skiptar skoðanir eru á því hverjum beri að reisa hús svo hægt verði að sýna muni safnsins
Að undanförnu hefur þess verið minnst hér í blaðinu og víðar að Jón Steffensen prófessor í læknisfræði hefði átt aldarafmæli í febrúar. Við það tækifæri hefur verið spurt hvað liði þeirri draumsýn Jóns að upp risi öflugt lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er ánafnaði Jón stórum hluta arfs síns til þess að koma lækningaminjasafni á laggirnar en hugmynd hans og fleiri var sú að byggt yrði hús fyrir safnið í næsta nágrenni Nesstofu.
Læknablaðið grennslaðist fyrir um það hvað væri að gerast í þessu máli og komst að því að það er í raun harla lítið. Enginn vill kannast við að bera ábyrgð á því að byggingin rísi og vísar hver á annan.
Læknafélag Íslands fékk erfðafé Jóns til umsýslu og ákvað stjórn þess að höfðu samráði við Þjóðminjasafnið og Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar að verja fénu til kaupa á húsinu Bygggarðar 7 sem er steinsnar frá Nesstofu. Að sögn Sigurbjörns Sveinssonar formanns var sú ákvörðun tekin fyrst og fremst til að koma munum safnsins undir þak svo hægt væri að verja þá fyrir skemmdum.
Húsið var afhent ríkissjóði sumarið 2000 en það hafði kostað 33 milljónir króna. Einnig fylgdu gjöfinni eftirstöðvar af arfi Jóns að upphæð 10,6 milljónir króna og tvær milljónir til viðbótar úr sjóðum Læknafélags Íslands. Átti að verja þessu fé til endurbóta á húsinu. Húsið var innréttað sem geymsla og munir safnsins settir þar inn. Raunar hafa tannlæknar fengið inni í kjallara hússins undir muni sem tengjast sögu tannlækninga.
Áður en þetta gerðist hafði bygginganefnd á vegum menntamálaráðuneytis efnt til samkeppni um hönnun nýbyggingar fyrir safnið skammt frá Nesstofu og er fjallað um það í næstu opnu blaðsins.
Hver á að byggja?
Eftir að LÍ hafði afhent ríkinu Bygggarða 7 gerðist fátt í málefnum safnsins og á aðalfundi skömmu eftir afhendinguna var samþykkt ályktun þess efnis að félagið legði ekki meira fé til Nesstofusafns að svo stöddu. Jafnframt er stjórninni falið að biðja Seltjarnarnesbæ að halda lóðinni til haga. Þetta gerir stjórnin en ári síðar kemur í ljós að bæjaryfirvöld á Seltjarnarnes túlka bréf félagsins þannig að fallið sé frá byggingu safnhúss á lóðinni. Þess í stað er samþykkt í bæjarstjórn að reisa hjúkrunarheimili á lóðinni.
Síðan hefur raunar ekkert áþreifanlegt gerst í málefnum safnsins. Að vísu gufuðu áætlanir um byggingu hjúkrunarheimilis á þessum stað upp og núverandi bæjarstjóri, Jónmundur Guðmarsson, staðfesti í samtali við blaðið að lóðin væri enn til reiðu ef einhver vildi byggja á henni safnhús.
Lækningaminjasafnið er hluti af Þjóðminjasafninu og það ætti að vera í verkahring þess að reisa hús yfir það. Staðan er sú að þótt Nesstofa sé hið mætasta hús og merkileg bygging þá er hún ekki vel fallin til sýninga á öðru en sjálfri sér. Nútíminn gerir kröfur til þess að rúmt sé um sýningargripi og safngesti og þess vegna var efnt til áðurnefndrar samkeppni um byggingu húss sem rúmað gæti sýningarsal, bókasafn og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn.
En hver á að byggja húsið? Um það eru deildar meiningar. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður vill ekki kannast við að neitt standi upp á Þjóðminjasafnið í þessu efni. Hlutverk og skyldur safnsins takmarkist við að varðveita eigur safnsins og halda við og starfrækja Nesstofu. Safnið hefði enga fjármuni til að standa í nýbyggingum. Í spjalli við Læknablaðið sagði hún að það væri í verkahring Seltjarnarnesbæjar að byggja nýtt sýningarhús.
Ekki vildi Jónmundur bæjarstjóri fallast á þetta sjónarmið. Hann sagði að fjármagnið til nýbyggingar hlyti að koma frá Þjóðminjasafninu, það hefði aldrei komið til tals að Seltjarnarnesbær legði fjármagn í slíkt hús.
Jón tók upp veskið
Jónmundur bætti því við að bærinn hefði gert samning við Þjóðminjasafnið haustið 2003 um endurbætur á Nesstofu. Samkvæmt honum tæki bærinn að sér að lagfæra umhverfi hússins en safnið sæi um endurbætur á húsinu. Samkvæmt samningnum á að verja tæplega 50 milljónum króna til þessara framkvæmda og skiptist það nokkurn veginn jafnt á bæinn og safnið. Búið er að hanna umhverfi safnsins og voru tillögur arkitekts um það samþykktar í bæjarstjórn skömmu fyrir jól. Verður væntanlega hafist handa um framkvæmdir utanhúss nú á vordögum.
Þorsteinn Gunnarsson arkitekt stjórnar hins vegar endurbótum innanhúss og sagði hann í samtali við Læknablaðið að verkefnið væri að ljúka því sem eftir var af húsinu. Það er austurhelmingur hússins þar sem íbúð Bjarna landlæknis var, stofa, eldhús, svefnherbergi, forstofa með stiga upp á loft og loftið sjálft en til stæði að innrétta tvö herbergi í suðurenda þess.
Þorsteinn sagði að unnið væri eftir þriggja ára áætlun, nú væri fyrsta árið búið en verkinu lyki í árslok 2006. Þá yrði allt húsið komið sem næst í upprunalegt horf.
Til gamans má geta þess að Þorsteinn stjórnaði á sínum tíma fyrri hluta endurbóta á Nesstofu. Þá var Jón Steffensen á lífi og fylgdist með framkvæmdum. ?Hann vakti yfir mér og gaf mér góð ráð,? segir Þorsteinn. ?Og ár eftir ár gerðist það þegar framlag ríkisins var uppurið að Jón tók upp veskið og borgaði það sem upp á vantaði úr eigin vasa svo hægt væri að halda áfram að vinna.?
Bygggarðar 7 sem Læknafélag Íslands keypti fyrir arf Jóns Steffensen og færði Þjóðminjasafninu að gjöf.
Í verðlaunatillögunni er gert ráð fyrir að nýbyggingin rísi þar sem örin bendir neðan við hólinn sem mun vera gamall sorphaugur.
Í geymslunni í Bygggörðum fer ágætlega um muni safnsins meðan þeir bíða þess að hægt sé að sýna þá almenningi.