04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Verða alþjóðleg læknaþing árviss viðburður?

Arnór Víkingsson um framtíð Fræðslustofnunar lækna

Á Læknadögum í janúar urðu formannsskipti í Fræðslustofnun lækna. Arnór Víkingsson sem gegnt hefur embættinu í fjögur ár lét af því og við tók Arna Guðmundsdóttir. Læknablaðið náði tali af Arnóri í tilefni af þessum tímamótum og bað hann að líta yfir farinn veg ásamt því að spá í framtíðina. Fyrst var hann spurður hvað honum fynd­ist standa upp úr í starfinu þessi fjögur ár og það kemur eflaust engum á óvart að hann nefndi vöxt og viðgang Læknadaga.

"Við höfum lagt mikla áherslu á Læknadaga því þar sjáum við tækifæri til að tengja saman fræðslu og félagsstarf lækna. Þetta hafa verið virkilegir læknadagar í víðustu merkingu þess orðs þar sem í boði er fræðsla á sviði hreinnar læknisfræði, lækna­pólitíkur og heilbrigðismála og svo skemmtanalíf þar sem árshátíð LR hefur verið hápunkturinn. Við vitum að læknar eru önnum kafnir og hversu erfitt er að fá þá til að taka þátt í umræðu, hvort sem er fræðilegri eða annarri. Það er hins vegar reynsla okkar af að halda aðalfundi LÍ ýmist í höfuðborginni eða á landsbyggðinni að síðarnefndu fundirnir eru oftast betri því þá á samkoman óskipta athygli manna. Stemmningin verður líka skemmtilegri.

Svipað má segja um ráðstefnur utanlands. Markmið okkar hefur því verið að skapa svipaðan anda og menn upplifa á erlendum læknaþingum. Við viljum að læknar taki þátt í þessu með því að draga úr annarri starfsemi sinni eins og mögulegt er. Þá verður þátttakan góð og notagildið mikið."

- Og finnst þér þetta vera að lukkast?

"Ég held að á hverju ári nálgumst við þetta um eitt hænufet. Það hefur orðið viðhorfsbreyting hjá læknum hvað Læknadaga varðar. Þeir byrjuðu sem fræðsludagar fyrir unglækna, heimilislæknar komu fljótlega inn í þá en aðrir sérfræðingar voru seinir að taka við sér. Það er þó að breytast og nú orðið fæ ég oft þau viðbrögð frá sérfræðingunum að Læknadagar séu að verða alvöruþing. Þátttakan hefur líka vaxið en hún er lykillinn að því að gera dagana öflugri. Því fleiri sem sækja Læknadaga þeim mun fyrr nálgast þeir að verða alvöruþing."

- Fjölmiðlarnir og samfélagið hafa líka veitt Læknadögum meiri eftirtekt síðustu árin.

"Já, það er rétt og það er miklu betri aðferð til að bæta ímynd lækna en kjaramál sem vilja einkennast af átökum við stjórnvöld. Við teljum eðlilegt að láta almenning vita af því sem er að gerast í fræðunum og þess vegna höfum við sent fréttatilkynningu til fjölmiðla og boðið þeim að taka þátt í Læknadögum."

Skráning símenntunar brýnt verkefni

Fræðslustofnun lækna fæst við fleira en að skipuleggja Læknadaga. Meðal þess sem stofnunin hefur glímt við undanfarin ár er að efla símenntun og koma á samræmdri skráningu á þátttöku lækna í henni. Hvernig hefur því starfi miðað?

"Það verður nú að segjast eins og er að skráning símenntunar er sá málaflokkur sem ég hef orðið fyrir mestum vonbrigðum með. Við settum þetta mál á oddinn þegar ég tók við formennskunni en því hefur miðað alltof hægt. Ég vil taka fram að íslenskir læknar eru mjög duglegir við að viðhalda þekkingu sinni og stunda símenntun. Hins vegar erum við Íslendingar aftarlega á merinni hvað varðar skráningu þessarar menntunar.

Víðast hvar í löndum Evrópusambandsins, að Norðurlöndum frátöldum, er skráning símenntunar orðin að skyldu, hún er komin í lög. Það hafa þó ekki verið sett nein viðurlög við því að vanrækja skráningu en að því mun koma. Við erum hins vegar orðin þátttakendur í sameiginlegum vinnumarkaði og við það eykst þörfin á að vita hver staða þeirra lækna er sem koma frá öðrum löndum. Hvernig standa þeir að vígi? Eru þeir með lækningaleyfi og hafa þeir sinnt símenntun? Þetta kallar á samræmda skráningu.

Fyrir nokkrum árum skipaði stjórn Læknafélags Íslands nefnd til að semja reglur um skráningu sí­mennt­unar. Í nefndinni voru meðal annars full­trú­ar Læknaráðs Landspítala, landlæknis og heilsu­gæsl­­unnar. Nefndin skilaði af sér áliti á aðal­fundi LÍ 2003. Í framhaldi af því skrifuðum við Sig­urbjörn Sveinsson formaður LÍ bréf til nokkurra sérgreina­félaga og buðum þeim þátttöku í mót­un tillagna en fengum afar dræmar undirtektir. Það held ég að sýni hversu skammt á veg íslenskir læknar eru komnir í að hugsa þessi mál. En þetta mun koma og staðreyndin er sú að ef læknar sinna þessu ekki er eins víst að alþingi setji lög sem yrðu okkur ekki endilega mjög geðfelld. Það er miklu betra að við setjum okkar eigin reglur.

Málið er í biðstöðu en ég held að það þurfi ekki mikið til að hrinda þessu af stað. Við vorum búin að leggja drög að skráningarkerfi sem geðlæknar, heimilislæknar og lyflæknar höfðu áhuga á að prófa en af því hefur ekki orðið enn. Við eigum eftir að ákveða hvað á að skrá og hvernig á að skrá upplýsingarnar en kerfið verður að vera einfalt í notkun, helst sjálfvirkt, því reynslan sýnir að læknar eru ekki mjög duglegir við að halda utan um þessar upplýsingar sjálfir."

- Eru menn ekki að láta það þvælast fyrir sér að erlendis hafa verið farnar ólíkar leiðir í skráningu símenntunar?

"Jú, það eru til ýmsar aðferðir en nú er Fé­lag sérfræðilækna Evrópusambandsríkja búið að smíða beinagrind að skráningarmatinu og í Brussel var komið á fót stofnun til að halda utan um alþjóðlegan hluta þessarar skráningar. Kerfið gerir svo ráð fyrir því að hvert aðildarríki sjái um eigin skráningu. Þarna hefur verið unnin töluverð forvinna svo þetta á ekki að taka mikinn tíma. Það vantar vilja og ákvörðun um það hvernig standa beri að skráningu. Ég aðhyllist sjálfur þá leið að skráning fari fram í farsíma, það yrði áhrifaríkasti og auðveldasti mátinn."

Fyrirmyndarstofnun

Arnór er bjartsýnn á framtíð Fræðslustofnunar lækna. "Ég er á því að stofnunin hafi alla burði til að verða fyrirmyndarstofnun sem gegnir veiga­miklu hlutverki fyrir lækna. Þá á ég við að hún haldi utan um fræðslustarfsemi og skráningu símenntunareininga. Hún getur átt samvinnu við Háskóla Íslands og Landspítala en frumkvæðið á að vera hjá Fræðslustofnun enda hefur hún fjárhagslega burði til að hrinda ýmsu í framkvæmd sem aðrir geta ekki. Það sem þarf til er vinnuafl því við núverandi aðstæður er varla gerlegt að auka starfsemina. Það þarf að íhuga hvort ekki sé rétt að launa formennsku í stofnuninni að einhverju leyti og einnig að auka við skrifstofustarfið sem Margrét Aðalsteinsdóttir gegnir í hlutastarfi.

Eitt af því sem við höfum gengið með í maganum en ekki komið í framkvæmd er að setja á stofn alþjóðleg sumarþing sem yrðu árlegur viðburður hér á landi. Tilgangurinn með slíku þinghaldi yrði tvíþættur, annars vegar að gefa sérgreinafélögum lækna og öðrum hópum lækna kost á því að halda alþjóðleg fræðsluþing, hins vegar væri með þessu hægt að afla fjár til annarrar fræðslustarfsemi.

Eftirspurn eftir símenntun hefur aukist verulega á alþjóðavettvangi og það sér ekki fyrir endann á þeirri aukningu. Sumarþingin þyrfti að auglýsa meðal evrópskra lækna en þar gætu komið saman 100-200 læknar og aflað sér viðurkenndra símenntunarpunkta. Við sjáum fyrir okkur að hér gæti til dæmis verið lyflæknaþing á hverju ári sem sérgreina­félögin skiptust á um að halda tvö og tvö í senn. Hagnaður af þingunum rynni til Fræðslustofnunar og viðkomandi sérgreinafélaga. Þingin yrðu haldin undir einu heiti en verkaskiptingin yrði sú að Fræðslustofnun tæki fjárhagslega ábyrgð á þinghaldinu og sæi um skrifstofuaðstöðu, sérgreinafélögin sæju um fræðsluna og faglega þáttinn en svo yrði samið við ferðaskrifstofu um bókanir og slíkt.

Okkur sýnist að það þurfi ekki nema 50 læknar að sækja svona þing til þess að það standi á sléttu, allt umfram það væri hagnaður. Þessi þing geta dregið að sér ferðamenn enda er það reynsla lækna að norræn læknaþing eru aldrei betur sótt en þegar þau eru haldin hér á landi. Þá vilja allir koma og helst bæta nokkrum dögum við til að skoða landið í leiðinni.

Mér finnst brýnt að Fræðslustofnun sinni þessu því að öðrum kosti er hætta á að erlend fyrirtæki og stofnanir leggi þennan markað undir sig. Það hafa þegar borist fyrirspurnir frá bandarískum fyrirtækjum sem hafa áhuga á að halda almenn fræðsluþing hér á landi enda erum við vel í sveit sett mitt á milli Evrópu og Ameríku. En ef erlend fyrirtæki taka þetta að sér færi hagnaðurinn út úr Fræðslustofnun.

Þetta er verkefni sem Arna Guðmundsdóttir og samstarfsmenn hennar munu skoða nánar og leiða til lykta," segir Arnór Víkingsson sem segist nú ætla að taka sér frí frá félagsstörfum lækna eftir hartnær tíu ára störf, fyrst í stjórn LÍ og síðan í Fræðslustofnun lækna.

Arnór Víkingsson á svölum B-álmunnar í Fossvogi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica