04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Povl Riis í 49. Íslandsheimsókn sinni

Povl Riis er íslenskum læknum að góðu kunnur, hann stýrði danska læknablaðinu um árabil, hefur tekið þátt í ýmsum félagsmálum lækna og lagt hönd á plóg við leit að svörum við siðfræðilegum álitamálum. Povl gerði stuttan stans á Íslandi nú í mars, að eigin sögn var það í 49. sinn sem hann steig fæti á íslenska jörð og taldi hann að þessi tíðni heimsókna hans til landsins gæfi sterklega til kynna hversu illa haldinn hann væri af Íslandsveirunni sem væri nota bene ólæknandi. Hann er annars eins og unglamb á vori, fæddur 1925.

Læknafélag Íslands og öldungadeild félagsins buðu sameiginlega til fundar með Povl í húsakynnum lækna­félaganna að Hlíðasmára 8. Povl ræddi stuttlega um sín hugðarefni sem snúast nú æ meira um eldri borgara, einkum eldri lækna, og hvernig koma megi í kring farsælli skilum milli vinnu­dags og eftirlaunaaldurs. Hann sýndi fram á hinar afgerandi lýðfræðilegu breytingar sem eru í deiglunni, jarðarbúum fjölgar hratt, tala eftirlaunafólks stígur og öll viðmið fara á flot. Á Vesturlöndum og í Skandinavíu verður fyrst vart þeirra breytinga í mannfjöldapýramídanum að hann gildnar efst, eldri borgarar sem voru ekki alls fyrir löngu að fjölda 1:4 miðað við starfandi vinnu­kraft eru nú 1:2,5. Og í Danmörku er þegar farið að örla á skorti á sérfræðilæknum, 700 stöður lausar, og spár segja að árið 2020 muni skorta mannskap í 2000 slíkar stöður. Stór hluti starfandi danskra lækna er sirka 58 ára og eftirlaunaaldur þeirra er við 63 ára aldur. Þetta er til marks um stórfelldar breytingar á aldurssamsetningu þjóðar og fjölda á vinnu­markaði.

Povl benti á nokkrar leiðir til að milda þetta: afnema föst aldurs­viðmið til eftirlauna en halda eftirlaunarétti við ákveðinn aldur þannig að 63 ára gamlir læknar hefðu rétt til að velja að halda vinnu sinni að gefnum skilyrðum, setja á laggirnar nýjar laun­að­ar stöður, til dæmis 15-10 stund­ir í viku og eins til tveggja ára vinnu­samninga. Hann rakti helstu niður­stöður skoskrar rannsóknar með­al lækna um vilja þeirra til að vinna eftir að eftirlaunaaldri er náð. - Gestir fundarins voru ánægðir með boðskap Riis og köppuðu honum lof í lófa. Meðfylgjandi myndir voru teknir við umrætt tækifæri.

VS

Á efstu myndinni stendur Povl Riis undir styttu af lífverði Danadrottningar sem Læknablaðið fékk að gjöf frá danska læknablaðinu. Til vinstri er Tómas Árni Jónasson að rekja feril Povls og hér að ofan fylgjast fundargestir með, meðal annars Ingvar E. Kjartansson, Tómas Helgason og Páll Gíslason.Þetta vefsvæði byggir á Eplica