04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Úrskurður samkeppnisráðs

Rannsóknarþjónusta "ekki í frjálsri samkeppni"

Eins og fram hefur komið hér í blaðinu kærði Rannsóknastofan í Mjódd til Samkeppnisstofnunar þá ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að endurnýja ekki samning um rannsóknir í blóð- og meinefna­fræði sem stofan hafði um árabil annast fyrir heilsu­gæslustöðvarnar í Mjódd og Grafarvogi. Þess í stað gerði Heilsugæslan í Reykjavík samning við Rannsóknarstofnun Landspítala um að vinna þessar rannsóknir. 18. febrúar síðastliðinn felldi Samkeppnisráð þann úrskurð að ekki sé "ástæða til að aðhafast frekar vegna máls þessa" eins og þar segir.

Niðurstaða Samkeppnisráðs er sú að ekki hafi verið brotin samkeppnislög með samningi Heilsu­gæslunnar og Landspítalans þótt ekki hafi farið fram neitt útboð eða Rannsóknastofunni í Mjódd á annan hátt gefinn kostur á að bjóða í verkið. Álit sitt byggir ráðið á því að báðar stofnanirnar - Heilsugæslan í Reykjavík og Landspítalinn - séu í eigu ríkisins og að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu sé það á valdi og ábyrgð ráðherra að "grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu" eins og segir í 42. gr. laganna. Þessi lög ganga að mati ráðsins framar ákvæðum samkeppnislaga og því sé það "á valdsviði heilbrigðisyfirvalda að ákveða hvort eða í hve miklum mæli þau kaupa tiltekna rannsóknarþjónustu af einkaaðilum".

Lokaorð úrskurðarins eru þau að samkeppnisráð meti það svo að starfsemi Rannsóknarstofnunar Landspítalans "er lýtur að rannsóknum fyrir heil­brigð­isyfirvöld í landinu, teljist ekki í frjálsri sam­­keppni við aðrar rannsóknarstofur. Skorti því laga­­heimild til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað".

Þessi niðurstaða samkeppnisráðs kom til umræðu á almennum fundi í LR í byrjun mars og voru menn á því að þessu máli væri alls ekki lokið. Nú verður úrskurði ráðsins skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og því rétt að bíða með allar yfirlýsingar þar til niðurstaða hennar liggur fyrir.

-ÞHÞetta vefsvæði byggir á Eplica