04. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Öflug læknafélög heimsótt

LÍ gerði út leiðangur til að kynna sér kjarasamninga og starfsemi læknafélaga í Noregi og Svíþjóð

Í lok febrúar gerði Læknafélag Íslands út þriggja manna sendinefnd til að kynna sér kjaramál og starfsemi læknafélaganna í Noregi og Svíþjóð. Þar voru á ferð Sigurður E. Sigurðsson stjórnarmaður í LÍ og formaður samninganefndar sjúkrahússlækna, Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri og Guðbjartur Ellert Jónsson hagfræðingur lækna­samtakanna. Læknablaðið náði tali af Sigurði og spurði hann hvað honum hefði þótt athyglisverðast af því sem fyrir augu og eyru bar í ferðinni.

"Það sem helst blasti við var stærðarmunurinn því félögin sem við heimsóttum hafa tugi þúsunda lækna innan sinna vébanda og á annað hundrað manns í vinnu, hvort félag. Læknafélögin eru öflug fyrirtæki eða stofnanir og í Noregi rekur félagið umfangsmikla fjármálastarfsemi til viðbótar við hefðbundna starfsemi stéttarfélags. Það kemur raun­ar til af því að umsjón með námsleyfum norskra lækna er samkvæmt kjarasamningum í höndum félagsins en ekki stjórnenda á vinnustöðum lækna eins og hér er raunin. Mér finnst umhugsunarvert hvort við ættum ekki að taka upp samskonar kerfi því það tryggir meira réttlæti og samræmi í réttindum lækna en þegar námsleyfi eru ákveðin á hverjum vinnustað.

Norrænu félögin hafa nýtt þennan styrk sinn til að koma sér upp hópi atvinnumanna í gerð kjarasamninga. Hún fer þannig fram að samninganefnd lækna er einskonar baknefnd en atvinnumennirnir, hagfræðingar og lögfræðingar, sjá um samningsgerðina. Þetta hefur ýmsa kosti, svo sem að með þessu skapast meiri festa og samfella í samningsferlið, það þarf ekki að byrja á byrjuninni í hvert sinn sem skipt er um menn í samninganefndinni. Auk þess verður samningsgerðin öll faglegri. Það má segja að við séum komin með vísi að þessu fyrirkomulagi með því að hafa þá Gunnar og Bjart í vinnu," sagði Sigurður.

Velheppnuð kerfisbreyting

Margt er ólíkt í kjarasamningum lækna hér á landi og á Norðurlöndum enda uppbygging heilbrigðis­kerfisins hvergi eins. "Norðmenn eru nýbúnir að ganga í gegnum mikla uppstokkun á kerfinu eftir að þeir komu á því sem þeir kalla "fastlægeordning" árið 2001. Breytingin virðist hafa gengið vel því viðvarandi skortur á læknum, einkum heimilislæknum, er að heita má úr sögunni. Auk þess hefur kerfið dregið verulega úr óhóflegu vaktaálagi sem ríkir víða meðal lækna. Mér finnst ástæða til þess að við horfum til þeirra hvað uppbyggingu heilbrigðiskerfisins varðar en það er ljóst að það þarf mikinn pólitískan styrk til að gera svona umfangsmiklar kerfisbreytingar.

Ýmis vandamál eru þó svipuð hjá okkur og þeim. Það á til dæmis við um vinnutímatilskipun Evrópusambandsins en um alla álfuna hafa læknar verið að glíma við að endurskoða vinnutilhögun sína í ljósi hennar. Norðmenn eru komnir lengra í því en við og þeir virðast hafa reynt að forðast miðlægar fyrirskipanir um vinnutímann. Þess í stað er mönnum gefinn kostur á að leysa málin staðbundið og heilbrigðisstjórnin hefur engin afskipti af samningum nema allt fari í hnút. Þeir eru hins vegar búnir að fella unglækna undir vinnutímatilskipunina en eins og kunnugt er eru þeir undanþegnir henni hér á landi. Það er okkur til skammar en vonandi tekst að leysa þau mál í næstu kjarasamningum.

Í Noregi er kveðið á um vaktafyrirkomulag í kjarasamningum og þeir hafa lagt töluverða vinnu í að gera vaktakerfið sveigjanlegt, meðal annars með því að veita mönnum svigrúm til að túlka kjarasamninga staðbundið. Þetta hefur kostað mikla vinnu en útkoman er aukin hagkvæmni og rýmri möguleikar lækna til að leysa málin hver á sínum stað."

Læknanemar í félögunum

Sigurður segir að launa- og samningamál sænskra lækna séu talsvert frábrugðin því sem gerist í Noregi og hér á landi. "Kjarasamningarnir eru í mörgum lögum. Einn er fyrir alla opinbera starfsmenn og líkist mest lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Svo eru sérsamningar fyrir ýmsa hópa lækna, sjúkrahúslækna, heilsugæslulækna, lækna sem starfa eingöngu við háskóla og lækna í einkarekstri, svo dæmi séu nefnd. Launa­upp­lýs­ingar virðast líka vera talsvert gegnsærri en við eigum að venjast. Það er auðvelt að verða sér út um upplýsingar um laun lækna eftir stofnunum, deildum og svæðum. Þeir gæta að sjálfsögðu fullr­ar persónuverndar en ef ég væri að sækja um stöðu á tiltekinni sjúkrahúsdeild gæti ég hringt í stéttarfélagið á staðnum og fengið upplýsingar um hvað fimm síðustu læknar sem ráðnir voru á deild­ina hafi fengið í laun. Þetta gengi aldrei í Noregi eða hér á landi.

Ég vil líka nefna það að í báðum löndunum er læknanemum boðin aðild að læknafélögunum strax á fyrsta ári. Þátttaka þeirra er ekki mikil fyrstu árin en eftir að þeir hefja starfsnám fer þeim ört fjölgandi því læknafélögin semja um launin þeirra meðan á námi stendur. Þetta finnst mér athugandi fyrir okkur því læknanemar eru afar virkur og öflugur hópur."

Sigurður var ánægður með ferðina sem hann sagði hina gagnlegustu enda væri nú stefnt að því að taka upp reglulegt samstarf við norrænu samn­inganefndirnar.

"Samninganefndir norrænu læknafélaganna hafa um langan aldur hist einu sinni á ári og borið saman bækur sínar. Þetta þykir sjálfsagt mál þegar vinnu­markaðurinn er orðinn einn og réttindi í einu landi veita réttindi í öllum hinum. Af einhverjum ástæðum hafa íslenskir læknar ekki tekið þátt í þessu samstarfi í fjölda ára en í ljósi þess hversu miklar upplýsingar við fengum í þessari ferð höf­um við ákveðið að taka þátt í norrænu samstarfi hér eftir. Fyrsti fundurinn verður í Svíþjóð í haust og þangað mun félagið senda fulltrúa," sagði Sig­urð­ur E. Sigurðsson formaður samninganefndar sjúkra­hússlækna.

Læknasamtökin í Noregi og Svíþjóð eru öflug og búa vel. Að ofan má sjá hús norska félagsins en þess sænska hér við hliðina. Húsin standa í hjarta höfuðborganna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica