04. tbl. 91. árg. 2005

Íðorð. Meira nöldur

Á milli ára

Loks má nefna að það hefur verið býsna áberandi undanfarið hjá læknum og læknanemum að talað er um fjölgun eða fækkun í hópi tilfella "á milli ára" eða "á milli sjúklingahópa". Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu er atviksorðið milli notað um hreyfingu frá einum stað til annars (skipið siglir milli staða) og tiltekna afstöðu (bærinn stendur milli hæðanna) eða um tíma (vikan milli jóla og nýárs). Ekkert af þessu á hér við. Hvorki er nokkur afmarkaður tími milli ára, né eru sjúklingar milli sjúklingahópanna sem til rannsóknar eru.

Holdastuðull

Hugtakið body mass index er meðal annars notað í næringarfræði til að gefa til kynna hvort líkamsþyngd er hæfileg miðað við líkamslengd. Líkamsþyngdarstuðull er það heiti sem oftast hefur verið gripið til. Stuðullinn er þannig reikn­aður að líkamshæð í metrum í öðru veldi (m2) er deilt í líkamsþyngdina í kílóum (kg/m2). Stuðull á bilinu 20-25 kg/m2 lýsir kjörþyngd og gefur til kynna að orkuneysla og orkueyðsla séu í jafnvægi, þannig að hætta á hinum svonefndu ofneyslusjúkdómum sé í lágmarki. Undirritaður heyrði nýlega notað heitið holdastuðull um þetta fyrirbæri og hreifst af. Holdastuðullinn gefur augljóslega til kynna í hvernig holdum menn séu, þó "góð hold" samkvæmt íslenskri málvenju, séu ekki endilega heilbrigðisfræðilega ákjósanleg.

Rifja má svo upp að nafnorðið hold hefur fleiri en eina merkingu. Í Íslenskri orðabók Eddu er það sagt merkja kjöt, en dæmin, sem tekin eru um notkun þess í orðasamböndum, sýna að það nær einnig til fituvefja. Að vera í góðum holdum merkir að vera feitur og að ganga úr holdum merkir að leggja af, megrast.

Unknown primary

Sigurður Björnsson, krabbameinslæknir, hringdi og sagðist vera að fást við enska heitið un­known primary í samsetningunni metastasis from un­known primary [site]. Honum fannst þau íslensku heiti, sem fram hafa komið, heldur stirðleg: mein­varp frá óþekktu frumæxli og meinvarp frá óþekktu frumseti. Hann lagði til þrísamsetta heitið dultogamein.

Kvenkynsnafnorðið dul táknar leynd. Í samsetningum er það gjarnan notað um það sem er leynilegt, leyndardómsfullt eða yfirnáttúrulegt, svo sem dulmál og dulspeki. Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu merkir karlkynsnafnorðið togi þráður, kemba, ullarkemba, lyppa. Orðasambandið af sama toga er notað til að tákna það sem er af sama uppruna eða sama eðlis. Hvorugkynsnafnorðið mein er svo sjúkdómur eða veikindi, oft notað í samsettum heitum til að tákna staðbundna meinsemd frekar en almenn veikindi. Dultogamein er þannig meinsemd af óþekktum uppruna (strangt til tekið ekki endilega krabbamein!).

Dulkrabbamein

Í kjölfar þessarar umræðu rifjaðist upp að áður hefur verið fjallað um fyrirbærið occult carcinoma, klínískt ógreint frumæxli með greindum meinvörpum. Bjarni heitinn Bjarnason, fyrrum formaður Krabbameinsfélags Íslands, bjó á sínum tíma til heitið huldukrabbamein (Læknablaðið 2000; 86: 64), undirritaður setti fram tillöguna dulkrabbamein í tengslum við umfjöllunina (Læknablaðið 2000; 86: 711) og Íðorðasafn lækna geymir heitið leynikrabbamein (Læknablaðið 2000; 86: 803). Ef til vill má sameina tillögur okkar Sigurðar í heitinu dulkrabbamein til að nota um frumkrabbamein á óþekktum stað.

Agonist

Jóhann M. Lenharðsson, lyfjafræðingur, sendi tölvupóst og sagðist um árabil hafa notað heitið örvi sem þýðingu á agonist þegar um væri að ræða efni sem verkaði örvandi um viðtaka, viðtakaörvi. Til samræmis hafði hann sett í notkun heitið andörvi um efni sem hindraði verkun með því að bindast viðtaka. Það heiti sagði hann þó ekki hafa fengið góðar undirtektir. Í staðinn hefðu komið fram heitin blokki, um efni sem koma í veg fyrir áverkun, hemill, um efni sem draga úr verkun ens­íms, og loki, um efni sem loka jónagöngum. Þessu er hér með komið á framfæri.

Þetta eru allt lipur heiti, en undirritaður getur þó ekki látið hjá líða að lýsa þeirri skoðun sinni að verki sé einnig lýsandi og gott almennt heiti fyrir agonist, efni sem verkar á viðtaka.

Antagonist

Ólafur Ingimarsson, læknir, sendi tölvupóst frá Svíþjóð og stakk upp á heitinu verji (sbr. Rómverji) sem samheiti fyrir efni sem koma í veg fyrir verkun um viðtaka. Hann sá þannig fyrir sér heitið viðtaka­verji til að nota um efni sem verja viðtaka fyrir verkun annarra efna. Æskilegt væri að "prófa" þessi heiti í talmáli og textum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica