03. tbl. 91. árg. 2005
Umræða og fréttir
Menning og meinsemdir
- aldarminning Jóns Steffensen prófessors 1905-2005
Um miðjan febrúar síðastliðinn var haldið tveggja daga málþing í Þjóðarbókhlöðunni í minningu Jóns Steffensen og endurspeglaði það afar fjölbreytt og víðfeðm viðfangsefni og áhugamál hans. Jafnframt var opnuð í anddyri safnsins sýning til heiðurs Jóni og konu hans, Kristínu Björnsdóttur. Myndir, bréf, bækur og ýmsir munir úr eigu hjónanna prýða sýninguna, skrifborð hans og útsaumaður stóll, koffort og ýmis mælingatæki. Jafnframt lánaði Þjóðminjasafn gripi til Bókhlöðunnar sem tengjast mannfræðirannsóknum Steffensens. Sýningin stendur til 10. apríl og er öllum opin.
Menning og meinsemdir: rýnt í bein, farsóttir, læknisfræði og lýðsögu Íslendinga hét málþingið. Fyrri dag þingsins rakti Hrafnkell Helgason ævi og störf Jóns, formaður LÍ ræddi meðal annars gjöf Jóns til félagsins og Andy Cliff, gestafyrirlesari í landafræði í Cambridge, benti meðal annars á nýjar skilgreiningar samtíðarinnar á fjarlægðum og tíma sem kölluðu á ný landakort vitundarinnar í það minnsta.
Á laugardegi var messað allan daginn, læknar, sagnfræðingar, fréttamaður, bókmenntafræðingur, fornleifafræðingur, mannfræðingur og tannlæknar - allir höfðu einhvern snertiflöt við Steffensen, þennan feiknalega risa í fræðunum sem hefur greinilega þegar í lifanda lífi gnæft yfir samtímamenn sína í einurð og festu vísindamannsins og í fjölbreytileika rannsóknarefna sinna sem er nær því af nýrómantískum ofmenna-toga.
Að undirbúningi þessa merkilega þings unnu Kristín Bragadóttir, Örn Bjarnason, Gísli Pálsson, Agnar Helgason, Jökull Sævarsson, Emilía Sigmarsdóttir og Sigurður Örn Guðbjartsson. VS
Hrafnkell Helgason lungnalæknir rakti æviferil Jóns og minntist með nokkrum hryllingi Gray's Anatomy sem liggur opin á skrifborði Jóns hér að neðan til vinstri.
Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur ræddi um bein Jóns Arasonar biskups og brá meðal annars upp mynd af rússneskri stúlku að virða fyrir sér typpið af Raspútín á safni í Moskvu.