03. tbl. 91. árg. 2005

Umræða og fréttir

Að miðla þekkingu milli lækna

Hringborðsumræður um hlutverk og stöðu Læknablaðsins í bráð og lengd

Í tilefni af níutíu ára afmæli Læknablaðsins var ákveðið að kalla saman þá sem mest hafa unn­ið að útgáfu blaðsins síðasta aldarfjórðunginn og gott betur. Tilgangurinn var að spjalla sam­an um Læknablaðið í fortíð, nútíð og framtíð. Þátttakendur í spjallinu voru Örn Bjarnason sem var ritstjóri blaðsins frá 1976-93, Sigurjón Jó­hanns­son sem var fyrsti blaðamaðurinn sem vann við blaðið, Jóhannes Tómasson og Birna Þórðardóttir sem voru ritstjórnarfulltrúar samtals í rúma tvo áratugi og núverandi ritstjóri, Vilhjálmur Rafnsson sem gegnt hefur starfinu frá 1993, og ritstjórnarfulltrúi, Védís Skarphéðinsdóttir. Um­ræðum stjórn­aði Þröstur Haraldsson og er hann jafnframt skrá­setjari.

Fyrst var rætt um stöðu blaðsins eins og hún var þegar Örn og Sigurjón komu til skjalanna árið 1976. Hún var heldur bágborin því langt gat liðið á milli blaða. Hvað olli?

Örn: Það var tvennt að. Annað var verðbólgan sem var mikil. Það gekk illa að innheimta og krafa sem stofnað var til í janúar en innheimtist ekki fyrr en í desember hafði rýrnað verulega. Hitt var að prentsmiðjan sem skipt hafði verið við frá upphafi eða í sextíu ár var orðin illa búin tækjum og í vondu húsnæði. Það var ekki hægt að breyta neinu, myndvinnsla var mjög dýr og takmarkanir á því sem hægt var að gera. Aðstöðuleysið var algert því við fengum ekki skrifstofu hjá félaginu fyrr en sex eða sjö árum síðar. Vinnan við þetta fór yfirleitt þannig fram að við hittumst heima hjá Sigurjóni á laugardögum og lögðum undir okkur stofuborðið. Svo var þetta flutt á milli í umslögum og töskum.

Sigurjón: Ég kom þannig til að við Örn erum gamlir bekkjarbræðir og vinir og hann kom til mín í vandræðum sínum og bað mig að aðstoða sig. Ég tók því vel og var ráðinn til að koma honum yfir þá erfiðleika sem hann var að glíma við. Málið var að moka út blöðum því það biðu margar greinar birtingar. Ég virkjaði konuna mína í prófarkalestur og reyndi að bjarga málunum.

Örn: Blaðið hafði verið í lægð því fjárhagsörðugleikarnir gerðu okkur erfitt fyrir. Ég lagði málin þannig upp að það væri ekki hægt að gera neitt nema ráða til þess blaðamann. Sigurjón hefði unnið í prentsmiðjum og þekkti vel til.

Sigurjón: Ég þekkti sálarlíf prentara.

Birna: Já, það sakar ekki.

Örn: Á þessum tíma voru tölvurnar að koma til sögunnar og tæknin að breytast. Þess vegna þurfti mann sem kunni til verka. Um þetta leyti verða líka breytingar á stjórnun blaðsins. Skömmu áður hafði verið gerð sú breyting að ráðnir voru tveir ritstjórar og átti annar að sjá um fræðilega efnið en hinn það félagslega. Við Bjarni Þjóðleifsson urðum sammála um að þetta gengi ekki upp því það væri ekki hægt að aðskilja þessa þætti. Við fjölguðum því hratt í ritstjórninni og fengum leyfi til að ráða blaðamann.

Danmerkurárin

Skömmu eftir að Örn gerðist ritstjóri var ákveðið að flytja vinnslu blaðsins til Danmerkur. Hvernig bar það til?

Örn: Nordisk federation for medicinsk under­visning hélt mikla ráðstefnu á Akureyri 1978. Á þeim fundi heyrðum við af vandræðum Dana sem höfðu orðið að stofna eigið forlag og skipta um prentsmiðju vegna þess hversu dýr prentunin var orðin. Þeir fóru að tala utan af samstarfi og við Bjarni áttuðum okkur á að þetta var ágætur kostur. Um haustið sendu þeir okkur tillögur og höfðu þá meðal annars látið búa til letur með öllum íslensku bókstöfunum. Þeir gátu því slegið efnið inn í tölvu úti. Með tímanum fórum við svo að senda þeim efnið á diskum.

Jóhannes: Vandinn hér var að halda reglu á útgáfunni. Prentsmiðjan annaði ekki prentuninni, það var erfitt að ná í auglýsingar og fjárhagurinn var þröngur. Þessu var líka sinnt í áhlaupum meðfram öðrum störfum. Með ráðningu blaðamanns komst meiri regla á hlutina og tilboð Dananna féll mjög vel að þessari þróun. Þeir buðust til að sjá um auglýsingaöflunina og gátu auk þess tryggt reglulega útgáfu 12 sinnum á ári. Með þessu móti voru tekjurnar tryggðar?

Örn: Já, og það í dönskum krónum sem skipti máli á þessum árum.

Jóhannes: Þetta tilboð var hagstætt sem sést á því að við létum bjóða í prentun blaðsins hér heima nokkrum sinnum á þessum Danmerkurárum en Danirnir buðu alltaf betur. En svo kom að því að það breyttist.

Örn: Hugmyndin var sú strax í byrjun að vinnslan yrði flutt heim um leið og aðstæður leyfðu. Rökin fyrir flutningnum til Danmerkur voru því bæði fjárhagsleg og tæknileg.

Birna: Já, það var ekki saman að jafna þeirri tækni sem Danirnir gátu boðið upp á fyrir svo sérhæfða vinnslu sem útgáfa Læknablaðsins krefst og því sem þekktist í prentsmiðjum hér á landi. Þeir voru komnir miklu lengra og við nutum góðs af því.

- En var það ekki umhendis að láta prenta blaðið í útlöndum?

Jóhannes: Vinnslan gekk furðuvel á þessum tíma. Tölvutæknin varð til þess að menn fóru að skila greinum á diskum sem við sendum út. Þeir keyrðu út dálka sem við lásum yfir, röðuðum greinunum upp og sendum aftur út. Fyrst fór þetta með pósti en svo kom faxið til sögunnar. Stundum gátum við skroppið út og lagt á ráðin um tvö til þrjú blöð fram í tímann. Þrátt fyrir þessa fjarlægð styttist biðtími greina frá því þær bárust þangað til þær birtust úr mörgum mánuðum í fáa.

Örn: Við tókum allar ritstjórnarlegar ákvarðanir en vissum hins vegar ekkert um auglýsingarnar því þeir sáu alveg um að afla þeirra og raða þeim inn í blaðið.

Birna: Þótt setjararnir væru færir og gætu sett á íslensku gátu orðið slys í vinnslunni. Ég man til dæmis eftir því að einu sinni duttu þornin út úr einni grein sem fjallaði að því er virtist um pungunarpróf.

Heim í heiðardalinn

Árið 1994 flyst vinnsla blaðsins heim aftur. Hvað hafði breyst?

Vilhjálmur: Það var nú ýmislegt. Tæknilegar forsendur höfðu breyst og auk þess var Birna farin að afla auglýsinga í Fréttabréf lækna. Reyndar hafði sala auglýsinga og innheimta fyrir þær flust inn í landið en hún var að mestu leyti í Danmörku áður. Svo hækkaði verðið töluvert hjá Dönunum.

Jóhannes: Auglýsingarnar komu yfirleitt í gegnum umboðsmenn lyfjanna hér á landi en langflestir þeirra höfðu tengsl við framleiðendur í gegnum Danmörku.

Birna: Þetta breyttist nokkuð ört þannig að um­­boðin fluttust inn í landið og hættu að vera úti­bú. Þetta gerðist á örfáum árum. Sumum fannst hins vegar að Læknablaðið hefði mátt bregðast skjótar við breytingunum og flytja vinnsluna fyrr heim en það hefur viljað loða við læknasamtökin að breytingar gerast hægt.

- Árið 1983 var blaðinu skipt í tvennt með stofnun Fréttabréfs lækna.

Jóhannes: Ástæðan fyrir þessu var sú að það var hægt að gefa út Fréttabréfið með miklu styttri vinnslutíma en var á Læknablaðinu í Danmörku. Í þessu blaði voru fyrst og fremst félagslegar fréttir og umræður og svo stöðuauglýsingar og aðrar auglýsingar en lyfjaauglýsingar.

Vilhjálmur: Það gerðist raunar þegar á leið að lyfjaauglýsingarnar fóru að leita inn í Fréttabréfið, ekki síst vegna þess að umboðin voru að flytjast hingað heim.

- Með tilkomu Arnar í ritstjórastól hófst einnig nýr kapítuli í útgáfusögu læknasamtakanna því hann byrjaði að gefa út ýmis fylgirit og sérútgáfur sem síðan hafa verið fylgifiskar Læknablaðsins.

Örn: Já, við byrjuðum á því strax árið 1977 þegar við gáfum út Siðamál lækna sem var vinnu­gagn á Læknaþingi sem haldið var það ár. Þar birt­ust siða­reglur dönsku, bresku og bandarísku lækna­sam­takanna, auk Helsinki-yfirlýsingarinnar og fleiri alþjóðlegra yfirlýsinga um siðamál lækna. Fyrirmyndin að þessum fylgiritum var reyndar fengin frá Læknanemanum en þetta varð kærkominn vettvangur fyrir ýmislegt sem nauð­synlegt var að birta þótt það væri ekki í formi fræðigreina, til dæmis ágrip af læknaráðstefnum og efni frá læknaþingum.

Jóhannes: Svo voru gefin út ýmis sérrit um einstaka menn.

Birna: Já og um stofnanir, til dæmis Borgar­spítalann og Landakot.

Jóhannes: Mörg þessara fylgirita voru mitt á milli þess að vera fræðigreinar og almennar blaðagreinar.

Málgagn og/eða fræðirit?

Hvert var hlutverk blaðsins á þessum tíma?

Örn: Læknablaðið var og er fyrst og fremst málgagn læknasamtakanna. Eigendur þess eru LÍ og LR og forystumenn þeirra skrifa oft leiðara blaðsins. Stjórnir félaganna vissu að ritstjórnin þurfti að búa við fullkomið frelsi. Á okkur hvíldi hins vegar sú skylda að gera ekkert sem gæti skaðað félögin. Blaðið er opið fyrir gagnrýni, svo fremi hún sé málefnaleg. Það er líka vettvangur fyrir lækna til að birta efni fyrir íslenska lækna.

Vilhjálmur: Mér finnst gaman að heyra að þegar þið komuð að blaðinu hafi hlaðist upp efni sem þurfti að koma út. Þetta var fræðilegt efni og það hefur verið aðall blaðsins að birta slíkt efni þótt það hafi einnig verið málgagn félaganna. Þetta birtist í skiptingu blaðsins. Ég held þó að ástæðan fyrir langlífi blaðsins sé þetta fræðilega efni sem læknar fundu hjá sér hvöt til að tjá sig um og birta í blaðinu. Það er rauði þráðurinn í útgáfusögunni og samnefnari stéttarinnar hvað sem líður kjara­átökum og skærum milli manna og hópa.

Birna: Mér finnst tvennt vera mikilvægustu stoðir Læknablaðsins. Önnur er sú að halda uppi læknisfræðilegri umræðu á íslensku. Ef það er ekki gert þá verður engin læknisfræði hér á landi því hún verður að eiga sér stoð í slíkri umræðu. Hin stoðin er uppeldishlutverk blaðsins, bæði gagnvart læknum og læknanemum sem þurfa að fylgjast með umræðu um læknisfræði á íslensku og læra að tjá sig um þau vísindi sem þeir eru að tileinka sér á því máli sem þeir þekkja best.

Jóhannes: Ég held að á fyrstu áratugum blaðsins hafi það verið býsna þýðingarmikið málgagn innan læknahópsins. Menn skrifuðust á bæði fé­lags­lega og fræðilega. Nú er þetta líka mikilvægt mál­gagn því þar setja menn fram ýmsar hugmyndir og skoðanir sem aðrir fjölmiðlar vitna óspart í. Það á ekki síst við um heilbrigðispólitíska umræðu sem er í blaðinu.

Vilhjálmur: Í upphafi hefur hlutverk blaðsins ver­ið að miðla þekkingu milli lækna. Sú mynd hef­ur náttúrlega breyst mikið því læknar eru mennt­aðir í útlöndum, þeir tileinka sér fræðin á öðr­um tungumálum og lesa erlend læknablöð. Lækna­blaðið á því í samkeppni við önnur blöð og hún hefur harðnað ansi mikið. Samt gengur blaðið vel.

Ritrýni er ekki ritskoðun

Hvernig hafa samskiptin við eigendurna gengið? Var oft andað niður í hálsmálið á þér Örn?

Örn: Nei. Við gættum þess að vera réttlát gagnvart öllum höfundum. Reglurnar voru ljósar og menn fóru eftir þeim. Blaðið var hlutlaust gagnvart félögunum og þau gagnvart okkur vegna þess að þau vissu að ritstjórnin var í okkar höndum en ekki þeirra.

Vilhjálmur: Blaðið var og er vettvangur skoð­ana­skipta og tekur ekki afstöðu í málum. Allt efni er birt undir nafni og hver og einn tekur sína afstöðu. Og þótt ýmislegt gerist bæði innan félaganna og utan þeirra þá er mjög mikilvægt að blaðið standi öllum læknum opið.

Jóhannes: Var ekki helst kvartað yfir blaðinu ef fjárhagur þess var erfiður?

Birna: Ég minnist atvika þar sem menn gerðu sig líklega til að slá á fingur ritstjóranna en það varð ekki, sem betur fer. Frelsi ritstjórnarinnar er grundvallaratriði í svona útgáfu.

Vilhjálmur: Á hinn bóginn hafa ritstjórar blaðsins stundum legið undir ámæli um að þeir stundi ritskoðun. Það er að mínu viti misskilningur á hugtökum. Ritskoðun er verk stjórnvalda sem banna umræðu um tiltekin mál eða framsetningu ákveðinna skoðana í allri pressunni. Við stundum hins vegar ritrýni og ritstýringu sem er allt annar hlutur og skerðir ekki ritfrelsi manna.

Jóhannes: Menn þekkja reglurnar sem gilda og vita að hverju þeir ganga.

Örn: Ritrýnin sem við tókum upp eftir öðrum blöðum hefur eingöngu verið til góðs enda felst hún í því að við fáum færa menn til að lesa yfir grein­ar og benda höfundum á hvernig megi bæta þær. Hún hefur bæði þann tilgang að þjálfa menn í að ritrýna greinar og höfundana í því að taka gagnrýni og leiðbeiningum.

Vilhjálmur: Ritrýnisferillinn er ekki bara til að auðvelda ritstjórninni að velja efni í blaðið heldur til að bæta efnið og gera það sem sannast og læsilegast. Þetta er hluti af trúverðugleika blaðsins og viðtekin venja um allan heim.

Umræða á mannamáli

Hefur Læknablaðið einhvern tíma mótað sér stefnu í heilbrigðispólitík?

Birna: Mér fannst stefnan vera sú að ýmis heilbrigðispólitísk mál og siðferðileg mál væri skynsamlegra að ræða á síðum Læknablaðsins en annars staðar. Ég er á því að þetta hafi verið skynsamleg stefna.

Örn: Stefnan liggur í því að þetta er málgagn. Blaðið er ekki réttlætt af einhverju utanaðkomandi heldur af því sem í því er. Blaðið heldur uppi umræðu um læknisfræði á máli sem allir skilja og auðveldar læknum að tala við sjúklinga sína á mannamáli.

Vilhjálmur: Við höfum lagt blaðið fram sem vettvang fyrir umræðu um læknisfræði og þannig hefur blaðið haft mest áhrif á læknisfræði í landinu. Þar geta menn sett fram skoðanir sínar og þekkingu og fengið við henni viðbrögð. Það er ekki bara lesið af litlum, lokuðum hópi lækna.

Jóhannes: En hvað um málefni eins og uppbyggingu Landspítalans, myndi blaðið geta tekið afstöðu í því máli?

Örn: Nei, það held ég að mönnum myndi aldrei detta í hug að gera.

Vilhjálmur: Ég held að ritstjórnin sé ekki rétti vettvangurinn til að taka slíkar ákvarðanir. Það hefur að sjálfsögðu hver sína skoðun en ritstjórnin sem hópur lætur ekki sína afstöðu í ljós.

Védís: Blaðið hefur líka fest sig í sessi með því að auka taktfestuna í útgáfunni, auk þess sem form­ið og útlitið hefur breyst og umfangið stækkað. Nú eru menn orðnir vanir ritrýninni og vita hvernig þeir eiga að ganga frá greinum til birtingar. Það er búið að ala þá upp í Vancouver-reglunum. Blaðið nýtur þess líka að áhugi almennings á heilbrigðismálum og öllu sem lýtur að heilsufari hefur aukist gífurlega. Það hefur áhrif á lækna sem verða að geta talað við upplýstari sjúklinga á íslensku um sjúkdóma sem þeir lærðu um fyrir þremur áratugum. Þess vegna er blaðið liður í símenntun lækna.

Menn kunna orðið reglurnar

Hvernig var blaðið ritrýnt þegar Örn tók við?

Örn: Ég sinnti því einn til að byrja með. Svo komu Vancouver-reglurnar til skjalanna en þær eru byggðar á eldri reglum. Vancouver-hópurinn gerði uppbyggingu greina og framsetningu efnisins skýrari og aðgengilegri, einkum hvað varðar heimildaskrár.

Sigurjón: Ég man eftir að Örn var að senda grein­ar til yfirlestrar út í bæ þannig að einhver ritrýni var komin á. Svo man ég líka að hann hafði stundum á orði að einhver grein væri ekki birtingarhæf en ég vissi aldrei hvað varð um þær greinar.

Jóhannes: Stundum sáu menn strax að grein var verulega gölluð og þá var rætt við höfundana um það. Aðrar greinar voru sendar í ritrýni sem stundum gat verið óvægin. Ég man að ég undraðist stundum hversu vel menn tóku gagnrýni sem gat verið verulega hörð.

Vilhjálmur: Það er nú ekki algilt og stundum geta höfundar verið ákaflega viðkvæmir fyrir gagnrýni. Þegar ég kom inn í ritstjórnina var mikil umræða um það hvernig ætti að haga ritrýninni. Við Birna sóttum fund í Bretlandi þar sem rætt var hvort ritrýnin ætti að vera tvíblind, það er að höfundar og ritrýnar viti ekki hverjir af öðrum. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir og engin algild regla við lýði. Við höfum kosið að halda uppi tvíblindri ritrýni þótt auðvitað sé erfitt að halda hlutunum leyndum í þessum fámennu sérfræðingahópum. Sú regla er þó alls staðar í gildi að öll samskipti milli ritrýna og höfunda fer fram í gegnum ritstjórn sem er einskonar eldveggur á milli þeirra. Vandi okkar er sá að gæta þess að ekki sé hætta á hagsmuna­árekstrum á milli ritrýna og höfunda.

Birna: Ég er svo mikill formalisti og finnst mikill kostur að hafa fastar reglur því þá vita allir hvernig þeir eiga að haga sér. Ég gat oft skýlt mér á bak við regluna um tvíblinda ritrýni og sagt höfundum að þeir fengju ekki að vita hver ritrýndi og mér þótti það gott, jafnvel þótt allir vissu hver var að fjalla um helicobacter pylori. Þetta skiptir máli því reglurnar tryggja höfundum að þeir hljóti réttláta málsmeðferð og að ekki sé gerður mannamunur.

Védís: Ég finn að þetta er orðið inngróið enda margir höfundar farnir að skrifa greinar í erlend blöð þar sem sömu reglur gilda. Það gerist aldrei núorðið að menn séu að forvitnast um það hver ritrýni.

Vilhjálmur: Það er skiljanlegt því þetta er skýrt tekið fram í Vancouver-reglunum. En við megum ekki gleyma því að ábyrgð ritrýnis er mikil. Hann er oft að fjalla um margra ára vinnu hóps manna og verður að sýna höfundum fulla virðingu, gæta þess að laða fram það besta og leiða menn fram á veginn en ekki víkja þeim burt með þótta.

Hagsmunir og persónuvernd

Vilhjálmur minntist á hagsmunaárekstra og þess eru jafnvel dæmi að læknablöð hafi orðið fyrir barð­inu á svindlurum. Er þetta mikið vandamál?

Örn: Ég man að menn höfðu víða miklar áhyggjur af því að ritrýnar væru að stinga greinum undir stól eða fá lánaðar hugmyndir annarra í leyfisleysi og birta sem sínar eigin. Þessu höfðum við ekki miklar áhyggjur af hér í fámenninu en ef það kom fyrir að ritrýnar skiluðu greinum ekki á tilsettum tíma þá var bara fenginn annar ritrýnir. Hinn vandinn er svo að menn séu að ljúga. Því fylgir hins vegar sú hætta að menn fái lygina í hausinn aftur af því aðrir geta ekki sannprófað niðurstöðurnar.

Vilhjálmur: Hagsmunaárekstrar hafa alltaf ver­ið til en umræðan um þá hefur verið mikil á síðustu árum. Fyrir utan svindlið sem Örn nefndi þá óttast menn aðallega að fjárhagsleg tengsl vís­indamanna og fyrirtækja skekki mat manna á niðurstöðunum. Tengslin þurfa ekki að gera það en vitneskjan um að tengsl séu til staðar er nóg til þess að svipta menn trúverðugleikanum sem er nauðsynlegur í vísindum. Þess vegna er svo brýnt að greina frá öllum slíkum tengslum í upphafi því ef þau koma ekki fram fyrr en eftir birtingu er skað­inn skeður. Oft eru þessi tengsl skýr, menn eru á launum hjá einhverjum fyrirtækjum. En tengslin geta verið af ýmsum toga, persónuleg, trúarleg og svo framvegis.

- Lögin um gagnagrunninn voru mikið í umræðunni og breyttu bæði reglum og viðhorfum fólks til persónuverndar. Hefur sú breyting haft einhver áhrif á útgáfu Læknablaðsins, jafnvel takmarkað möguleika þess á að birta efni?

Birna: Ekki fannst mér það meðan ég var hér. Vitaskuld hefur margt breyst, ekki síst tæknin við skráningu upplýsinga sem veldur því að hlutir sem áður voru ekkert sérlega viðkvæmir eru orðnir að púðurtunnu. Nú hafa möguleikarnir á að stilla hlutum saman aukist svo mikið að einstaklingurinn er eins og allsbert barn frammi fyrir Stóra bróður. Þessar siðferðislegu spurningar hafa orðið meira knýjandi en þær voru.

Örn: Þessar umræður hófust fyrr úti í Evrópu því árið 1996 var samþykktur Evrópusáttmáli um lífsiðfræði í Strasbourg. Hann hafði þau áhrif að menn vissu að ekki var hægt að setja lög sem stönguðust á við hann. Það reyndu menn samt en að sjálfsögðu vildi enginn verða fyrir skakkaföllum vegna þess að upplýsingar um hann færu á flakk. Meirihluti lækna var á móti þessu og Læknablaðið hélt uppi menningarlegri umræðu um málið. Þar kom málgagnið að góðum notum.

Vilhjálmur: Ég held ekki að gagnagrunnsumræðan hafi breytt miklu fyrir blaðið, hvorki hvað varðar afstöðu blaðsins eða aðstreymi fræðigreina og umfjöllun um þær. Ég held að íslenskir læknar hafi í stórum dráttum farið að alþjóðlega viðurkenndum siðferðisreglum um persónuvernd þótt eflaust megi finna undantekningar frá því. Yfir­völd persónuverndarmála og vísindasiðanefndir leysa ritstjórnina ekki frá ábyrgðinni að meta að­sent efni frá persónuverndar- og siðfræðilegum sjón­ar­miðum.

Við vitum ekki hvað við vitum ekki

Tölvutæknin hefur breytt fleiru í umhverfi lækna, til dæmis hvað snertir upplýsingastreymi til lækna og um læknisfræði. Hvaða áhrif hefur þetta haft á blaðið?

Birna: Þegar netútgáfur læknablaðanna byrjuðu var því spáð að nú yrði pappírsútgáfan fljótlega úr sögunni en manneskjan er í eðli sínu dálítið íhaldssöm og þótt læknar hafi verið fljótir að tileinka sér tölvutæknina þá hafa þeir líka rekið sig á að það eru ekki allar lindir opnar. Það eru settar peningalegar hömlur á upplýsingastreymið og menn verða oft að borga fyrir meira en þeir hafa þörf fyrir.

Védís: Breytingarnar hafa orðið gífurlegar á undanförnum árum og þær ná til allra kynslóða, ekki bara þeirra yngri. Ég fór á fund hjá eldri læknum um daginn og var mætt þar klukkan fjögur. Þá höfðu læknarnir verið í tölvunum og vissu allir af því að Læknablaðið var komið á netið en ég hafði sent út tilkynningu um það klukkan kortér yfir þrjú. En ég er sammála því að pappírsútgáfan mun halda velli við hliðina á netútgáfunni. Eflaust sækir þetta í sama far og hjá mörgum fjölmiðlum að menn þurfi að kaupa sig inn í hluta blaðsins. Það er þó engin efnahagsleg nauðsyn fyrir Læknablaðið því kostnaður við að koma efninu á netið er ótrúlega lítill, miklu minni en við dreifingu pappírsútgáfunnar. Þarna hafa líka skapast dásamleg leitarskilyrði sem aldrei hafa verið til áður.

Örn: Það er óskaplega mikilvægt því einsog Archibald Cochrane, upphafsmaður þess sem kallað er sannreynd vísindi, sagði þá er stærsti vandinn sá að við vitum ekki hvað við vitum ekki. Þeirra spurninga þarf að spyrja og þá er gott að hafa öflugt tæki til að leita svara.

Vilhjálmur: Aðgangurinn að upplýsingum hefur margfaldast og vandinn er ekki lengur sá að afla upplýsinga heldur að fá þær metnar. Þar koma lækna­blöðin til skjalanna, hvort sem þau eru gefin út á papp­ír eða á netinu, því þar er búið að leggja mat á upp­lýs­ing­ar og setja þær fram á aðgengilegan hátt.

Fallegt blað á framtíðarvegi

Einsog áður hefur komið fram ber Læknablaðið aldurinn vel en hvernig líst mönnum á stöðuna og framtíðina?

Sigurjón: Blaðið er fallega umbrotið og allt geðugt í kringum það svo ég vil endilega sjá pappírsútgáfuna sem lengst.

Birna: Örn nefndi það þegar hann fékk Sigurjón til að koma lagi á blaðið að það hefði verið nauð­synlegt að fá fagmann til að annast það. Þetta vissum við þegar við ákváðum að breyta útliti blaðsins. Þá leituðum við til þess fagmanns sem við töldum standa fremstan, Guðjóns Sveinbjörnssonar, vegna þess að það verður að standa að slíkum breytingum af fullri reisn. Það skiptir máli hvernig hlutirnir líta út, það setur menningarbrag á útgáfuna.

Jóhannes: Örn hafði það mikla innsýn í útlit og framsetningu að hann vissi hvað hann vildi og það skipti miklu máli fyrir þróun blaðsins.

Védís: Eðli blaðsins er að það er lifandi og útlitið breytist smátt og smátt. En þó þetta sé í fyrsta sinn sem útlit blaðsins er hannað frá grunni þá hefur það augsýnilega verið unnið af fagmennsku alla tíð.

Birna: Ég sé ekki annað fyrir mér en bjarta og gæfuríka framtíð. Það hefur borið gæfu til að hafa frábæra ritstjóra sem búa yfir víðsýni og vitund um hin siðferðislegu mörk.

Jóhannes: Blaðið hefur þróast hægt og rólega og fylgst með þróuninni. Þess vegna hafa menn haft tækifæri til hugsa málin og spá í möguleikana sem framundan eru. Ef það kemur upp einhver ný tækni í framtíðinni þá er ég viss um að blaðið mun takast á við hana.

Vilhjálmur: Það er nú erfitt að spá en ég held að meðan til er íslensk læknisfræði þá verði til íslenskt læknablað.

Þetta þóttu öllum prýðileg lokaorð svo hér var umræðum hætt.

Þátttakendur í hringborðs­umræðunum, fremri röð frá vinstri: Örn Bjarna­son, Birna Þórð­ar­dóttir, Vilhjálmur Rafns­son; aftari röð: Védís Skarphéðinsdóttir, Jóhannes Tómasson, Sigurjón Jóhannsson.

Ragnheiður Inga Bjarnadóttir í ritstjórn blaðsins frá 2002, Guðrún Jónsdóttir og Hulda Hjartar­dóttir í stjórn LÍ.

Karl Andersen í ritstjórn blaðsins frá 2000, Einar Stef­ánsson í ritstjórn 1991-1996, Sigurður Guð­mundsson í ritstjórn 1987-1995, Árni Kristinsson, Guðmundur Þorgeirsson í ritstjórn 1983-1990 og Gunnar Sigurðsson í ritstjórn 1995-2000.

Örn Bjarnason lék á als oddi.

Einar Stefánsson, Guðmundur Þorgeirsson, Sigurður Guðmundsson og Þröstur Haraldsson frá Læknablaðinu.

Fimm þeirra sem völdu greinar í afmælisblað Læknablaðsins: Hildur Harðardóttir, Guðrún Jónsdóttir, Guðmundur Þorgeirsson, Þorvaldur Veigar Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson.

Þorvaldur Veigar var í ritstjórn Fréttabréfs lækna 1983-1985, Hannes Petersen hefur setið í ritstjórn Læknablaðsins frá 1997, Sigurður Guðmundsson og Árni Kristinsson.

Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ og Guðrún Jónsdóttir.

Örn Bjarnason sem á stór­an þátt í velgengni Læknablaðsins og Jó­hannes Björnsson sem setið hefur í ritstjórn frá 2002.

Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Tómas R. Einarsson og Jóhanna V. Þórhallsdóttir tóku nokkur fjörug lög.

Ábyrgðarmaður Lækna­blaðsins, Vilhjálmur Rafnsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica