03. tbl. 91. árg. 2005

Landlæknisembættið rannsakar Vioxx

Talsverð umræða hefur orðið hér á landi og raunar um allan heim í kjölfar þess að gigtarlyfið Vioxx var tekið af markaði á síðastliðnu hausti. Eins og fram hefur kom­ið hér í blaðinu og víðar komu í ljós vís­bend­ingar um að töku lyfs­ins fylgdi aukin áhætta á blóðsegamyndun, kransæðastíflu og heilablóðföllum. Nú stendur til að gera rann­sókn á því hvort slík tengsl eru grein­an­leg hér á landi.

Það er Landlæknisembættið sem á frum­kvæðið að því að þessi könnun verði gerð en þegar blaðið fór í prentun var undir­bún­ingur hennar á byrjunarstigi og ekki búið að fá tilskilin leyfi til að gera hana. Auk starfsmanna landlæknis hafa þeir Sigurður B. Þorsteinsson og Guðmundur Þorgeirsson á Land­spítala og Magnús Jóhannsson hjá Lyfja­­stofnun verið fengnir til að vinna að rann­sókninni.

Guðmundur sagði í spjalli við Lækna­blaðið að ætlunin væri að nota lyfja­gagna­grunn Tryggingastofnunar ríkisins sem skráir alla sem Tryggingastofnun hefur greitt fyrir Vioxx og önnur gigtarlyf. Sú skrá verður síðan borin saman við skrá yfir alla þá sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús með hjartaáfall, hvikula hjartaöng eða heilablóðfall á þeim tíma sem lyfið var á markaði.

"Það er flókið að sýna fram á hvort þarna séu tengsl á milli og rannsóknin gæti tekið talsverðan tíma. Það komu hins vegar fram sterkar vísbendingar í rannsókn sem gerð var á vegum lyfja­fyrirtækisins sem framleiðir Vioxx um að slík tengsl væru til staðar. Þar var gerður samanburður á tveimur hópum þar sem annar fékk Vioxx en hinn ekki en markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif lyfsins á myndun ristilkrabbameins. Fyrir skömmu birtist einnig grein í Lancet um rannsókn sem gerð var á veg­um bandarísks sjúkrasamlags en hvor­ug þessara rannsókna afgreiðir mál­ið endanlega. Það er því full þörf á að kanna áhrif lyfsins betur," sagði Guð­mund­ur Þorgeirsson.

Háar tölur hafa verið nefndar í Banda­ríkj­­un­um um þá sem tóku Vioxx og sem hugs­an­lega létust eða urðu fyrir áföll­um í framhaldi af töku lyfsins. Aðrar þjóð­ir hafa síðan reynt að yfirfæra þær töl­ur yfir á sig en því fylgir mikil óvissa þar sem sjúkdómamynstur, lyfjaneysla og lækn­is­með­ferð er talsvert frábrugðin milli landa. Það eru því engar áreiðanlegar töl­ur til um áhrif Vioxx eða skyldra lyfja hér á landi en rann­sókn landlæknis er ætlað að afla slíkra upp­lýs­inga.

- ÞH



Þetta vefsvæði byggir á Eplica